Blik- mannstu eftir Eydísi
Blik- mannstu eftir Eydísi

Mannlíf

Geðveikt kaffihús og Geðveikur markaður á Ljósanótt
Tinna Pálsdóttir starfsmaður, Írena Guðlaugsdóttir félagsráðgjafi og Elín Arnbjörnsdóttir ráðgjafi framan við húsnæði Bjargarinnar við Suðurgötu í Keflavík. VF-mynd: Hilmar Bragi
Miðvikudagur 29. ágúst 2018 kl. 09:35

Geðveikt kaffihús og Geðveikur markaður á Ljósanótt

Björgin - Geðræktarmiðstöð Suðurnesja er falin perla við skrúðgarðinn í Keflavík. Þar er rekin grunnendurhæfing og athvarf fyrir einstaklinga með einhverskonar geðheilsuvanda. Fólk sækir þangað til að koma í veg fyrir félagslega einangrun. Þar er opið yfir daginn og fólki frjálst að koma þegar það vill til að hitta annað fólk og taka þátt í því starfi sem þar fer fram. Skjólstæðingar Bjargarinnar ætla að vera með Geðveikt kaffihús og Geðveikan markað á Ljósanótt í Reykjanesbæ.
 
Starfsemi Bjargarinnar er rekin af Reykjanesbæ en þjónustan sem þar er veitt er fyrir einstaklinga frá öllum sveitarfélögum Suðurnesja. Írena Guðlaugsdóttir, félagsráðgjafi hjá Björginni, segir í samtali við Víkurfréttir að Suðurnesjafólk sé duglegt að sækja úrræðið. Í Björgina koma 30-50 manns á dag og yfir mánuðinn eru það um 90 einstaklingar sem eru virkir í starfinu.
 
Það getur verið erfitt fyrir fólk að brjóta ísinn og koma í Björgina í fyrsta skiptið. Það staðfestir Sigurósk Tinna Pálsdóttir, starfsmaður Bjargarinnar. Hún var áður skjólstæðingur Bjargarinnar og kom þangað í fyrsta skiptið í febrúar í fyrra. Hún segist hafa gert margar tilraunir áður en henni tókst að stíga skrefið og mæta í Björgina. 
 
„Þetta voru þung og erfið skref,“ segir hún og segir að margar spurningar hafi sótt á sig: „Á ég heima hérna og hvaða fólk er hérna,“ segir hún. Tinna segir að á þessu eina og hálfa ári sem hún eigi að baki í Björginni, þá hafi líf hennar algjörlega snúist við og til betri vegar. 
 
„Þetta er besti staður sem ég veit um,“ segir Tinna.
 
Þrír ráðgjafar starfa hjá Björginni og aðstoða skjólstæðinga hennar við ýmis réttindamál og fjölbreytta hluti hins daglega lífs. Þá er ákveðin dagskrá í gangi sem hefur tekið miklum breytingum síðustu vikur og mánuði en stofnuð hefur verið „Bjargarnefnd“ sem vinnur að fjölbreyttu starfi. Nefndin starfrækir einnig sjoppu innan Bjargarinnar og hagnaðurinn af henni er nýttur til að auka á fjölbreytni í starfinu og standa straum af kostnaði við það. 
 
Á ljósanótt verður Björgin t.a.m. með Geðveikt kaffihús í Hvammi við Suðurgötu og einnig markaður þar sem ýmis varningur verður boðinn til sölu. Skjólstæðingar Bjargarinnar hafa síðustu daga verið að baka fyrir kaffihúsið, auk þess sem rjúkandi rjómavöfflur verða á boðstólnum þá daga sem kaffihúsið verður opið. 
 
Kaffihúsið verður opið föstudag, laugardag og sunnudag kl. 13:00 til 18:00.
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs