Mannlíf

Bjartsýnn á framtíð Suðurnesja þar sem uppbygging er mikil
Viðar Ellertsson og Davíð sonur hans á skrifstofu fyrirtækisins í Selvík í Reykjanesbæ.
Sunnudagur 4. júlí 2021 kl. 08:58

Bjartsýnn á framtíð Suðurnesja þar sem uppbygging er mikil

Ellert Skúlason ehf. fagnar 60 ára afmæli - Eitt elsta fyrirtæki á Suðurnesjum

Jarðvinnufyrirtækið Ellert Skúlason ehf. er 60 ára um þessar mundir og eitt elsta fyrirtæki á Suðurnesjum. Fyrirtækið hefur starfað samfleytt frá árinu 1961 og gengið í gegnum margbreytilega tíma, hæðir og lægðir eins og gengur og gerist. Það hafa verið risastór verkefni á borði fyrirtækisins sem hafa útheimt hundruð starfsmanna og það hefur kreppt að í rekstrinum, einu sinni svo alvarlega að fyrirtækið fór í gegnum nauðasamninga en fór þó ekki í þrot. Fyrirtækið hefur komið við á ýmsum sviðum á þessum sex áratatugum. Það hefur unnið að mörgum stórframkvæmdum, bæði í samstarfi við aðra verktaka og eins sjálfstætt. Sem dæmi má nefna virkjanir, flugvallargerð, vegagerð, hafnargerð, jarðgöng, ýmsar almennar byggingarframkvæmdir, boranir, sprengingar og veituframkvæmdir, svo eitthvað sé nefnt.

Björn Viðar Ellertsson er eigandi fyrirtækisins í dag. Hann var orðinn helmingseigandi að Ellert Skúlasyni ehf. fljótlega upp úr aldamótum. Þegar faðir hans, Ellert Björn Skúlason, féll frá árið 2014 keypti Viðar systkini sín og móður út úr rekstrinum og rekur það í dag með eiginkonu sinni, Helenu Sjöfn Guðjónsdóttur. Skrifstofa þess er í Selvík í Reykjanesbæ og þau hjónin eru í stjórn ásamt syninum Davíð, sem starfar hjá fyrirtækinu samhliða námi í lögfræði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hjónin Björn Viðar Ellertsson og Helena Sjöfn Guðjónsdóttir ásamt börnum og tengdabörnum í 60 ára afmælishófi fyrirtækisins.

Tímamótunum, 60 ára afmæli Ellerts Skúlasonar ehf., var fagnað á Marriott-hótelinu í Reykjanesbæ sl. föstudag þegar starfsmönnum fyrr og nú og öðrum gestum var boðið til veislu ásamt mökum til að fagna tímamótunum. Fyrr um daginn hittu útsendara Víkurfrétta Viðar á skrifstofu verktakafyrirtækisins í Selvík en fyrirtækið er einnig með áhaldahús við Sjávargötu.

Björn Viðar ásamt móður sinni Elínu Guðnadóttur og systrunum Vigdísi og Elínborgu. Á myndina vantar bróðurinn Ómar.

Hóf störf hjá fyrirtækinu fjórtán ára

Viðar segist hafa unnið alla tíð hjá fyrirtækinu. Hann var fjórtán ára þegar hann byrjaði að vinna hjá pabba sínum þegar Ellert Skúlason ehf. lagði hitaveitulögn frá Svartsengi að Fitjum. Hann fékk m.a. það verkefni að rústbanka lögnina, mála og einangra. Hann segist hafa unnið öllum stundum. Sem barn var Viðar þó sendur í sveit, ásamt fleiri peyjum af svæðinu, að bænum Laugarholti í Skagafirði nokkur sumur. Þangað fór hann svo aftur í heyskap þegar hann var átján ára. Aðspurður hvort hann hafi ekki menntað sig sagðist Viðar ekki hafa mátt vera að því. Hann ætlaði sér þó alls ekki að feta í fótspor föður síns, því sveitin sem hann var sendur fyrst í fimm ára heillaði og hann hafði hug á því að vera bóndi. Í grunnskóla hafði Viðar einnig gaman af smíðum og uppljóstraði að hann hefði einnig getað hugsað sér að verða smiður.

„Í níunda bekk var ég á rennibekknum í skólanum að útbúa kubba fyrir Ara Einarsson, svo hann fengi einkunn fyrir smíðarnar. Ari er fær smiður í dag,“ segir Viðar og hlær.

Feðgarnir Björn Viðar og Ellert Björn á mynd sem tekin var í tilefni af 50 ára afmæli fyrirtækisins árið 2011.

Viðar kemur inn í reksturinn á fyrirtækinu á árunum 2002-3 þegar hann kaupir 50% í fyrirtækinu og á það á móti foreldrum sínum. Hann eignast svo allt fyrirtækið árið 2017 eins og greint er frá í inngangi.

Mörg og misstór verkefni

Jarðvinnufyrirtækið Ellert Skúlason ehf. hefur tekist á við mörg og misstór verkefni í gegnum tíðina. Stærsta verkefnið er án efa aðkoma að byggingu Hrauneyjafossvirkjunar á árunum 1977 til 1981. Þar tók fyrirtækið þátt í verkefninu í gegnum fyrirtækið Hraunvirki sem var í eigu bræðranna Ellerts og Svavars Skúlasona.

Myndir úr safni fyrirtækisins frá virkjunarframkvæmdum en Ellert Skúlason ehf. kom bæði að byggingu Hrauneyjarfossvirkjunar og Blönduvirkjunar.

„Það voru um 400 starfsmenn hjá fyrirtækinu þegar mest var og ég man að Steindór Sigurðsson var með fjórar til sex rútur um helgar að keyra starfsmenn til og frá vinnubúðum við virkjunarstaðinn. Ég man líka að launin voru svakaleg og þá var greidd staðaruppbót fyrir að vera á staðnum sem var há upphæð sem munaði um,“ segir Viðar þegar hann rifjar upp gamla tíma.

Múlagöng og hitaveita

Fyrirtækið fór úr einu stórvirkinu í annað og strax í kjölfarið á Hrauneyjafossvirkjun tók Ellert Skúlason ehf. þátt í byggingu Blönduvirkjunar. Þar vann fyrirtækið bæði í gangnagerð og í stöðvarhúsi sem var djúpt inni í fjalli. Þar var þriggja ára vinna og þegar henni lauk fór hópurinn til Ólafsfjarðar til að sprengja og grafa Múlagöng.

Fyrirtækið var ekki bara uppi á hálendinu og fjarri Suðurnesjum, því árið 1977 vann Ellert Skúlason ehf. að lagningu hitaveituæðar frá Svartsengi og aftur var samstarf við Svavar bróður Ellerts.

Lánaður í hafnargerð í Arabíu

Viðar hefur unnið alla sína tíð hjá fyrirtækinu fyrir utan eitt ár þegar hann var lánaður til Arabíu í hafnargerð hjá dönsku fyrirtæki.

„Ég var kornungur á þessum tíma,“ segir Viðar en hann fékk starfið þar sem hann þótti fær gröfumaður. Hann starfaði í eitt ár í Arabíu. „Ég var fyrst sex mánuði í törn þarna úti og var alveg að gefast upp á verunni þarna. Við vorum 140 manns í vinnubúðum og reglurnar voru stífar,“ segir Viðar. Í Arabíu var og er áfengisbann en það kom þó ekki í veg fyrir að hægt væri að sulla í áfengi á kvöldin eftir langan vinnudag. Í vinnubúðirnar kom mikið af varningi frá Danmörku og allt skattfrjálst. Þetta var árið 1983 og bjórkassinn kostaði 190 krónur íslenskar og þótti dýr, því flaska af Smirnoff kostaði á sama tíma 66 krónur. Viðar rifjar það upp að starfsmenn í vinnubúðunum hafi nýtt sér það að versla margvíslegt skattfrjálst upp úr pöntunarlistum frá Danmörku, hvort sem það var ljósmyndabúnaður eða annað.

Með 36 manns í vinnu

Ellert Skúlason ehf. er í dag öflugt jarðvinnufyrirtæki með 36 manns í vinnu. Fyrirtækið er í verkefnum á öllum Suðurnesjum. Þannig hóf fyrirtækið nýlega vinnu við gatnagerð í nýju Skerjahverfi í Suðurnesjabæ og er að hefja vinnu við gatnagerð í Dalshverfi 3 í Reykjanesbæ. Það er verkefni upp á tæpan hálfan milljarð króna. Fyrirtækið vinnur að verkefni í Vogum, hefur í vetur unnið við sjóvarnagarða í Suðurnesjabæ og ekki fyrir svo löngu síðan sá fyrirtækið um lagningu hjóla- og göngustígs milli Garðs og Sandgerðis fyrir um 100 milljónir króna.

Í Helguvík rekur fyrirtækið efnisvinnslu með samningi við Reykjaneshöfn. Þar er bjargið sprengt niður og unnið úr því efni fyrir hinar ýmsu framkvæmdir fyrirtækisins á Suðurnesjum. Reyndar hefur stopp verið gert á efnisvinnslunni í Helguvík þar sem brjóturinn er kominn í verkefni fyrir ÍAV í að mala 16.000 rúmmetra af efni sem notað verður í uppbyggingu NATO á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Sveiflur í verkefnum

Viðar segir sögu Ellerts Skúlasonar ehf. vera ríka í stórum verkefnum alla tíð. Það hafi verið sveiflur í verkefnum og umfangi starfseminnar en síðustu ár hefur árleg velta verið um milljarður króna. Það sé reyndar einnig breytilegt. Þannig sé verkefnið í Dalshverfi 3 í Reykjanesbæ upp á 460 milljónir króna.

Mannauðurinn í fyrirtækinu sé mikilvægastur en tækin fjölmörg, hjólaskóflur, beltagröfur, smágröfur, jarðýtur og vörubílar og stórir dráttarbílar til að flytja stórvirkar vinnuvélar á milli framkvæmdasvæða. Sumar vélarnar séu tugir tonna, starfsaldurinn hár og reynslan mikil.

Helena, eiginkona Viðars tók fyrstu skóflustunguna í Dalshverfi í Reykjanesbæ.

Myndarleg beltagrafa á flutningavagni utan við hótelið. Ellert Skúlason ehf. sá einmitt um jarðvinnu á svæðinu fyrir Aðaltorg áður en hótelið reis.

Gæðin eru mannskapurinn

„Gæði þessa fyrirtækis er mannskapurinn. Við erum heppin með starfsfólk. Sumir hafa hætt en koma aftur. Það eru margir sem hafa starfað með okkur lengi. Það er ekki stór yfirbygging á þessu og við höfum haft góða viðskiptavini sem hafa haldið trausti við okkur í gegnum tíðina. Þetta er stórt net sem við erum að þjónusta,“ segir Viðar og bætir við: „Það er allt of margt í gangi í augnablikinu. Ég hef aldrei haft eins mikið að gera,“ segir hann og brosir.

Viðar er gagnrýninn á Reykjanesbæ og segir að bæjarfélagið sé alls ekki að bjóða út öll verk sem hann ætti að gera. „Síðast þegar boðnir voru út göngustígar hjá bænum var Ellert Skúlason ehf. langlægstur. Þetta var stígur sem lagður var í Innri-Njarðvík og inn á Stapann fyrir mörgum árum. Það hefur ekki verið boðinn út göngustígur hjá Reykjanesbæ síðan,“ segir Viðar og þegar hann er spurður út í málið segir hann að einyrkjar fái þessi verk í dag án útboðs.

Frá 60 ára afmælisfögnuði fyrirtækisins.

Býður í öll verk hjá Reykjanesbæ

Hann segist bjóða í öll verkefni sem bærinn býður út, þó svo verkefnastaða Ellerts Skúlasonar ehf. sé góð um þessar mundir. „Við sem fyrirtæki eigum að bjóða í öll verkefni sem bærinn býður út. Þegar ekkert er að gera þá þýðir ekki fyrir mig að fara niður á bæ og segja: Hvar er vinnan?“

Viðar vill þó bjóða í fleiri verkefni hjá bænum, verkefni sem sveitarfélagið lætur vinna án útboðs en á grundvelli kostnaðarmats verkfræðistofa.

Verkefnastaða Ellerts Skúlasonar ehf. hefur verið góð í gegnum kórónu­veirufaraldurinn og næg verkefni. Faraldurinn hefur þó haft þau áhrif að erfiðara er að fá varahluti í vélar og tæki. Annars segir Viðar að erfiðast í rekstri fyrirtækja í dag sé mannahald og er kostnaður við hvern starfsmann mikill.

Páll Óskar Hjálmtýsson sá um að halda uppi stuðinu í afmælisveislunni á Marriott-hótelinu í Reykjanesbæ.

Viðar er bjartsýnn á framtíð Suðurnesja þar sem uppbygging sé mikil. Í öllum sveitarfélögum Suðurnesja sé verið að vinna að því að auka framboð á byggingarlóðum sem sé jákvætt. Þá segir Viðar að það sem hafi komið Reykjanesbæ vel séu allar þær götur og lóðir sem voru til í Innri-Njarðvík. Þar hrósar hann Árna Sigfússyni, fyrrverandi bæjarstjóra, fyrir þá áhættu sem hafi verið tekin á sínum tíma. Framboð á lóðum hafi flýtt fyrir þeim vexti sem orðið hefur í Reykjanesbæ á síðustu misserum.

VF myndir og texti: Páll Ketilsson og Hilmar Bragi Bárðarson. Auk mynda úr einkasafni.

Ellert Skúlason ehf. 60 ára afmælishóf