Toyota ársgamlir bílar á tilboði
Toyota ársgamlir bílar á tilboði

Fréttir

Stálu eldsneyti af sjúkrabílnum
Fimmtudagur 29. nóvember 2012 kl. 11:39

Stálu eldsneyti af sjúkrabílnum

Eldsneyti var stolið af sjúkrabíl í Reykjanesbæ í vikunni. Bifreiðin stóð á bílastæði við slökkvistöðina í Reykjanesbæ þegar óprúttnir aðilar í skjóli nætur tóku nær allt eldsneytið af bílnum.

Þegar eldsneyti er stolið af neyðarbílum getur það haft mjög alvarlegar afleyðingar þegar til neyðartilfella kemur og viðkomandi útkallstæki er nánast eldneytislaust. Umræddur sjúkrabíll er notaður sem varasjúkrabíll þegar aðrir bílar BS eru í útkalli. Það gerist reglulega að allir sjúkrabílar svæðisins eru uppteknir og þá þarf að grípa til varabílsins.

Á undanförnum vikum hefur borið á því að eldsneyti sé stolið af bílum og er skemmst að minnast eldsvoða við Iðavelli þegar verið var að dæla eldsneyti af bíl með þeim afleiðingum að eldur varð laus og mikið tjón hlaust af.

„Þessir þjófnaðir virðast  vera farir að færast á annað stig, þegar svo er komið að eldsneyti er stolið af neyðarbílum slökkviliðsins. Ég veit ekki hvort að þeir sem leggjast svo lágt geri sér grein fyrir því að útkallið gæti eins verið til þeirra, eða þeirra ættingja sem og annara bæjarbúa,“ segir Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja.

Jón vill að endingu hvetja þá sem verða varir við eitthvað óeðlilegt athæfi að hafa samband við lögreglu þannig að hægt verði að stemma stigu við þessum ófögnuði sem þessir þjófnaðir eru.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs