Mannlíf

Aldrei orðið misdægurt
„Mér fannst eins og sleggju væri slegið í höfuðið á mér, fór að svitna og sá ekki skýrt. Ég sagði þvoglumæltur við strákinn í bílnum að keyra mig strax á sjúkrahús. Ég vissi að tíminn væri áríðandi.“
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 9. júní 2019 kl. 06:00

Aldrei orðið misdægurt

Hestamaðurinn Ólafur Gunnarsson var á hestbaki þegar hann fékk blóðtappa við heila en hann hefur náð sér vel og þakkar það meðal annars hestamennskunni en hann er einn af stofnendum hestamannafélagsins Mána á Suðurnesjum.

„Það var fyrir tólf árum eða árið 2007, þegar ég var 65 ára, að ég var á mikilli ferð á hestbaki á leið í Helguvík í hálku og snjó. Hesturinn sem ég sat á missti jafnvægið og hnaut tvisvar. Ég náði honum upp aftur í bæði skiptin en þá hnaut hann í þriðja sinn og fór kollhnís með mig með sér. Þegar hesturinn fór fram yfir sig varð ég undir honum en gat mjakað mér til hliðar svo að þyngd hestsins lenti á hægri hlið líkama míns en ég slapp með hrygg og höfuð. Það hefði lamað mig ef ég hefði fengið þessi fimmhundruð kíló ofan á mig allan en ég var fljótur að forða mér undan þarna. Svona lemstraður fór ég að skoða hestinn og athuga hvað hafði gerst og sá að steinn hafði farið í hófinn á honum. Við gengum þá heim á Mánagrund þar sem ég fór að hlúa betur að hestinum. Mér fannst mér líða þokkalega sjálfum en fann að ég var dofinn af högginu. Ég var bara svo glaður að geta staðið í lappirnar þegar ég áttaði mig á alvöru málsins að ég hugði ekkert frekar að sjálfum mér. Hesturinn fékk aðhlynningu mína en hann var hruflaður á nös og brjósti. Svo um kvöldið þegar ég var að hátta í rúmið þá spyr konan mín hvað hafi komið fyrir mig. Þá sá ég að ég var helblár á hægri hliðinni og kenndi mikið til vegna kvala í hægri öxl. Hún skipaði mér að fara til læknis daginn eftir en ég fann það um nóttina að ég gat ekki legið á hægri öxl. Ég fékk strax að hitta ungan lækni á Heilsugæslustöð Suðurnesja, sem skoðaði mig gaumgæfilega en sagðist ekki geta sent mig í röntgen vegna fjarveru starfsmanns á þeirri deild. Læknirinn sagði mér ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu því þetta mar myndi bara jafna sig og eyðast. Líkaminn myndi sjá um það sem mér fannst skrýtin greining því mér var mjög illt og sérstaklega í öxlinni en hugsaði með mér að fyrst móttökurnar voru svona þá léti ég þetta eiga sig,“ segir Ólafur og var greinilega ekki ánægður með þetta.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ógurlegar höfuðkvalir þremur mánuðum seinna
„Svo liðu þrír mánuðir. Mér leið vel en fann samt að öxlin varð aldrei góð, samt sá ég ekki ástæðu til að leita til læknis vegna þess. Svo var það einn daginn að ég kom árla morguns til að gefa hrossunum mínum á leið til vinnu að ég fann fyrir ógurlegum höfuðverk eftir að ég var búinn að gefa. Það var sólbjartur morgunn og vinnufélagi minn beið í bílnum fyrir utan hesthúsið á meðan ég stökk inn. Ég fékk ógurlegar höfuðkvalir og fann að ég var að missa jafnvægið. Ég var ekki vanur að kenna til í höfðinu og vissi strax að þetta væri ekki eðlilegt. Ég ákvað að fara strax á heilsugæsluna og bað félaga minn um að keyra mig þangað. Mér fannst eins og sleggju væri slegið í höfuðið á mér, ég fór að svitna og sá ekki skýrt. Ég sagði þvoglumæltur við strákinn í bílnum að keyra mig strax á sjúkrahús, það var ekki um annað að ræða og ég vissi að tíminn væri áríðandi. Þegar ég kom þangað fékk ég mjög góðar móttökur af lækni og hjúkrunarfólki. Ég var settur á blóðþynningu um leið og síðan ekið beint í sjúkrabíl til Reykjavíkur. Þegar ég var á leiðinni í sjúkrabílnum fann ég að ég var að lamast vinstra megin í líkamanum og varð hræddur. Þegar inneftir var komið héldu læknar áfram að rannsaka mig allan og komust að því að þetta væri blóðtappi við heila. Ég var færður frá einum stað til annars og eftir viku var ég látinn standa í lappirnar, þá fann ég jafnvægisleysið. Læknar voru ráðþrota þegar þeir veltu fyrir sér ástæðum þess að ég veiktist, því ég reyki ekki, drekk ekki áfengi og er heldur ekki offitusjúklingur. Kólesteról í blóði var einnig í lagi hjá mér, hjartað var gott og öll líffæri í góðu lagi ásamt blóðþrýstingi. Við vorum að ræða þessi mál og þegar þeir heyrðu um slysið sem ég varð fyrir í Helguvík, þegar ég lenti undir hestinum og marðist allur, þá rann upp fyrir þeim ljós. Í marinu sem ég fékk hafa dauðar blóðflögur safnast saman og myndað tappa en það er greining mín, að slysið var upphafið. Þeir vildu samt ekkert gefa út á það en viðurkenndu að ég hefði í raun átt að fara á blóðþynningu vegna slyssins fyrir þremur mánuðum. Ég fór í endurhæfingu og var á blóðþynningu en þegar þeir vildu setja mig á fleiri lyf hafnaði ég því og benti þeim á að ég væri að öðru leyti í góðu formi,“ segir Ólafur ákveðið.

Hef það gott í dag
„Nú tólf árum seinna hef ég það gott og finn hvergi til. Þetta hefur allt jafnað sig og ég er alltaf á fullu á hestbaki. Ég er með níu hross sem ég ríð út. Svo járna ég þau, tem og geri allt sem þarf. Lífsstíll minn og endurhæfing í hestamennskunni er sálarbætandi. Allir vöðvar þjálfast í þessari íþrótt og líkami minn er sterkur. Með því að nota líkamann höldum við okkur ungum og endurnærðum. Hestamennska byggir upp gleði, sjálfsöryggi og kjark,“ segir Ólafur með bros á vör.