Flugger
Flugger

Íþróttir

Dómarabúningurinn í þvottavélina
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 18. maí 2024 kl. 06:07

Dómarabúningurinn í þvottavélina

Þarf að grípa þau sem hætta í körfu um tvítugt og fá þau í dómgæslu, bæði stráka og stelpur, segir Njarðvíkingurinn Birgir Örn Hjörvarsson, einn yngsti körfuboltadómari landsins.

„Ég er ekki sá hávaxnasti svo ég sá sæng mína upp reidda sem leikmaður og sneri mér að dómgæslu,“ segir Birgir Örn Hjörvarsson, sem er einn yngsti dómarinn í úrvalsdeildunum í körfuknattleik. Hann er fæddur og uppalinn í Reykjanesbæ, æfði og spilaði með Njarðvík en sá ekki fram á mikinn frama sem leikmaður og ákvað því að skella sér í dómarabúninginn í staðinn. Hann hvetur ungt körfuknattleiksfólk til að íhuga dómgæslu ef það ætlar sér ekki alla leið sem leikmaður, það vantar alltaf dómara og ef áhugi er fyrir hendi er dómgæsla mun skemmtilegri aukavinna en vinna á búðarkassa.

Dómgæslan kom óvænt upp má segja hjá Birgi.

Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

„Ég var að dæma í fjölliðamóti í Njarðvík og Keflvíkingurinn Jón Guðmundsson sem var dómari, var að þjálfa annað liðið sem ég dæmdi hjá. Eftir leikinn sagði hann við mig að ég ætti að leggja dómgæslu fyrir mig, hann sagðist hafa séð mig dæma aðra leiki og ég væri með þetta í mér. Á svipuðum tíma var KKÍ að halda dómaranámskeið og Njarðvík ákvað að borga námskeiðið fyrir mig og tvo aðra. Dómaranámskeiðið var haldið yfir helgi og strax á mánudeginum fékk ég skilaboð frá einum í dómaranefnd KKÍ og mér tjáð að ég hefði pakkað námskeiðinu saman og dómaranefndin vildi setja mig á leik í unglingaflokki nokkrum dögum seinna. Það var skrýtið að dæma hjá stelpum sem sumar voru eldri en ég, mamma þurfti að skutla mér í leikinn því ég var ekki kominn með bílpróf en leikurinn gekk vel hjá mér. Ég æfði og spilaði með Njarðvík fyrsta árið og dæmdi samhliða en þar sem ég er ekki hæstur í hæðum og sá að mín biði ekki farsæll ferill sem leikmaður, ákvað ég að kveðja leikmanninn og einbeita mér að dómaranum og sé ekki eftir því.“

Dómarafjölskyldan

Fyrstu verkefni dómara eru hjá unglingaflokkum og þvældist Birgir um öll Suðurnesin fyrstu tæpu tvö árin. Það kom að því að hann fékk verkefni í Reykjavík og í framhaldi fékk hann verkefni í meistaraflokki, fyrst í fyrstu deild kvenna, svo karlamegin en svo var stór munur að dæma í úrvalsdeildunum því þar eru þrír dómarar í hverjum leik.

„Ég fékk strax mjög góð viðbrögð frá öðrum dómurum, þessum reynsluboltum eins og Sigmundi Má Herberts, Kidda Óskars, Rögnvaldi Hreiðars og fleirum. Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég mætti á minn fyrsta haustfund dómara, ég var frekar stressaður að hitta allar þessar kanónur en dómarar hugsa mjög vel um hvorn annan, þetta er eins og fjölskylda og mér var strax vel tekið. Þessir reyndu dómarar buðust til að koma á leiki þar sem ég var að dæma til að gefa mér góða punkta. Þegar ég byrjaði að dæma voru þetta kannski tveir leikir á mánuði en eftir því sem reynsla mín jókst komu fleiri verkefni og áður en varði voru þetta orðin verkefni annan hvern dag. Tímabilið 2018/2019 byrjaði ég að dæma í fyrstu deild kvenna, Bryndís Gunnlaugs frá Grindavík grínast með að hún hafi nánast ættleitt mig í körfuboltann, ég dæmi mikið hjá ÍR þar sem hún var aðstoðarþjálfari. Rétt fyrir áramót 2019 fékk ég fyrsta verkefnið í fyrstu deild karla og var farinn að dæma reglulega þar og fékk svo loksins verkefni í úrvalsdeild kvenna tímabilið ´20/´21. Það var mikið stökk að fara yfir í úrvalsdeildina, því þar eru alltaf þrír dómarar en í öllum öðrum deildum og flokkum eru bara tveir dómarar. Gæðin voru líka miklu meiri í úrvalsdeildinni, öll lið með útlending á meðan kannski ekkert lið var með erlendan leikmann í fyrstu deildinni. Nokkrir rangir dómar á útlending leiddi kannski til þess að viðkomandi var rekinn heim fyrir slæma frammistöðu, svo það var öðruvísi pressa að byrja dæma á hæsta stiginu. Munurinn lá samt mest í þriggja dómarakerfinu. Það er mikill munur að dæma þannig, allar staðsetningar öðruvísi og til að byrja með kom fyrir að ég ruglaðist hvar ég ætti að standa í vítaskoti t.d., maður stendur hægra megin í vítum í tveggja dómarakerfi en stundum vinstra megin í þriggja. Það er talað um að það þurfi u.þ.b. 50 leiki til að komast vel inn í þriggja dómarakerfið og í dag er ég kominn með það mikla reynslu að lítið mál er að svissa á milli. Þegar mest var dæmdi ég kannski leik á mánudegi og þriðjudegi í unglingaflokki, svo í Subway-deild kvenna á miðvikudegi, Subway-karla á fimmtudegi og í fyrstu deild á föstudegi. Það var auðvitað of mikið til lengri tíma litið og ég þurfti að gera upp við mig hvort ég ætlaði að verða meistaraflokksdómari og í dag er ég nánast eingöngu að dæma í úrvalsdeildunum,“ segir Birgir Örn.

