Mannlíf

Jesús var góðhjartaður og klár náungi
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 15. mars 2020 kl. 07:40

Jesús var góðhjartaður og klár náungi

segir Hafþór Ernir Ólason, Garði sem fermist í vor

„Ég er að fermast af því að ég trúi á Guð og er að sanna það og auðvitað að staðfesta skírnarsáttmálann. Ég hef hugsað um það hvað það var gott að mamma og pabbi létu skíra mig þegar ég var lítið barn. Eftir að ég byrjaði í fermingarfræðslunni þá fer ég oftar í kirkju og finnst fallegt að hlusta á kirkjukórinn,“ segir Hafþór Ernir Ólason, Garði sem á að fermast í vor.

„Ég skil allt sem verið er að tala um í kirkjunni og er búinn að læra helling um Jesú í vetur. Þetta var klár náungi, mjög góðhjartaður en gat orðið reiður, var mjög ákveðinn. Hann var með mikið skap, sem ég þekki sjálfur en ég fæ útrás fyrir kraftinn minn í íþróttum og æfi körfu með Keflavík. Ég bið Guð oft að hjálpa okkur að vinna leiki, það klikkar ekki ef ég bið hann. Ég er mjög spenntur fyrir fermingardeginum. Fjölskyldan er mjög stór en ég vildi bara bjóða þeim sem ég þekki og veit hverjir eru. Salurinn er frekar lítill. Það verður lambalæri í veislunni sem bróðir hans pabba ætlar að elda en hann er meistarakokkur. Ég vil vera í þægilegum fötum, hvítri skyrtu með slaufu og í svörtum fínum gallabuxum og ætla ekki að vera eins og gömlu kallarnir í leðurskóm, heldur vil ég vera í nokkurs konar strigaskóm. Ég fer í klippingu og kannski í húðhreinsun, hef prófað það og finnst það gott.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024