RNB Heilsuvika
RNB Heilsuvika

Fréttir

Ný einkarekin heilsugæsla opnar við Aðaltorg
Þórarinn Ingólfsson, yfirlæknir, Bergljót Kvaran, fagstjóri hjúkrunar, og Gunnar Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Heilsugæslu Höfða, fyrir framan húsakynni heilsugæslunnar á Suðurnesjum. VF/pket
Fimmtudagur 7. september 2023 kl. 08:25

Ný einkarekin heilsugæsla opnar við Aðaltorg

Heilsugæslan Höfða Suðurnesjum er tilbúin og opnar á mánudag. Skráning nauðsynleg. „Nýtt blóð í heilsugæsluþjónustu á Suðurnesjum.“

„Við erum nýtt blóð í heilsugæsluþjónustu á Suðurnesjum og horfum á opnun nýrrar einkarekinnar heilsugæslu sem langtímaverkefni á svæði sem er í miklum vexti og uppgangi,“ segja þeir Gunnar Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri, og Þórarinn Ingólfsson, yfirlæknir Heilsugæslunnar Höfða Suðurnesjum, sem opnar næsta mánudag, 11. september.

Umræða um opnun einkarekinnar heilsugæslu hefur staðið yfir undanfarin ár en í fyrrahaust var auglýst útboð. Tveir aðilar sóttu um, annar aðilinn uppfyllti ekki skilyrði en hinn var Heilsugæslan Höfða. Framkvæmdir við húsnæði og undirbúningur hafa staðið yfir síðustu mánuði en Heilsugæslan Höfða Suðurnesjum opnar 11. september í tæplega 1.150 fermetra húsnæði við Aðaltorg, í næsta húsi við Marriott hótelið. Heilsugæslan Höfða er með víðtækan heilsugæslu- og heilbrigðisrekstur á höfuðborgarsvæðinu með tæplega fimmtíu þúsund skráða viðskiptavini. Hún var stofnuð árið 2017 og hefur vaxið hratt og er nú stærsta einkarekna heilsugæsla landsins. Eigendur hennar er hópur níu lækna.

Suðurnesin í miklum uppgangi

„Við sýndum verkefninu mikinn áhuga strax þegar forsvarsmenn Aðaltorgs höfðu samband. Það er áskorun að mæta til Suðurnesja en markmið okkar er að veita mjög góða þjónustu frá a til ö alla virka daga frá klukkan átta til fimm. Fólk á að hafa aðgang að heilsugæslu á daginn og við leggjum áherslu á að veita gott aðgengi að þjónustu á þeim tíma. Þjónusta sem fólk fær á dagvinnutíma er alltaf betri. Það hefur verið svolítið ríkt í Íslendingum að fara til læknis eftir vinnutíma. Við verðum í byrjun með fjóra lækna, fjóra hjúkrunarfræðinga, ljósmóður og fleiri starfsmenn í heilsugæsluþjónustu. Við ætlum að laða að okkur hæft starfsfólk úr heilbrigðisgeiranum og vinna að heill bæjarbúa. Það vita allir að það hefur verið skortur á heilsugæsluþjónustu á Suðurnesjum en um leið og við verðum vissulega í samkeppni við Heilbrigðisþjónustu Suðurnesja, þá teljum við að tilkoma okkar muni efla HSS á jákvæðan hátt og við lítum því frekar á okkur sem samstarfsaðila. Þjónusta fyrir fólkið á svæðinu mun aukast til muna,“ sögðu þeir félagar en á nýju heilsugæslunni eru læknar og heilbrigðisstarfsfólk sem hefur ráðið sig til Höfða.

Rúmlega tuttugu stofur eru í nýju heilsugæslunni.

Góð aðstaða og heimilislæknir

Í húsnæðinu, sem fyrir nokkrum árum var gistiheimili og síðar aðstaða fyrir bólusetningar í heimsfaraldri, er nýkomin mjög góð aðstaða fyrir sjúklinga og starfsfólk, m.a. rúmlega tuttugu stofur fyrir fjölbreytta starfsemi heilsugæslunnar; þar af þrettán læknastofur, tvær ungbarnaverndarstofur, tvær fyrir mæðravernd, tvær fyrir blóðtöku, þrjú sérhönnuð vaktherbergi og gott rými fyrir starfsfólk.

Í boði verður m.a. að fá eigin heimilislækni, nokkuð sem Suðurnesjamönnum hefur ekki staðið til boða á svæðinu. Nú eru um sex þúsund Suðurnesjamenn skráðir á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, þar af um tvö þúsund hjá heilsugæslustöðum Höfða í Reykjavík og í Kópavogi. Í byrjun vikunnar voru um tvö hundruð búnir að skrá sig á Heilsugæsluna Höfða Suðurnesjum en í útboði var gert ráð fyrir að allt að ellefu þúsund manns geti skráð sig. Hægt er að skrá sig með rafrænum skilríkjum á sjukra.is, í síma 591-7000 eða mæta á staðinn í nýju stöðina við Aðaltorg.

Einkarekið ekki dýrara

Þeir félagar voru spurðir að því hvort það væri kostnaðarsamara fyrir fólk að nota þjónustu einkarekinnar heilsugæslu. „Nei, svo er ekki,“ segja þeir en eru þeir bjartsýnir á góðar viðtökur?

„Við vonumst til að fá góðar móttökur á Suðurnesjum. Við erum komin með góða reynslu og erum með hæft og gott starfsfólk. Þegar við opnuðum í Reykjavík árið 2017 fengum við frábærar móttökur og reynslan af okkar rekstri hefur verið mjög góð. Það er því ekki ástæða til annars en bjartsýni. Við erum sannfærð um að nú sé tími og staður til að hefja nýja heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.“