Bílrúðuþjónustan
Bílrúðuþjónustan

Mannlíf

Ferskir vindar riðluðu Ferskum vindum
Eliza Reid, forsetafrú, opnaði sýninguna en hún er verndari Ferskra vinda öðru sinni.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 10. janúar 2020 kl. 16:57

Ferskir vindar riðluðu Ferskum vindum

Ferskir vindar blésu hraustlega í Suðurnesjabæ á laugardaginn og því var opnunarhátíð listahátíðarinnar Ferskra vinda slegið á frest um sólarhring. Fjölmargir lögðu leið sína í sýningarrýmið við Sunnubraut 4 í Garði á sunnudaginn síðasta til að verða vitni að því sem þar fór fram.

Eliza Reid, forsetafrú, opnaði sýninguna en hún er verndari Ferskra vinda öðru sinni. Þá fluttu ávörp þeir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, og Paul Graham, sendiherra Frakklands á Íslandi en sendiráðið er einn af stuðningsaðilum hátíðarinnar.

Alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar fer nú fram í sjötta sinn. Fyrstu fimm skiptin var hátíðin haldin í Sveitarfélaginu Garði en nú er hún í Suðurnesjabæ, sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis. Flestir viðburðir hátíðarinnar eru þó áfram í Garði en einnig eru sýningar og viðburðir í Sandgerði.

Alls taka 45 listamenn þátt í hátíðinni, þar af 40 erlendir og mun hátíðin standa yfir til 12. janúar. Fjöldi listasýninga, tónleika og annarra viðburða verða í boði meðan hátíðin stendur yfir. Vegna veðurs riðlaðist dagskráin um opnunarhelgina en þeir sem vilja njóta listarinnar um komandi helgi er bent á að kynna sér dagskránna á heimasíðu hátíðarinnar, fresh-winds.com. Einnig má sjá dagskrá á fésbókarsíðu hátíðarinnar, Fresh Winds Iceland, og á heimasíðu Suðurnesjabæjar, sudurnesjabaer.is.

Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar við opnun hátíðarinnar í Garði um liðna helgi. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson