Elías Már sjóðandi heitur í Hollandi
Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson heldur áfram að gera það gott í hollensku úrvalsdeildinni en á dögunum skoraði hann sitt fimmta mark í síðustu sex leikjum. Hann kom liði sínu, NAC Breda, yfir á fjórðu mínútu í leik á heimavelli sínum gegn Heracles en jöfnunarmark leit dagsins ljós á 54. mínútu og þar við sat.
Eftir leikinn er Breda í níunda sæti hollensku úrvalsdeildarinnar og mætir RKC Waalwijk í næsta leik á útivelli. Vonandi heldur Elías áfram á sömu braut en lið RKC Waalwijk er næstneðst í deildinni.