Mannlíf

Ætlar að njóta með fjölskyldunni um helgina
Laugardagur 4. ágúst 2018 kl. 06:00

Ætlar að njóta með fjölskyldunni um helgina

- Verslunarmannahelgarspurningar Víkurfrétta

Bryndís Garðarsdóttir

Hvað ætlar þú að gera um verslunarmannahelgina?
Við fjölskyldan ætlum að fara í útilegu með góðum vinum. Við ætlum að taka bátinn okkar með, veiða og njóta samverunnar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ertu vanaföst/fastur um verslunarmannahelgina eða breytir þú reglulega til?
Vaninn felst í að fara í útilegu en staðarvalið fer eftir veðri. Við reynum þó að vera þar sem hægt er að njóta fallegrar náttúru og skoða nýja staði.

Hver er eftirminnilegasta verslunarmannahelgin til þessa? Af hverju?
Þetta er erfið spurning því þær eru margar eftirminnilegar!
Ætli síðasta verslunarmannahelgi sé ekki svona með þeim eftirminnilegri. Þá vorum við fjölskyldan í útilegu í Vaglaskógi og fórum að skoða Flateyjardal sem var búið að vera draumur lengi. Það voru alveg frábærir dagar.

Hvað er nauðsynlegt að þínu mati um verslunarmannahelgina?
Samvera með fjölskyldunni og öðrum góðum vinum, gott veður og góður matur!

Hvað ertu búin að gera í sumar?
Við erum búin að fara í frábæra ferð til Bandaríkjanna þar sem við gerðum sitt lítið af hverju. Eftir að við komum heim erum við búin að fara á ættarmót eina helgi og af því að veðurspár gerðu fyrir besta veðrinu fyrir austan drifum við okkur í útilegu þangað í tæpa viku.

Hvað er planið eftir sumarið?
Eftir verslunarmannahelgi fer skólafólk að huga að næsta vetri þannig að ég sný aftur til vinnu eftir hana en ætli við skellum okkur ekki í eins og eina útilegu áður en það fer að hausta. Flugeldasýningin á jökulsárlóninu er alveg inni í myndinni. Það eru komin rúm fimm ár síðan við fórum síðast að sjá hana.