Fréttir

Miklar endurbætur á Hvalsneskirkju
Þriðjudagur 28. ágúst 2018 kl. 09:14

Miklar endurbætur á Hvalsneskirkju

- Nýir gluggar, tvöfalt gler og gólfið rétt af

Þessar vikurnar eru unnið að talsverðum endurbótum á Hvalsneskirkju. Smíðaðir hafa verið nýir gluggar í kirkjuna og hún glerjuð með tvöföldu gleri. Nú er unnið inni í kirkjunni við viðgerð á gólfi hennar sem var orðið sigið og skakkt. Það hefur því verið opnað og tjakkað upp og stálsæti sett undir burðarbitana en moldargólf er undir trégólfinu. Gert er ráð fyrir að kirkjan verði lokuð vegna framkvæmda fram í október næstkomandi.
 
Burðarbitar undir gólfi kirkjunnar eru vandaður rauðviður sem talinn er vera úr timburskipinu Jamestown sem strandaði við Hafnir árið 1881. Smíði kirkjunnar hófst árið 1886 og var hún svo vígð árið 1887.
 
Til að geta lagfært gólfið þurfti að fjarlægja alla bekki úr kirkjunni ásamt altari og predikunarstól. Flestir munirnir fóru í geymslugám en predikunarstóllinn er enn inni í kirkjunni.
 
Hvalsneskirkja er kirkja Sandgerðinga. Ketill Ketilsson, stórbóndi í Kotvogi og þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar, kostaði kirkjubygginguna. Hvalsneskirkja er byggð úr tillhöggnum steini og var grjótið sótt í klappir í nágrenninu. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon og Stefán Egilsson, um tréverk sá Magnús Ólafsson. Allur stórviður hússins var fenginn úr fjörunum í nágrenninu, m.a. súlurnar. Viðamiklar viðgerðir fóru fram árið 1945 undir umsjón Húsameistara ríkisins. Altaristafla Hvalsneskirkju er eftirgerð af Dómkirkjutöflunni máluð af Sigurði Guðmundssyni árið 1886 og sýnir upprisuna.
 
Einn merkasti gripur kirkjunnar er legsteinn yfir Steinunni Hallgrímsdóttur sem dó á fjórða ári (1649). Hún var dóttir Hallgríms Péturssonar (1614–1674) mesta sálmaskálds Íslendinga sem þjónaði þá sem prestur í Hvalsnessókn, eiginkona hans var Guðríður Símonardóttir. Hallgrímur Pétursson þjónaði á Hvalsnesi fyrstu prestskaparár sín 1644–1651. Hella þessi var lengi týnd en fannst 1964 þar sem hún hafði verið notuð í stéttina framan við kirkjuna.
 
Kirkja hefur líklega lengi verið á Hvalsnesi, hennar er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá árinu 1200. Hvalsnes var fyrrum prestssetur og útkirkjur í Kirkjuvogi og Innri-Njarðvík. Hvalsnesprestakall var lagt niður 1811 og Hvalsnes- og Kirkjuvogskirkjur lagðar til Útskála. Íbúarnir voru mjög ósáttir við það og var ný kirkja byggð 1820 og var hún timburkirkja. Núverandi kirkja er fyrsta kirkjan sem stendur utan kirkjugarðs. Í kaþólsku tengdust margir dýrlingar kirkjunni, María guðsmóðir, Ólafur helgi, heilög Katrín, Kristur, allir heilagir og hinn helgi kross, segir í samantekt um Hvalsneskirkju á Ferðavef Reykjaness, VisitReykjanes.is

 
 
 
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024