Karlakór Kef vortónl
Karlakór Kef vortónl

Íþróttir

Allar deildir Keflavíkur skiluðu jákvæðri niðurstöðu á síðasta ári
Litlar breytingar urðu á stjórn Keflavíkur á milli ára. Björg Hafsteinsdóttir var endurkjörin formaður félagsins. Aðrir sem skipa stjórn Keflavíkur 2025 eru Sveinbjörg Sigurðardóttir, varaformaður, Eva Björk Sveinsdóttir, ritari, Garðar Már Newman, gjaldkeri, og Jónína Steinunn Helgadóttir, meðstjórnandi. Varamenn eru Stefán Guðjónsson, Garðar Örn Arnarson og Guðmundur Steinarsson kemur inn sem varamaður í stjórn.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 20. febrúar 2025 kl. 14:06

Allar deildir Keflavíkur skiluðu jákvæðri niðurstöðu á síðasta ári

Jákvæð þróun í rekstri félagsins með aðkomu Reykjanesbæjar

Góð mæting var á aðalfund Keflavíkur sem var haldinn í félagsheimili Keflvíkinga að Sunnubraut síðastliðinn þriðjudag. Velta Keflavíkur á árinu 2024 var um 900 milljónir króna í níu deildum.

Aðalfundinum var stýrt af Böðvari Jónssyni, formanni knattspyrnudeildar Keflavíkur, og stýrði hann fundinum af röggsemi. Björg Hafsteinsdóttir, formaður félagsins, flutti skýrslu aðalstjórnar og mátti heyra á henni að meðbyr sé með Keflavík um þessar mundir. Allar deildir Keflavíkur skiluðu jákvæðri niðurstöðu á síðasta ári og er það í fyrsta sinn frá árinu 2005 sem það gerist. Það var gjaldkeri félagsins, Garðar Newman, sem kynnti ársreikninginn og hafði hann á orði að þetta hefði ekki verið hægt án aðkomu Reykjanesbæjar með ráðningu á fjármálastjóra fyrir félagið árið 2024 og með ráðningu íþróttastjóra fyrir nokkrum árum. Það væri veigamikill þáttur í þeim viðsnúningi sem hefði orðið á rekstri félagsins. Ársskýrslan er aðgengileg á heimasíðu Keflavíkur (https://www.keflavik.is/media/1/arskyrsla-stjornar-2024.pdf).

Áður en gengið var til kaffis voru dyggir félagar í Keflavík heiðraðir fyrir störf sín í þágu félagsins. Starfsbikarinn er veittur á hverju ári en gefandi hans er UMFÍ fyrir sjálfboðaliða Keflavíkur. Það var Davíð Örn Óskarsson sem hlaut starfsbikarinn fyrir störf sín í þágu Keflavíkur í ár og þá var Evu Björk Sveinsdóttur, ritara aðalstjórnar, veitt gullstarfsmerki Keflavíkur fyrir fimmtán ára stjórnarsetu.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Davíð Óskarsson hlaut starfsbikarinn.
Eva Björk Sveinsdóttir fékk gullstarfsmerki Keflavíkur.

Tvö silfurheiðursmerki Keflavíkur voru veitt á fundinum. Þórólfur Þorsteinsson, eða Dói eins og flestir þekkja hann, fékk silfurheiðursmerki fyrir góð störf síðastliðin 21 ár fyrir knattspyrnudeildina og Jón Sigurbjörn Ólafsson fékk einnig silfurheiðursmerki fyrir stjórnarstörf og sjálfboðaliðastörf síðustu 30 ár.

Jón Sigurbjörn Ólafsson og Þórólfur Þorsteinsson fengu silfurheiðursmerki Keflavíkur.

Þrír Keflvíkingar fengu gullheiðursmerki félagsins. Smári Helgason fyrir stjórnarstörf sl. 21 ár og fyrir að vera stór styrktaraðili og stuðningsmaður síðustu 30 ár. Þá voru hjónin Auður Bjarnadóttir og Þorsteinn Erlingsson einnig heiðruð með gullheiðursmerki en þau hafa verið stórir styrktaraðilar undanfarin 30 ár og eru miklir stuðningsmenn Keflavíkur.

Auður Bjarnadóttir, Þorsteinn Erlingsson og Smári Helgason fengu gullheiðursmerki Keflavíkur.

Myndir: Keflavík/JPK

Aðalfundur Keflavíkur 2024