Hafnargata fær nýtt líf
Framtíðarsýn fyrir miðbæ Reykjanesbæjar
Í nýútgefnum drögum að hönnunarhandbók fyrir Hafnargötu í Reykjanesbæ er lögð fram metnaðarfull framtíðarsýn um hvernig þessi mikilvæga gata – gjarnan kölluð „Lífæðin“ – geti þróast í lifandi, öruggt og aðlaðandi borgarrými. Verkefnið byggir á greiningu núverandi aðstæðna og leggur fram tillögur að skipulagi, efnisvali, lýsingu, gróðri og tengingum sem miða að því að efla miðbæinn sem hjarta mannlífs og þjónustu í bænum. Drög að hönnunarhandbókinni voru kynnt á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar. Tilgangur skipulagsins er að styrkja, treysta og setja stefnu um uppbyggingu og yfirbragð svæðisins.
Lífæð miðbæjarins – áhersla á öryggi og vistvæni
Hafnargata er kölluð „Lífæðin“ í handbókinni og gegnir lykilhlutverki í ásýnd og samgöngum bæjarins. Gert er ráð fyrir að hún verði einstefnugata norður frá Tjarnarstíg, með 30 km hámarkshraða, og 15 km hraða þar sem einstefnan tekur við. Áhersla er lögð á gangandi og hjólandi umferð, öruggar þveranir og sjálflæst göturými án umferðarljósa.
Skýr stefna um ásýnd og aðgengi
Handbókin leggur upp með samræmt efnis- og litaval í yfirborðsefnum og götugögnum. Gangstéttir verða að lágmarki 2,5 metra breiðar, hjólastígar 1,8 metra og aðskildir frá gönguleiðum. Rýmin verða gerð aðgengileg með römpum og öðrum lausnum þar sem hæðarmunur er fyrir hendi.
Tengingar og bílastæði – í takt við framtíðina
Sérstök áhersla er lögð á tengingu við Ægisgötu og heilsustígakerfi. Bílastæði verða færð niður í jarðveginn, m.a. í bílakjallara undir nýbyggingum, til að rýma fyrir gróðri og dvalarrýmum. Bílastæði á yfirborði verða lögð með gegndræpum efnum og hönnuð með aðgengi og öryggi í huga.
Mannlíf, gróður og upplifun
Handbókin styður við virkt götulíf með sýnilegri starfsemi á jarðhæðum, góðri lýsingu og fjölbreytilegum rýmum. Gróður verður nýttur til að bæta loftgæði og skapa skjól, og blágrænar lausnir nýttar til að hreinsa ofanvatn og minnka flóðahættu.
Miðbær sem líflegur áfangastaður
Þessi vinna við Hafnargötu er liður í stærra ferli við að móta miðbæ Reykjanesbæjar sem lifandi og sjálfbært borgarrými. Lögð er áhersla á samspil samgangna, gróðurs og mannlífs, og að götur verði meira en bara leiðir – heldur staðir þar sem fólk vill dvelja, versla og njóta.