Mannlíf

Frönsk matargerð í anda Juliu Child á Library
Bergþóra og Jóhanna lofa góðum mat og skemmtun á Library. VF-mynd/Marta.
Miðvikudagur 6. mars 2019 kl. 09:28

Frönsk matargerð í anda Juliu Child á Library

Skemmtileg stemning og góður matur á Safnahelgi 9.–10. mars. „Við viljum taka þátt á nýjan hátt,“ segir Bergþóra Sigurjónsdóttir, hótelstjóri á Park Inn.

Bækur og matur eru áberandi á veitingastaðnum Library Bistro sem hefur svo sannarlega slegið í gegn hjá íbúum Suðurnesja. Framundan eru fjölbreyttir menningarviðburðir sem hefjast um Safnahelgi með pomp og prakt á Library en staðurinn er staðsettur á Park Inn by Radisson hótelinu í Reykjanesbæ. Hótelstjórinn, Bergþóra Sigurjónsdóttir, og Jóhanna Pálsdóttir, markaðsstjóri, vilja bjóða upp á upplifun fyrir matargesti.

Komdu út að borða!

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Um Safnahelgi ætlum við að sameina menningu og góðan mat á Library Bistro. Okkur langar að skapa skemmtilega stemningu fyrir gesti okkar þar sem við tengjum saman bókamenningu við matarmenningu. Að þessu sinni langar okkur að tengja eldhúsið okkar við matargerð Juliu Child, konunnar sem kynnti franska matargerð fyrir samlöndum sínum í Ameríku. Hver man ekki eftir Juliu Child? Fyrir þá sem eru í vafa þá var hún bandarískur kokkur, rithöfundur og með ákaflega vinsæla ameríska sjónvarpsþætti á sjötta og sjöunda áratugnum. Til gamans ná nefna að Meryl Streep lék þessa konu meistaralega vel í kvikmyndinni Julie & Julia sem fjallar um þessa skrautlegu konu. Safnahelgin verður innblásin af franskri matargerð hjá okkur í anda Juliu Child,“ segir Bergþóra og brosir.



Julia Child lét ekkert stöðva sig í eldhúsinu.
 

Ástir og örlög einkaspæjarans í hádeginu

„Þetta er ekki allt því okkur langar einnig að skemmta gestum okkar með höfundaheimsóknum og sú fyrsta sem ríður á vaðið er Marta Eiríksdóttir rithöfundur. Hún mun lesa upp úr nýjustu bók sinni um Mojfríði einkaspæjara svo maturinn renni ljúflega ofan í gesti okkar. Uppákoma sem vafalaust kemur gestum okkar í gott skap áður en þeir fara út í daginn að skoða öll söfnin. Marta verður hjá okkur í hádegisbyrjun, bæði laugardag og sunnudag, þegar við bjóðum upp á bröns innblásinn af Juliu Child. Hún mun fjalla á kómískan hátt um lífið og tilveruna eins og henni einni er lagið. Við sjáum það fyrir okkur að gestir Safnahelgar byrji daginn hjá okkur og komist í gott skap. Fari svo saddir og sælir um Suðurnesin að skoða alla þá viðburði sem í boði verða. Þetta er uppskrift að frábærum degi,“ segir Jóhanna.

Frönsk kvöldstund

„Við hættum ekki þarna því við munum bjóða upp á sérstakan kvöldmatseðil í anda Juliu Child þar sem klassískir, franskir réttir munu vera í heiðursæti. Safnahelgin gefur okkur tækifæri til að fara nýjar leiðir og blanda saman mat og menningu. Við viljum taka þátt á nýjan hátt í Safnahelgi og krydda mannlíf íbúa með lifandi innleggi. Þessi og fleiri viðburðir bíða gesta okkar því framundan eru fleiri uppákomur sem munu væntanlega gleðja matargesti okkar. Skapa líf í samfélaginu, fá fólk út úr húsi, taka þátt og vera með. Þá er mannlífið svo miklu skemmtilegra. Við segjum meira frá þeim hugmyndum seinna,“ segja þær báðar að lokum.

„Marta verður hjá okkur í hádegisbyrjun, bæði laugardag og sunnudag, þegar við bjóðum upp á bröns innblásinn af Juliu Child. Hún mun fjalla á kómískan hátt um lífið og tilveruna eins og henni einni er “

Breytingarnar sem gerðar voru á veitingasalnum á hótelinu tókust afar vel og nú er Library vinsæll staður að heimsækja fyrir heimamenn og hótelgesti.