RNB ráðhús
RNB ráðhús

Íþróttir

Spilastokkurinn útkljáði
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 7. mars 2025 kl. 06:50

Spilastokkurinn útkljáði

Það var rafmögnuð spenna sem myndaðist á skrifstofu Víkur-frétta á mánudaginn kl. tvö en þá mættu áskorandinn Björn Vilhelmsson og fulltrúi Petru Rósar Ólafsdóttur, systursonur hennar, Sigurjón Rúnarsson. Ástæða fundarins, það þurfti að útkljá tippviðureignina frá helginni því Petra og Björn skyldu jöfn, 8-8 og jafnt var á öllum úrræðum og því þurfti að grípa til spilastokksins. Petra var vant viðlátin og sendi Sigurjón frænda sinn í sinn stað. Það er hætt við því að stemmningin í næsta fjölskylduboði frændsystkinanna verði döpur, Sigurjón galt afhroð í úrdrættinum, dró einungis sexu á móti kóngi Björns og Petra hefur því lokið leik en er hér með þökkuð þátttakan.

Það er upplagt að setja upp einvígi milli Garðs og Sandgerðis, Björn er frá Garði en áskorandinn, Ólafur Þór Ólafsson, er frá Sandgerði.

„Ég byrjaði að æfa fótbolta í sjötta flokki í Sandgerði, það var ekki hægt að byrja fyrr á þeim tíma og ég get stært mig af Suðurnesjameistaratitli í þriðja flokki og var bikarnum lyft í Grindavík sælla minninga. Ég sá á þessum tíma að mín biði ekki frami sem knattspyrnumaður og sneri mér í staðinn að dómgæslunni og dæmdi í tuttugu ár. Ég komst á línuna í næstefstu deild en var annars að dæma í neðri deildum.

Tónlistarskóli RNB tónleikar
Tónlistarskóli RNB tónleikar

Ég hef tekið mér ýmislegt fyrir hendur í gegnum tíðina, er menntaður stjórnsýslufræðingur og kennari, hef verið íþrótta- og æskulýðsfulltrúi, starfað við kennslu, hef verið forstöðumaður félagsmiðstöðvar, ég var yfir Fjölsmiðjunni á Suðurnesjum í fjögur ár, var bæjarfulltrúi í Sandgerðisbæ og svo Suðurnesjabæ í næstum tuttugu ár og var þar til í fyrra sveitarstjóri á Tálknafirði. Það var lærdómsríkur og skemmtilegur tími. Í dag er ég að sinna ýmsum verkefnum sem bæði tengjast sveitarfélögum og kennslu og var í hópi frambjóðenda Samfylkingarinnar í alþingiskosningunum í fyrra. Svo er ég alltaf eitthvað að sýsla í tónlist.

Ég er formaður aðalstjórnar Reynis, í dag erum við með tvær deildir, knattspyrnudeild sem er sú stærsta og svo körfuknattleiksdeild. Við vorum með handknattleiks- og sunddeild en þær greinar liggja í dvala núna en verða vonandi endurvaktar þegar tækifæri gefst til.

Áhuginn á enska boltanum byrjaði þegar ég var ungur, ég man eftir mér sex ára gömlum og þá var Nottingham Forest aðalliðið. Þeir urðu enskir meistarar ‘78 og Evrópumeistarar ‘79 og ‘80 svo eftir það var ekki aftur snúið. Það skemmdi líka ekki fyrir að um þetta leiti þegar ég tók ástfóstri við liðið var ég nýbyrjaður að lesa og gat lesið íþróttafréttirnar í DV, þar var talað um Forest-liðið og lógóið þeirra greip auga mitt. Við erum ansi brattir þessa dagana, ef einhver hefði boðið mér fyrir tímabilið að við yrðum í þriðja sæti í deildinni í byrjun mars, hefði ég klárlega tekið því. Við erum að njóta góðs af góðu stjórnarfari undanfarin ár en rekstur klúbbsins er til mikillar fyrirmyndar. Úr því sem komið er væri fáranlegt annað en stefna á að enda á meðal fjögurra efstu liðanna og komast þar með í Meistaradeildina.

Ég hlakka til að takast á við Björn, mig minnir að ég hafi rekið hann einu sinni út af hið minnsta á sínum tíma, ætla mér klárlega að reka hann út af tippvelinum núna,“ sagði Ólafur Þór.

Engin spurning í úrdrættinum

Björn var ekki í nokkrum vafa um útkomuna úr úrdrættinum.

„Ég hafði góða tilfinningu þegar ég labbaði inn á skrifstofu Víkurfrétta og þegar ég sá að Petra Rós komst ekki sjálf, og sendi litla frænda sinn fyrir sína hönd, vissi ég í raun að sigurinn væri minn. Ég mun ekki hætta núna og hlakka til að rúlla Sandgerðingnum upp, það hefur alltaf verið blóðug barátta á milli þessara erkifjenda inni á knattspyrnuvellinum, ég sé ekki að það þurfi að breytast hér á tippvellinum,“ sagði Björn kokhraustur.