Vantar dómara

Umræðan í körfuknattleikssamfélaginu er venjulega alltaf þannig að það vanti dómara. Birgir vill sjá fleiri unga dómara af báðum kynjum bætast í dómarafjölskylduna.

„Því miður eru ekki margir ungir dómarar eins og ég að koma upp, það vantar alltaf dómara. Talað er um að dómaraferillinn geti varað til u.þ.b. 55 ára aldurs, Simmi og Kiddi er t.d. um 55 ára gamlir, svo eru dæmi um eldri kempur eins og Björn Leósson sem er rúmlega sextugur en dæmir einungis í yngri flokkum þessa dagana. Það vantar meiri nýliðun og ég myndi vilja sjá fleiri ungmenni sem hafa verið í körfubolta, íhuga að leggja dómaraflautuna fyrir sig. Ferill dómarans getur verið miklu lengri en ferill leikmanns og fyrir þann sem hefur áhuga á körfubolta er þetta frábært tækifæri til að sinna áhugamálinu og fá greitt fyrir það í leiðinni. Ég hef ekki þurft að stunda aðra vinnu samhliða háskólanámi mínu, dómgæslan hefur dugað mér og ég get alla vega sagt fyrir mig að það er mun skemmtilegra að vinna við að dæma í körfuknattleik en vinna á búðarkassa í Bónus. Sumir fara í stjórnarstörf hjá félögunum og það er auðvitað frábært en ég hvet alla til að prófa dómgæsluna. Ég myndi ekki segja að það sé skilyrði að þú hafir æft körfubolta til að geta orðið dómari, en það hraðar uppgangi að vera með leikskilninginn sem fyrrverandi leikmaður eða þjálfari. Oft tekur dómara svolítinn tíma að fá tilfinningu fyrir leiknum en hún kemur en klárlega er kostur að hafa æft og spilað áður en farið er í dómarabúninginn.“

Dómgæsla erfiðari í dag vegna samfélagsmiðla?

Áhuginn á körfuknattleik á Íslandi fór upp í nýjar hæðir þegar Stöð 2 Sport byrjaði að fjalla um leikina í svokölluðum körfuboltakvöldum með sérfræðinga innanborðs. Þá eru til ótal spjallgrúbbur á samfélagsmiðlum þar sem körfuknattleiksunnendur ræða sín á milli allt milli himins og jarðar varðandi körfuknattleik, t.d. dómgæsluna.

„Ég held að það sé erfiðara að vera dómari í dag en hér áður fyrr vegna samfélagsmiðla en gömlu refirnir eru ekki sammála því, þeir segjast í staðinn hafa fengið það óþvegið beint í andlitið ef viðkomandi stuðningsmaður var ekki sáttur við dómgæsluna. Ég er sem betur fer búinn að læra að taka umræðu á samfélagsmiðlum ekki inn á mig, þetta fer á dómarabúninginn sem fer svo í þvottavélina. Það er kannski frekar aðstandendur manns sem taka skítkast á mig inn á sig. Ég held að það sé bæði skemmtilegra og erfiðara að vera dómari í dag vegna athyglinnar sem íþróttin fær, fyrir fimmtán árum var kannski einn leikur sýndur í mánuði og athyglin miklu minni. Í dag þegar úrslitakeppnin er á fullu, hefur maður á tilfinningunni að allir landsmenn séu að fylgjast með og auðvitað gerir það starf dómarans meira spennandi en líka erfiðara. Það er mikil pressa á okkur að standa okkur en við kvörtum ekki yfir því. Þegar mikið er undir er eðlilegt að tilfinningar fljóti en mér finnst að allir eigi að geta haft hugfast að á enda dagsins er þetta nú bara leikur, það á ekki að þurfa vera skítkast eftir leiki vegna frammistöðu okkar dómaranna eða leikmanna, það gera allir mistök, bæði leikmenn og dómarar og það er hluti af leiknum. Mikilvægast er að allir eru að reyna að gera sitt besta. Stundum er eins og myndist ákveðin gjá á milli okkar dómaranna og annarra í körfuknattleikshreyfingunni og ég myndi vilja sjá alla leggjast á eitt til að brúa það bil. Hugsanlega væri gott að það væri einhver milliliður á milli dómara og hinna, við megum eðlilega ekki fara inn á Subway-spjallið og taka þátt í samræðum þar og stundum veit ég að skýring frá okkur myndi oft á tíðum leysa viðkomandi hnút.

