Mannlíf

 Ekkert kjöt á aðfangadagskvöldi í Litháen
Algirdas Kazulis og Jurgita Kazuliene eru frá Litháen en fluttu til Íslands árið 2005 og búa í dag í Innri-Njarðvík.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 24. desember 2022 kl. 10:11

Ekkert kjöt á aðfangadagskvöldi í Litháen

Algirdas Kazulis og Jurgita Kazuliene eru frá Litháen en fluttu til Íslands árið 2005 og búa í dag í innri Njarðvík. Dóttir þeirra, Biata Jokubauskaite var þá þriggja ára og sonurinn Denas Kazulis fæddist árið 2008. Þau hafa haldið í sínar jólahefðir en þær eru nokkuð frábrugðar þeim íslensku.

Jurgita fór yfir helsta muninn: „Helsti munurinn er að við borðum ekki kjöt á aðfangadegi en okkar trú er þannig að á miðnætti á aðfangadag, þ.e. milli 24. og 25. desember, þá séu dýrin að tala sín á milli og þakka fyrir sig. Við mannfólkið megum alls ekki fara út og reyna hlusta á dýrin tala, annars verður okkur refsað. Þess vegna borðum við ekkert kjöt á aðfangadagskvöldi og við borðum alltaf tólf rétti, einn fyrir hvern mánuð ársins. Fiskur er því mjög algengur matur hjá okkur á aðfangadagskvöldi og önnur hefð í Litháen er að skilja matinn eftir á borðum, svo látnir ástvinir geti komið og borðað líka eftir að allir aðrir eru farnir að sofa. Svo er vaknað á jóladegi og gjafirnar opnaðar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Alli eins og hann er kallaður, fór líka yfir hvað skilur íslensku jólin frá þeim litháensku: „Í Litháen er bara einn jólasveinn, hann kemur á jóladagsnóttu og setur jólagjafirnar undir jólatréð. Denas, sonur okkar, fæddist hér og því var kannski pínulítið skrýtið fyrir hann að hitta krakkana í skólanum sem voru alltaf að tala um nýjan og nýjan jólasvein sem setti gjöf í skóinn svo við urðum að aðlaga okkar jólahefðir að hluta að þeim íslensku. Í Litháen er lítið sem ekkert skreytt utandyra en við höfum tekið upp þá skemmtilegu íslensku hefð, jólaljósin lýsa upp skammdegið í desember. Það sem mér finnst best við íslensku jólin er hvað það er miklu minna stress hér. Í Litháen eru allir á fullu fyrir jólin, mikil umferð og mikið stress en hér á Íslandi er ekkert stress, okkur finnst það æðislegt.“