Vörumiðlun
Vörumiðlun

Íþróttir

Þristar frá fyrirliðanum kveiktu í Keflavík sem leiðir 2-1
Anna Ingunn Svansdóttir, setti niður fjóra þrista í lokaleikhlutanum. VF-myndir/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 5. maí 2024 kl. 20:58

Þristar frá fyrirliðanum kveiktu í Keflavík sem leiðir 2-1

Keflavík er komið í 2-1 forystu í einvíginu við Stjörnunar í undanúrslitum Subway-deildar kvenna í körfubolta. Keflavík vann í spennandi leik 87-78 í Blue höllinni í Keflavík í kvöld.

Anna Ingunn Svansdóttir, fyrirliði Keflavíkur dreif lið sitt áfram í loka leikhlutanum, setti niður fjóra þrista á stuttum tíma þegar allt var í járnum og kom liðinu í forystu sem hélst til loka.

„Já, maður verður bara að skjóta þegar maður fær opin skot. Þetta er búið að vera nokkuð erfitt í síðustu leikjum en við erum að leggja okkur allar fram. Stjarnan hefur leikið mjög vel og sýnt sýnar bestu hliðar. Þær eru gott lið og við erum alls ekki að vanmeta þær. Þetta eru bara hörkuleikir eins og yfirleitt í úrslitakeppninni,“ sagði Anna Ingunn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sverrir Þór, þjálfari Keflavíkur tók undir orð Önnu um styrkleika Stjörnunnar. „Við erum að spila við hörku lið sem hættir aldrei og þær hafa leikið mjög vel í þessum viðureignum. Þetta var stirt í sókninni hjá okkur í fyrri hálfleik en ágæt vörn en við lékum mun betur í seinni hálfleik og uppskárum góðan sigur. Þetta er hörku rimma og við þurfum að sýna okkar besta leik til að klára þetta einvígi.“

Keflavík hafði tveggja stiga forskot eftir fyrsta leikhluta en Stjarnan hafði betur í öðrum leikhluta og leiddi með fjórum stigum í hálfleik. Keflavík náði þriggja stiga forskoti í þriðja leikhluta og unnu svo lokaleikhlutann sannfærandi með tíu stigum.

Anna Ingunn Svansdóttir kom heldur betur sterk inn í síðari hálfleik í stigaskori og setti þrista og tvista og endaði með 17 stig. Sara Rún Hinriksdóttir var með 15 og Daniela Wallen 15 stig. Elisa Pinsan skoraði 11 og Thelma Ágústsdóttir tíu.

Athygli vakti að Birna Benónýsdóttir lék ekkert í síðari hálfleik en hún skoraði sjö stig í fyrri hálfleik.

Næsti leikur er í Garðabæ en þar getur Keflavík tryggt sér sæti í úrslitum með sigri. Það er þó deginum ljósara að þær þurfa að sýna sínar bestu hliðar því Stjörnuliðið hefur komið skemmtilega á óvart í þessari undanúrslitaseríu með frábærri baráttu og góðum leik. Ísold Sævarsdóttir, fyrirliði liðsins hefur drifið litt sitt áfram og Stjörnukonur hafa skinið skært í síðustu tveimur leikjum þó þær séu undir í seríunni. Davis-Stewart hefur líka verið frábær en hún skoraði 30 stig í Keflavík í kvöld.

Keflavíkurliðið hefur ekki sýnt sínar bestu hliðar, hittnin hefur ekki verið eins góð og í vetur og vörnin ekki heldur upp á það besta.

Fleiri myndir í myndasafni hér.

Keflavík-Stjarnan - Undanúrslit Subway deild kvenna 5. maí