Það koma alltaf upp atvik í leikjum og í kjölfar leikja þar sem aðilar geta gert betur, þá á ég við bæði við dómarnir, forráðamenn félaganna og ekki síst KKÍ en verðum við að treysta því að allir séu að reyna gera sitt besta. Ég hef að sjálfsögðu gert mistök og ég man eftir einum leik þegar ég hálf brotnaði saman eftir hann á leiðinni heim. Ég gerði mér grein fyrir að ég hafði gert mistök, hringdi í annan meðdómaranna minna í leiknum og viðurkenndi mistök mín og sá hinn sami hughreysti mig, sagði að þeir hefðu allir lent í þessu og málið væri bara að læra af mistökunum. Eftir því sem reynslan eykst gengur manni betur að tækla svona stöðu betur og ég er þannig í dag að að ef mér er bent á að ég hafi gert mistök, hika ég ekki við að snúa dómnum við og/eða viðurkenna mistökin, það er miklu betra heldur en að hanga á einhverju eins og hundur á roði.“

Birgir með erlendum dómurum.

Meiri harka leyfð í úrslitakeppni?

Oft virðist sem meiri harka sé leyfð þegar komið er út í úrslitakeppni en Birgir segir að aldrei sé tekin ákvörðun fyrir úrslitakeppni um að leyfa meiri hörku. Samt er skýring á öllu.

„Þetta er frábær spurning, ég hef jú heyrt þessa umræðu en að sjálfsögðu er það ekki þannig að við dómararnir komum saman í aðdraganda úrslitakeppni og ákveðum að nú skulum við leyfa meiri hörku. Þegar út í úrslitakeppni er komið er miklu meira undir, leikirnir skipta meira máli og þá viljum við að bestu leikmennirnir geti verið inni á vellinum. Okkar prinsipp er að missa frekar af villu á móti því að dæma lélega villu, kannski svipað og tíðkast í almennu réttarríki, þar er viðkomandi bara dæmdur sekur ef sekt er sönnuð, hann er ekki dæmdur á líkum. Í venjulegum deildarleik skiptir ekki eins miklu máli ef tvær til þrjár lélegar villur eru dæmdar en þegar úrslitakeppnin er byrjuð er mikilvægara að rétt villa sé dæmd, í stað þess að léleg villa sé dæmd og þá eru auðvitað meiri líkur á að sumar villur sleppi í gegnum nálaraugað. Sumir tala um körfuknattleik sem leik án snertinga, það er ekki rétt því við tölum um leik án ólöglegra snertinga. Leikmenn vanda sig betur þegar úrslitakeppnin er byrjuð, leggja meira á sig og spila eflaust fastar og það má líka alveg, það má bara ekki vera ólöglega fast.

Ég er ánægður með framgang minn til þessa, ég fékk að dæma þrjá leiki hjá körlum og þrjá leiki hjá konum í átta liða úrslitum í þessari úrslitakeppni, ég fékk einn leik í undanúrslitum, það er frábært fyrir dómara ekki eldri en ég er. Ég geri ekki ráð fyrir að fá fleiri leiki, það eru þeir reynslumestu sem eðlilega fá leikina en það gæti skipt máli fyrir mig hvort Njarðvík eða Valur fer í lokaúrslitin. Þó svo að við dómararnir séum ekki lengur skráðir í ákveðin félög, þá reynir dómaranefndin að láta ekki mig og Simma t.d., dæma fyrir Njarðvík því það er vitað að við erum þaðan. Hins vegar væri ósanngjarnt gagnvart Njarðvík að fá ekki Simma sem ég tel einn besta dómara landsins, til að dæma sína leiki. Við eigum jú að gæta hlutleysis og gerum það en ef dómaranefndin getur sleppt því að láta Njarðvíking dæma leik hjá Njarðvík, þá er það gert. Vonandi er það samt breyting sem kemur til með að verða í náinni framtíð. Í fyrra var ég gerður að FIBA prospect [dómari sem FIBA telur efnilegan] á vegum KKÍ sem þýðir að ég er í prógrammi sem á að stuðla að því að ég verði alþjóðlegur FIBA-dómari, ég stefni á að komast þangað í september á næsta ári. Ég hlakka til að þroskast og þróast í dómarahlutverkinu og hlakka til framtíðarinnar,“ sagði þessi efnilega dómari að lokum.