Mannlíf

Hjálmar með myndskreytta barnabók um kórónuveiruna
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 24. október 2020 kl. 10:51

Hjálmar með myndskreytta barnabók um kórónuveiruna

þýdd á tæplega tuttugu tungumál og m.a. gefin út í Færeyjum og Litháen fyrir jól

Ég er kórónuveiran er ný barnabók eftir Hjálmar Árnason en Fanney Sizemore myndskreytti. „Kórónuveiran hoppar á milli fólks. Hvernig forðumst við hana? Sóley litla vill ekki þvo sér um hendurnar. Hvað gerist þá? Og hvað gerist þegar Sóley loksins þvær sér um hendurnar? Hvernig fer þá fyrir kórónaveirunni?,“ segir í bókarkynningu.

Aðspurður um tilurð bókarinnar sagði Hjálmar: „Kórónuveiran er alltaf til umræðu og alltaf verið að gefa einhver góð ráð. Passið ykkur á þessu og passið ykkur á hinu en svo gleymast börnin svolítið. Ég var í einni af mínum fjallgöngum að velta þessu fyrir mér og fór í huganum að búa til einhverja svona sögu og prófaði hana á barnabörnum, nokkrum kunningjum og kennurum sem ég þekki. Það líkaði öllum mjög vel, þannig að ég ákvað bara að skrifa söguna. Þetta er nú ekki langur texti, þetta var aðallega hugmyndin og þá þurfti einhvern til að myndskreyta. Sossa vinkona mín var upptekin, þannig að ég ræddi við Godd, Guðmund Odd Magnússon, hjá listaháskólanum og hann benti mér á á Fanneyju Sizemore. Ég kynnti hana fyrir sögunni og hún sagðist vera með. Hún teiknaði söguna og ég er mjög hrifinn af hennar teikningum. Eftir að vera kominn með bókina talaði ég við Jakob hjá Uglu útgáfu og hann steinféll fyrir þessu og bókin er að koma í verslanir í þessari viku,“ segir Hjálmar Árnason, höfundur bókarinnar Ég er kórónuveiran.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hjálmar er ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur með útgáfu bókarinnar. Hún kemur út á íslensku í þessari viku en hefur þegar verið þýdd á tæplega tuttugu tungumál. Kórónuveiran hefur smitast hratt á milli landa og barnabókin um kórónuveiruna virðist einnig ætla hratt á milli landa. Færeysk útgáfa bókarinnar kemur út í nóvember og einnig í Litháen á næstu vikum. Þá er umboðsmaður að semja við forlög víðsvegar um heiminn um útgáfu bókarinnar. „Kórónuveiran er alþjóðlegt fyrirbrigði og heldur betur í útrás þannig að þessi í bókinni má fara í útrás líka,“ segir Hjálmar og segist halda að þetta sé örugglega ein fyrsta barnabókin í heiminum um kórónuveiru. „Það skiptir mestu máli er að ég er búinn að prófa efni bókarinnar á nokkrum krökkum og hún er að falla í góðan jarðveg þar,“ segir Hjálmar.

„Ég er að skrifa mig inn í nýtt líf. Eftir að ég hætti hjá Keili fór ég á netnámskeð hjá Einari Kárasyni, rithöfundi, til að læra að skrifa bækur. Ég fór líka á ljósmyndanámskeið. Ég er að dunda við það þessa dagana að taka myndir, ganga á fjöll og skrifa. Þessi bók um kórónuveiruna er það fyrsta sem kemur út úr því en það er fleira í bígerð, bæði barnabækur og bækur fyrir fólk á öllum aldri. Ég hef mjög gaman af þessu,“ segir Hjálmar sem var staddur í Guðrúnarlundi við Hvaleyrarvatn ásamt Valgerði Guðmundsdóttur konu sinni þegar Víkurfréttir heyrðu í honum. Þar voru þau að njóta náttúrunnar en Guðrúnarlundur er kenndur við ömmu Valgerðar sem fékk í afmælisgjöf að afkomendur hennar hófu gróðursetningu við Hvaleyrarvatn fyrir 30 árum. Í dag eru trén orðin fjögurra metra há og mikil paradís. Eftir að Hjálmar hætti hjá Keili hefur hann varið miklum tíma í að njóta náttúrunnar, farið í fjöldan allan af fjallgöngum og svo brunar hann um stíga á höfuðborgarsvæðinu á rafknúnu reiðhjóli. „Þetta heitir frelsi,“ segir hann og hlær.