Fréttir

Strax verði gerður samningur við verktaka varðandi snjómokstur
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 27. janúar 2023 kl. 06:10

Strax verði gerður samningur við verktaka varðandi snjómokstur

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ lýsir yfir vonbrigðum með að ekki hafi náðst tök á snjómokstri. Þá telur flokkurinn mikilvægt að strax verði gerður samningur við verktaka varðandi snjómokstur í sveitarfélaginu. Þetta kemur fram í bókun sjálfstæðismanna á síðasta fundi bæjarstjórnar.

„Fyrir jólin 2022 skall á mikil snjókoma, meiri en hefur sést í langan tíma. Eðlilega kom þetta öllum að óvörum og voru viðbragðsaðilar ekki viðbúnir svona óvæntu óveðri.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Starfsfólk Reykjanesbæjar vann nótt við dag við hreinsun á bænum og gekk það samt ekki nægjanlega vel enda var ekki einfalt að fá vélar þegar ekki var samningur við verktaka um snjómokstur.

Sjálfstæðisflokkurinn þakkar starfsfólki sem kom að snjómokstri og vinnu í kringum hana fyrir fórnfúst starf. Auk þess þakkar Sjálfstæðisflokkurinn fyrir greinargóða skýrslu frá umhverfis- og framkvæmdasviði um snjómokstur í Reykjanesbæ.

Þrátt fyrir framangreint lýsir Sjálfstæðisflokkurinn vonbrigðum með að ekki sé enn búið að ná tökum á snjómokstrinum, nú fjórum vikur síðar.

Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að strax verði gerður samningur við verktaka varðandi snjómokstur og að bæjarstjórn fái erindi frá Umhverfis-og skipulagsráði um aukningu fjármagns í málaflokkinn þannig að möguleiki sé á að bregðast hratt við ef þvílíka aðstæður koma upp aftur. Upplýsingar til íbúa hvernig forgangsröðun og skipulag snjómoksturs er háttað þarf að bæta. Eins væri gott að læra af þeim sveitarfélögum sem hafa verið til fyrirmyndar í þessum málum.“

Þetta kemur fram í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á síðasta bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ við fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. janúar 2023 sem þau Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og  Birgitta Rún Birgisdóttir skrifa undir. Bæjarfulltrúi Umbótar, Margrét Þórarinsdóttir, tók undir bókunina.

Snjóruðningar í Reykjanesbæ um jólin. Þá varð m.a. slys þegar gangandi vegfarandi var að fara yfir ruðninga á móts við Hafnargötu 90. Slysið var ekki alvarlegt, samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta.