Flugger
Flugger

Mannlíf

Gerir við reiðhjól í frítímum
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 18. maí 2024 kl. 06:16

Gerir við reiðhjól í frítímum

Svanur Már Scheving er vel þekktur hlaupa- og hjólreiðakappi í Reykjanesbæ og má sjá honum bregða fyrir hlaupandi eða hjólandi allan ársins hring, sama hvernig viðrar. Það eru fáir sem standast Svani snúning en hann hjólaði m.a. hringinn kringum Ísland fyrir fáeinum árum. Nú hefur Svanur opnað hjólaverkstæði á Smiðjuvöllum í Reykjanesbæ en þá þjónustu hefur sárlega vantað í bæinn.

Hjól þurfa sitt viðhald

„Ég auglýsti mig og svo spyrst þetta einfaldlega út,“ segir Svanur en talsverður erill hefur verið hjá honum síðan hann opnaði hjólaverkstæðið sitt á Smiðjuvöllum í byrjun síðasta mánaðar. „Það koma alltaf fleiri og fleiri með hjól til mín. Það er virkilega gaman hvað fólk tekur þessu vel.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það hefur verið mikil þörf á svona þjónustu í bæinn, sérstaklega núna þegar skólarnir eru að klára.

„Já og allir að fara af stað. Þessi þjónusta þarf að vera til staðar, hjólið bilar alveg eins og bíllinn. Það þarf að smyrja bílinn og sinna viðhaldi, þetta er alveg eins.“

Hvernig fólk hefur verið að leita til þín?

„Þetta hefur verið allskonar fólk; eldra fólk, fólk á miðjum aldri eða fólk að koma með hjólin fyrir börnin.“

Svanur segir að hann muni jafnvel fljótlega fara að selja ný reiðhjól. „Ég ætlaði nú ekki að byrja á því strax en fólk hefur verið að spyrja um þetta og mögulega tek ég fljótlega inn hjól í samstarfi við Örninn. Þar fæ ég alla varahluti og þeir bakka mig upp.“

Svanur á verkstæðinu. VF/JPK

Hvernig dast þú inn í hjólaviðgerðir, er það bara eitthvað sem þú hefur verið að fikta við í gegnum tíðina?

„Já, ég er nú búinn að vera mikið að hlaupa og hjóla og ég hjólaði til dæmis hringinn fyrir fjórum árum. Víkurfréttir fjölluðu meðal annars um þessa ferð mína og það var með fyrstu greinunum af fólki að ferðast innanlands þegar Covid var í gangi.

Mig langaði alltaf að gera þetta og notaði tækifærið þegar Covid var og engir útlendingar á vegunum. Ég hef nú gert ýmislegt yfir ævina en þetta er eitt það allra skemmtilegasta sem ég hef gert, ég naut hverrar einustu mínútu af ferðinni,“ segir Svanur en ferðin tók tólf daga í heildina, tíu dagar fóru í að hjóla hringinn en tvo daga notaði hann til að heimsækja ættingja á Akureyri.

Svanur sinnir hjólaviðgerðunum utan hefðbundins vinnutíma en hann starfar í Vatnaveröld í Reykjanesbæ. „Ég er í vinnu sem ég er ánægður með og þetta er bara svona auka. Svo hef ég mann til að hjálpa mér ef reynir á það. Ég sinni öllu vel sem ég tek mér fyrir hendur,“ segir Svanur og bætir við að lokum að hann sé með Face-book-síðu þar sem hann setur reglulega inn hvenær hann er á staðnum og fólk geti komið með hjól á þeim tímum.

Hér fyrir neðan má nálgast viðtal Hilmars Braga Bárðarsons, blaðamanns Víkurfrétta, við Svan sem var tekið eftir að hann hjólaði hringinn árið 2020.