Viðskipti

Hérastubbur opnar á ný
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 18. maí 2024 kl. 06:06

Hérastubbur opnar á ný

„Gerum hæfilegar væntingar og bökum kannski eldgosabrauð,“ segir Siggi Hérastubbur bakari.

Sigurður Enoksson, sjálfur Hérastubbur bakari, er enn á ný búinn að opna bakaríið sitt í Grindavík en hann hefur gert nokkrar tilraunir í vetur. Hann viðurkennir að úthaldið sé farið að minnka og hugsanlega mun hann ljúka leik á Íslandi ef ekki fer að glæðast og gæti endað í Englandi. Það myndi henta honum vel en hann er einn ef ekki dyggasti aðdáandi enska knattspyrnuliðsins Arsenal og er einmitt formaður klúbbsins.

Siggi var með konuna og syni sína með sér þennan fimmtudagsmorgun. Hann reynir ekki að þræta fyrir að vera farinn að lýjast eftir atganginn í Grindavík í vetur og nokkra flutninga.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Boð um að opna í Englandi

„Já, ég er ekki af baki dottinn en viðurkenni fúslega að þetta hefur tekið á. Hvert áfallið af fætur öðru, fjárhagslegt tjón vegna rafmagnsleysis og viðskiptin hafa auðvitað hrunið en mér reiknast til að veltan eftir fyrstu fjóra mánuði síðasta árs hafi verið um 60 milljónir, hún er nær núlli en einni milljón á þessu ári. Maður er hálfpartinn neyddur til að koma svo það grotni ekki allt hér niður, þetta rekur sig ekki sjálft. Ég er orðinn sextugur og hef velt fyrir mér hvort þetta sé rétti tímapunkturinn að segja þetta bara gott og jafnvel að prófa að búa í öðru landi. Mér stendur til boða að opna bakarí í Englandi, hver veit nema við munum venda okkar kvæði í kross og setjast að þar, þá verður líka styttra fyrir mig að sækja leiki Arsenal.“

Ekki miklar væntingar

Við ætlum að gera þessa tilraun til opnunar núna en ég ætla ekki að gera mér of miklar væntingar. Það er ekki gist í nema um tuttugu húsum í Grindavík en sem betur fer er talsverð atvinnustarfsemi farin í gang. Ég sé alveg fyrir mér ef bærinn myndi opna að nóg yrði að gera, ég er sannfærður um að erlendir ferðamenn munu flykkjast til Grindavíkur og landinn eflaust líka. Það var skotið af mér góðri hugmynd, ég ætti að búa til nýtt brauð sem ég myndi nefna eldgosa-brauðið eða eitthvað álíka, bakað í hitanum af eldgosinu. Ég er viss um að þetta brauð færi hraðar út en heitu lummurnar,“ segir Héra-stubbsbakarinn sem skipti nýlega um orkusala og segist spara verulega fjármuni á því. „Mér var bent á síðu, aurbjorg.is, sem býður upp á samanburð á öllu á milli himins og jarðar, t.d. á tryggingum og svo rafmagni. Ég skipti yfir til Straumlindar og hef náð að lækka rafmagnskostnaðinn umtalsvert. Rafbílaeigendur ættu að láta kanna þetta hjá sér, Straumlind býður upp á 30% ódýrara rafmagn yfir nóttina. Svona var þetta hér áður fyrr, þá fengu bakaríin ódýrara rafmagn á nóttunni því þá voru flestir sofandi.“

Leiðist keyrslan

Siggi segir að ef bærinn verði ekki opnaður sé spurning fyrir hann að stefna á að opna einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu. „Mér leiðist þessi keyrsla en við búum í Reykjavík. Hálf nöturlegt að þurfa keyra eldsnemma til Grindavíkur til að baka, bara til að flytja svo vöruna aftur til baka eftir hádegi en maður er tilbúinn að leggja ýmislegt á sig svo reksturinn gangi. Ég hef verið í viðræðum við keðjur í Reykjavík, við höfum verið mjög vinsæl í vegan-vörunum okkar og hafa stórar keðjur sýnt því mikinn áhuga. Það þýðir ekkert annað fyrir mig en líta bara björtum augum til framtíðarinnar en hvort hún liggi í Grindavík eða á Íslandi yfir höfuð, kemur bara í ljós,“ sagði Siggi að lokum.