Tónlistarskóli RNB vortónleika
Tónlistarskóli RNB vortónleika

Fréttir

Sunnudagur 18. maí 2025 kl. 06:15

Nýtt íbúðahverfi í undirbúningi á Suðurbrekkureit á Ásbrú

Ný vinnslutillaga að deiliskipulagi fyrir Suðurbrekkureit á Ásbrú liggur nú fyrir og markar stórt skref í áframhaldandi uppbyggingu hverfisins. Tillagan er unnin af A2F arkitektum fyrir Kadeco og snýr að 14,5 hektara svæði í suðausturhluta Ásbrúar sem áður var óbyggt.

Gert er ráð fyrir allt að 219 íbúðum í einbýlishúsum, raðhúsum og litlum fjölbýlishúsum. Byggðin stallast niður með halla landsins og nýtir þannig birtu og útsýni til hins ýtrasta. Við Virkishæð verða allt að þriggja hæða hús sem skapa skjól og tengjast eldri byggð, en í austurhluta verða einbýlishús í hlýlegu og grænu umhverfi.

Grænn ás með gönguleið og útivistarsvæðum liggur í gegnum reitinn og tengist öðrum stígum í hverfinu. Skipulagið styður þannig við vistvænar samgöngur og lýðheilsu og gerir íbúum kleift að sinna daglegum erindum án þess að þurfa að treysta á bílinn.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Tillagan er í samræmi við þróunaráætlun Kadeco og aðalskipulag Reykjanesbæjar. Þar er lögð áhersla á fjölskylduvænt og hlýlegt bæjarumhverfi, skjólgóð útisvæði, tengingu við menningararf og fjölbreytni í húsagerð.

Vinnslan er enn á frumstigi og hefur ekki verið auglýst formlega sem deiliskipulag, en næstu skref felast í frekari útfærslu í samráði við skipulagsfulltrúa og umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar.