Stuðlaberg Pósthússtræti

Mannlíf

Byrjuðu að slást áður en þau kysstust
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 29. nóvember 2020 kl. 09:23

Byrjuðu að slást áður en þau kysstust

Hjónin Helgi Rafn Guðmundsson og Rut Sigurðardóttir búa í Reykjanesbæ ásamt tveimur börnum sínum. Þau eru bæði mikið íþróttafólk, íþróttafræðingar að mennt og hafa tileinkað sér einkar heilbrigðan lífsstíl.

Helgi er einkaþjálfari og yfirþjálfari taekwondo-deildar Keflavíkur og Rut er deildarstjóri frístundaþjónustu Suðurnesjabæjar þar sem hún vinnur m.a. að heilsueflingu bæjarbúa. Rut kemur frá Akureyri en Helgi er úr Sandgerði og gekk í grunnskóla þar en þau hafa búið í Reykjanesbæ síðustu fimmtán ár.

Hjónin hafa æft og keppt saman í gegnum tíðina, hér „coachar“ Rut Helga í keppni í bardaga. Mynd: Tryggvi Rúnarsson

Kynntust í gegnum íþróttir

„Við kynntumst í gegnum íþróttirnar,“ segir Helgi. „Við vorum að keppa og æfa saman með landsliðinu í taekwondo. Ferðuðumst saman út um Evrópu til að taka þátt í mismunandi mótum og vorum æfingafélagar þegar ég bjó og var í skóla á Akureyri.“

„Ég segi stundum að við byrjuðum á að sparka og kýla í hvort annað áður en við byrjuðum að kyssast,“ segir Rut og hlær. „Þetta er svolítið öfug þróun,“ bætir Helgi við.

– Hafið þið stundað aðrar íþróttir en taekwondo?

„Ég er alin upp í hestamennsku,“ svarar Rut. „Ég og dóttir mín erum komnar á fullt í það aftur, svo var ég í handbolta þegar ég var yngri og listhlaupi á skautum – en svo prófaði maður allar íþróttir í náminu.“

Helgi segist hafa verið í fótbolta þegar hann var krakki, eins og flestir. „Það var kannski ekki margt í boði í Sandgerði, ekki mikið íþróttalíf og ég hafði ekki mikinn áhuga á íþróttum fyrr en ég varð unglingur. Þá var það áhugi minn á bardagalistum og bardagaíþróttum sem vakti áhugann og þegar ég komst að því að það væri nýstofnað taekwondo-félag í Keflavík þá stökk ég strax til og byrjaði að æfa taekwondo – en ég er búinn að prófa margar íþróttir í gegnum íþróttafræðina, eins og Rut segir. Við höfum örugglega prófað flestar tegundir af líkamsrækt sem eru til og meirihlutann af þeim bardagalistum sem eru stundaðar á Íslandi hef ég stundað að einhverju leyti. Ég hef mikinn áhuga á mörgum íþróttum en aðallega bardagaíþróttum.“

Rut hefur þrisvar sinnum orðið Norðurlandameistari í Taekwondo.
Helgi að sækja í bardaga.

– Þið eruð þekkt fyrir heilsusamlegt líferni, hefur það alltaf verið þannig?

„Já, ég er eiginlega alin alin upp af tveimur bændum svo það var sveitalegt mataræði hjá mér – sem er mjög hollur matur. Þegar ég var fjórtán ára fékk ég svo þá flugu í höfuðið að hugsa mikið um það sem maður væri að láta ofan í sig og allt sem tengist heilbrigðum lífsstíl – og það hefur eiginlega verið þannig síðan,“ segir Rut en Helgi hefur aðra sögu af sér að segja: „Reyndar var ég alls ekki þar þegar ég var yngri, það var mikið verið að borða óhollan mat og þegar ég var krakki borðaði ég mikið sælgæti og gos. Það var ekki fyrr en ég byrjaði að æfa íþróttir að þetta breyttist. Það var alltaf verið að predika að maður næði ekki góðum árangri í íþróttum nema maður myndi borða hollt. Það var þá sem ég hætti að drekka gos og fór að einbeita mér að því að læra meira um næringu. Hvað ég þyrfti að borða til að ná betri árangri sem íþróttamaður, það var aðallega á unglingsárunum og eftir það að ég fór að setja fókusinn á það. Það er alveg rétt að við leggjum mikla áherslu á hollan mat og bara heilbrigðan lífsstíl.“

Heiða Dís hefur gaman af stærðfræði. VF-mynd: Hilmar Bragi
Vignir Nói er alveg með það á hreinu hvað er hollt.

„Við höfum kennt börnunum strax hverjir fæðuflokkarnir séu og að lesa utan á matvörurnar,“ segir Rut. „Þau vita alveg ótrúlega mikið í næringarfræði miðað við aldur og auðvitað ætti það að vera þannig alls staðar. Að það sé val einstaklingsins hvað hann sé að setja í sinn líkama.“

„Þegar maður hefur vitneskju getur maður tekið meðvitað val,“ bætir Helgi við. „Það er svo auðvelt að blekkjast af markaðssálfræðinni og taka bara það næsta sem þú sért, er mest auglýst eða í flottustu litunum. Með því að taka meðvitað val eru miklu meiri líkur á að þú náir þessum heilbrigða lífsstíl sem tengist því að borða hollan mat.“

Helgi, sem er yfirþjálfari tae-kwondo-deildar Keflavíkur, hefur verið duglegur við að koma þessum fróðleik áfram til iðkenda sinna. Fyrirlestrar um næringarfræði og fleira eru hluti af æfingaprógrami hans. „Maður reynir að koma þessum skilaboðum til krakkanna. Að þau geti tekið ákvörðun og beðið um það sem þau vilja borða. Þau hafa kannski ekki þá kunnáttu sem þarf til að vita hvað er þeim fyrir bestu og ég reyni að kenna krökkunum að velja það sem er hollt. Ekki bara velja það sem er bragðgott heldur hugsa fyrst um hvað er gott fyrir þau. Þá líður þeim betur og hafa þá orku sem þarf til að ná betri árangri.“

Helgi hefur reynt flestar bardagaíþróttir, hér er hann að keppa í brasilísku Jiu-Jitsu. Mynd: Mjölnir MMA

Kenna börnunum heima

Helgi og Rut eiga tvö börn, Heiðu Dís sem er átta ára og Vigni Nóa sem er sex ára. Þau spá mikið í fæðuna og kunna að lesa utan á matvörur. Heiða Dís var ekki nema sex ára þegar hún uppgötvaði sjálf að óholl matvæli væru ódýrari en þau hollu.

„Þetta var eitt af fyrstu skólaverkefnunum okkar, að versla. Þar geturðu lesið, lært að leggja saman o.þ.h. – þá kom dóttir mín til mín og spurði: „Af hverju eru svona margt af því sem er óhollt ódýrara en það sem er hollt?“ – hún gat séð það sjálf að matur sem innihélt mikinn sykur var yfirleitt ódýrari en þar sem var ekki sykur,“ segir Helgi.

Það er óhætt að segja að þau hjónin fari ótroðnar slóðir í uppeldi barna sinna. Þau tóku þá ákvörðun að vera með börnin sín í heimakennslu.

– Hvernig stóð á því að þið völduð heimakennslu?

Helgi verður fyrir svörum: „Ég kynntist bandarískum manni sem á íslenska konu þegar dóttir okkar var tveggja ára. Þau búa hluta ársins í Bandaríkjunum og hluta ársins á Íslandi. Nú ég spurði hann hvernig skólinn virkaði, þar sem þau eru á flakki milli staða. Þau sögðust heimakenna og gætu þá gert það hvar sem er í heiminum. Í framhaldi vöknuðu margar spurningar hjá mér, ég hafði heyrt af heimakennslu í Bandaríkjunum og víðar en aldrei vitað að það væri möguleiki fyrir íslensk börn. Ég spurði hann spjörunum úr og svo skoðuðum við margar rannsóknir sem hafa verið gerðar á fjölskyldum og börnum sem hafa farið í gegnum það að vera í heimakennslu. Svo kom í ljós að það er hægt að gera þetta á Íslandi og við ákváðum að prófa þetta.

Það er til reglugerð, sem stendur reyndar til að breyta, sem segir að hafi foreldri eða forráðamaður kennsluréttindi þá sé hægt að sækja um undanþágu frá því að barnið þurfi að mæta í skóla og þú getir kennt heima í staðinn. Þetta er gert í samráði við skólastjórn sveitarfélagsins og þjónustuskóla. Okkur var úthlutaður þjónustuskóli, sem er í okkar tilfelli hverfisskólinn sem dóttir mín hefði farið í, og þar er nefnd sem við hittum einu sinni í mánuði, umsjónarkennarinn hennar og deildarstjórar sem eru að vinna með okkur. Við erum að uppfylla alls konar kröfur; menntakröfur, kröfur um aðstöðu, námsmat og annað slíkt.

