Mannlíf

Herramaður og mjög hæfileikaríkur
Elíza með plakatið góða frá tónleikunum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 16. ágúst 2019 kl. 07:55

Herramaður og mjög hæfileikaríkur

-segir tónlistarkonan Elíza Newman sem kom fram á sömu tónleikum og Ed Sheeran árið 2010.

„Hann er rosalega duglegur og skipulagður og ég sá að hann var metnaðargjarn en hann er líka mikill herramaður og vingjarnlegur,“ segir Elíza Newmann, tónlistarkona og kennari úr Keflavík en hún rifjaði það upp á Facebook að hún kom fram á tónleikum í London árið 2010 með Ed Sheeran, sá hinn sami og söng nú fyrir 50 þúsund Íslendinga um síðustu helgi. 

Elíza birti mynd af plakati með auglýsingu um tónleikana en þar voru Ed og hún stærstu númerin. Hún var næst síðust í röðinni og hann síðastur. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Þetta var um 150 manna staður og margir tónlistarmenn vilja komast á þessi klúbbakvöld eins og þau eru kölluð í London. Við vorum bæði að gefa út plötu á þessum tíma og þetta var í upphafi ferils hans. Hann var orðinn nokkuð vinsæll því það komu um 50 gargandi skvísur til að horfa á hann og hlusta. Það er eftirminnilegt frá þessum tónleikum að rafmagnið fór af þegar hann var nýkominn upp á svið en þá lék hann bara órafmagnað á kassagítarinn, fremst á sviðinu á meðan beðið var eftir því að rafmagnið kæmist á aftur. Það gerðist um korteri síðar,“ rifjar Elíza upp.

Spjallaðir þú eitthvað við hann?

„Já, já, bara svona eitthvað almennt. Hann spurði mig eitthvað út í Ísland og svoleiðis. Hann er mjög vingjarnlegur og jú mjög hæfileikaríkur. Hann söng þarna nokkur lög sem síðan komu á fyrstu plötunni hans. Hann hrósaði mér fyrir tónlistina mína og það var gaman að spjalla við hann. Maður gerði sér kannski ekki alveg grein fyrir því þá að hann yrði svona rosalega góður og frægur,“ segir Elíza sem hefur áður komið fram með stórsveitum á borð við Coldplay og Blur.

Elíza sem nú býr í Höfnum á Reykjanesi fór ekki á tónleikana með kappanum hér heima. „Það heillaði mig ekki alveg að fara á tónleikana innan um tugi þúsunda. Tónleikarnir með honum árið 2010 lifa í minningunni,“ segir Hafnakonan og hlær.

Elíza hefur starfað lengi í tónlistinni hér heima og einnig reynt fyrir sér erlendis. Hún var í hinni frægu hljómsveit Kolrössu krókríðandi og hefur undanfarin ár staðið fyrir tónleikum í Kirkjuvogskirkju í Höfnum á Ljósanótt. Þar hefur hún komið fram en einnig fengið þekkta íslenska tónlistarmenn. Hinn magnaði Jónas Sig verður með Elízu að þessu sinni. Nú starfar hún í Háaleitisskóla á Ásbrú og er deildarstjóri eldra stigs.

Hún er að vinna að nýrri plötu og mun kynna nýtt lag á næstu vikum. „Ég stefni að því að klára nýja plötu á næstu mánuðum. Vinna við hana hefur gengið aðeins hægar því ég ætlaði mér að nota sumarið en þetta góða veður hefur truflað þá vinnu,“ segir Elíza.

Elíza unir sér vel í Höfnum á Reykjanesi.