Mannlíf

Fritz og drottningin
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 19. september 2020 kl. 07:40

Fritz og drottningin

Séra Fritz Már Jörgensson, prestur í Keflavíkurkirkju, skrifar glæpasögur á milli guðsþjónusta og jarðarfara

„Mér finnst það fara mjög vel saman að vera prestur og skrifa glæpasögur. Ég les til dæmis mikið krimmabækur og er aðdáandi þeirra. Ég tala við alls konar fólk í mínu starfi og þetta rennur skemmtilega saman. Í síðustu tveimur bókum mínum er prestur í lykilhlutverki þannig að ég get sagt að það sé mjótt á milli krimmans og prestsins,“ segir séra Fritz Már Jörgensson, prestur í Keflavíkurkirkju og rithöfundur, en hann var að gefa út sjöttu bókina sína sem heitir Drottningin.

Fritz hefur verið nokkuð öflugur rithöfundur á undanförnum árum og Drottningin er sjötta bókin hans. Allar bækur prestsins eru krimmar og sögusvið Drottningarinnar er m.a. á Suðurnesjum, í Reykjanesbæ, Vogum og í Höfnum en einnig á höfuðborgarsvæðinu og austur undir Eyjafjöllum.

Erfitt með að hætta

– En hvernig fæðist bók hjá presti?

„Það kemur hugmynd og svo byrja ég að skrifa og geri eitthvað á hverjum degi. Þegar ég skrifa á ég stundum erfitt með að hætta þegar það er mikil spenna í gangi. Mig langar svo mikið að vita hvað gerist næst. Ég er með stóru myndina í kollinum en það sem gerist á milli gerist bara í skrifunum.“

Fritz segist skrifa þetta inn í kiljuformið og stefnir ekki sérstaklega á jólabókavertíð í sínum skrifum. „Ég er kiljumaður en hef svo sem gert hitt líka, í fyrstu bókum mínum. Ég vil ekki hafa mínar bækur of langar og svo er kiljan svo hentug. Ég gaf út næstsíðustu bók um mitt sumar í fyrra og það kom vel út og núna er þessi að koma út um haust. Hefði átt að koma út í sumar en af ýmsum ástæðum sem óþarfi er að nefna þá frestaðist það um nokkrar vikur. Ekki stórmál samt og Drottningin fékk góðar mótttökur og skaust strax ofarlega á sölulista bókabúða.“

Hljóð og rafbækur

Presturinn segist aðspurður vera mikill Storytel-maður og bækurnar hans hafa komið þar út. „Mér finnst það stórkostleg viðbót við pappírsbókina. Við erum að stíga inn í samtímann og það er frábært að geta verið úti að ganga eða hlaupa og hlustað á hljóðbók í eyrunum eða verið á biðstofunni einhvers staðar að lesa bókina í rafrænni útgáfu í símanum. Svo eru einhverjir sem eiga erfitt með að lesa og því er gott að hlusta. Stafrænn heimur er alltaf að stækka.“

– Þjóðkirkjan hefur átt undir högg að sækja, hvernig upplifir þú það í starfinu sem prestur?

„Ég held að fólk sé oft að mótmæla einhverju ótengt því sem við prestarnir erum að gera dags daglega. Við sem erum að vinna í heimasóknunum finnum ekki eins fyrir þessu og eigum mjög gott og traust samband við fólkið í nærsamfélaginu. Það er vel sótt hjá okkur. Ég held að þetta sé tvennt ólíkt en auðvitað þurfum við að leggja okkur fram við það að vera í þessu opinbera rými, t.d. á samfélagsmiðlum og í stafrænu umhverfi. Þjóðkirkjan hefur samt bætt sig á þessu sviði og það hefur komið vel fram á veirutímum. Það er búið að streyma mörgum jarðarförum og messum þannig að fólk hefur getað nálgast þetta allt í opinbera rýminu. Það hefur tekist að víkka út starf Þjóðkirkjunnar á tímum Covid-19.

Fermingar sem áttu að vera í vor voru með aðeins öðrum hætti núna síðsumars en það gekk vel. Við þurftum að breyta einhverju minni háttar, t.d. slepptum við altarisgöngunni. Þetta gekk afar vel og var alveg jafn gefandi og skemmtilegt. Það er gaman að horfa yfir þennan fallega hóp ungmenna sem var fermdur núna. Við þurfum svo sannarlega ekki að kvíða framtíðinni. Nú er kominn nýr hópur sem er að hefja fermingarundirbúning og það verður spennandi að fara í hann með þeim.“

Doktor Fritz

Séra Fritz  hefur verið duglegur að bæta við sig menntun og þekkingu og hann er að ljúka doktorsnámi í guðfræði.

„Ég var að skila doktorritgerð núna í ágúst og hún heitir „Gjörið það sem ...“ og er vísun í gullnu regluna, kirkjan á milli tveggja heima, og er rannsókn á stöðu kirkjunnar í rafrænum heimi. Hluti af rannsókninni er fyrirbæri sem heitir netkirkja og hefur slóðina netkirkja.is en ég og konan mín settum upp kirkju á netinu til að kanna hvort hún gæti lifað af, bara þar. Ég fylgist með stöðu hennar talnalega og greini, m.a. með viðtölum við presta, hvernig þeir eru að nálgast þennan rafræna heim. Ég skoða þetta allt út frá hruninu, hvernig kirkja var að tala inn í siðrofið sem var þar. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegur tími í sex ár.

– Ertu bjartsýnn á framtíð Þjóðkirkjunnar?

„Já, ég held að kirkjan muni eins og alltaf áður standa uppi. Sóknirnar eru svo víða að gera góða hluti. Þjóðkirkjan er eins og þjóðin, ólík eins og hún er fjölbreytt. Við bjóðum upp á svo marga ólíka þætti. Ég hef engar áhyggjur af kirkjunni, engar,“ segir séra Fritz.

Um Drottninguna

Á tjaldstæði austur undir Eyjafjöllum hverfur barn af sérlega óhugnanlegum morðvettvangi. Lögreglumennirnir Jónas og Addi eru kallaðir til. Rannsókn lögreglunnar er umfangsmikil. Í ljós kemur að við er að eiga öfl sem svífast einskis, jafnvel þótt börn eigi í hlut. Æsispennandi glæpasaga um svik, morð og valdatafl í ofbeldisfullum veruleika á Íslandi.

Nafn bókarinnar Drottningin er dregið af húsbíl sem kemur mjög við sögu í bókinni.

Inngangur bókarinnar gerist árið 1975 þegar hræðilegur harmleikur, sem rústar lífi lítillar fjölskyldu, á sér stað í splunkunýjum húsbíl fjölskyldunnar.

Síðan hefst bókin í samtímanum og í fyrstu köflum bókarinnar segir frá fólki úr Keflavík sem keypt hefur gamlan húsbíl á góðu verði og gert hann upp. Nefnir hann Drottninguna og er á leið í stutt frí með barnabarni sínu í nýuppgerðum húsbíl þar sem óvæntir atburðir munu eiga sér stað.

Alvarlegir glæpir eru framdir og Jónas rannsóknarlögreglumaður og samstarfsmaður hans Addi hefja rannsókn mála.

Söguvettvangur er Suðurnesin, Reykjavík og Fljótshlíðin.

Fritz og Erla Guðmundsdóttir á góðri stundu í fermingu í Keflavíkurkirkju síðasta sunnudag.