Við kennum eftir aðalnámskrá en okkur er í sjálfsvald sett hvernig við gerum það. Við getum þá sniðið námið frekað að þeirra þörfum til að ná þeim markmiðum sem eru í aðalnámskrá.“

– Og hvernig hefur þetta gengið?

„Það hefur gengið mjög vel. Þau fá að blómstra á sinn hátt á sama tíma og þau eru að læra það sem er krafist af þeim.“

„Það er eins og með hann [Vigni Nóa], hann var að byrja í fyrsta bekk og er rosalega orkumikill,“ segir Rut. „Það er frábært að sjá hvernig er hægt að mæta honum og brjóta skóladaginn upp með stuttum hreyfiæfingum eða útiveru. Hann getur hjólað einn hring og síðan gert tíu stærðfræðidæmi – ég get ekki ímyndað mér hvernig honum myndi líða ef hann þyrfti að sitja allan daginn. Þetta hentar honum rosa vel.“

Það getur verið gott að hjóla og reikna til skiptis.

„Það er hægt að mæta þessu ólíku þörfum þegar hópurinn er lítill,“ bætir Helgi við. „Það er svo auðvelt. Við getur farið hvenær sem er út, þurfum ekki að bíða eftir neinni bjöllu. Við getum breytt skipulagi dagsins á augnablikinu ef að tilfinningin er þannig. Vera inni eða úti. Við getur farið í bílnum í annað sveitarfélag, farið í aðrar sundlaugar, heimsótt söfn ... Við getum gert það sem er svo mikið mál að gera með stóran hóp þar sem þarf að fá leyfi fyrir öllu sem þú geri, ferlið er svo langt og þungt. Það er svo auðvelt fyrir okkur að breyta og aðlaga. Við erum ekki háð fjörutíu mínútna lotum og klukku sem þýðir að ef þeirra tilfinning er einn daginn að vera mjög dugleg að reikna, og þeim langar að reikna, þá getum við bara lesið meira einhvern annan dag.“

– Eru margir að gera þetta á Íslandi?

„Nei, það eru ekki margir. Það hefur eitthvað aukist út af Covid, skólum verið lokað og fólk er að sjá að þetta er möguleiki. Líka af því það er verið að breyta reglugerðinni og gefa fólki meiri frelsi til að geta gert þetta ef aðstæður leyfa það. Ég held að þegar við byrjuðum þá hafi Heiða Dís verið sú eina sem var í heimakennslu á landinu en það eru fjölskyldur sem hafa gert þetta og við erum búin að vera í sambandi við fjölskyldur sem hafa gengið í gegnum alla sína skólagöngu í heimanámi.“

Helgi og Rut nota m.a. jóga til að brjóta upp daginn í heimakennslunni. Það er ekki alltaf auðvelt að halda einbeitingu við æfingarnar. VF-mynd: Hilmar Bragi

Heiða Dís æfir dans á fullu.

– En hvað með félagslega þáttinn?

„Það er mikið spurt um félagslega þáttinn, hann var það fyrsta sem ég spurði þann sem kynnti mig fyrir þessu,“ svarar Helgi. „Þetta er líka sá þáttur sem maður hafði mestar áhyggjur af, að maður yrði að passa upp á þetta. Það er líka tekið fram í reglugerðinni að börn þurfa að stunda einhverjar tómstundir, íþróttir eða æskulýðsstarfsemi þar sem þau eru að umgangast jafningja. Við pössum vel upp á það, börnin eru að stunda íþróttir og tómstundir. Þau eru miklar félagsverur og húsið okkar líkist oft félagsmiðstöð – reyndar ekki núna í þessu Covid-ástandi en alla jafna er húsið fullt af krökkum.

Eitt af því sem við skoðuðum ítarlega voru rannsóknir hjá börnum sem hafa verið í heimakennslu, það hafa reyndar ekki verið gerðar svona rannsóknir hér heima en þær hafa verið gerðar í löndum þar sem heimakennsla er stunduð. Þessar rannsóknir sýna að börn sem eru í heimakennslu standa ekkert síður að vígi en þau sem eru í skólakerfinu.“