Bygg
Bygg

Fréttir

Húsnæðisáætlun samþykkt
Mánudagur 19. maí 2025 kl. 06:05

Húsnæðisáætlun samþykkt

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum húsnæðisáætlun sveitarfélagsins til ársins 2033 eftir síðari umræðu þann 7. maí. Áætlunin var samþykkt með sjö atkvæðum meirihlutans en fulltrúar minnihluta sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Of mikil áhersla á fjölbýli

Í bókun frá Margréti A. Sanders fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins kom fram gagnrýni á að of mikil áhersla væri lögð á fjölbýlishús í framtíðaráætlunum sveitarfélagsins. Samkvæmt tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru 88% íbúða í byggingu í Reykjanesbæ á seinni hluta árs 2024 í fjölbýli. Flokkurinn lýsir áhyggjum af þróun sem hann telur einsleita og kallar eftir aukinni fjölbreytni í byggingarformi.

Þrátt fyrir að ákveðnar breytingar hafi verið gerðar á texta áætlunarinnar, þar sem fjölbreytni er nú áréttuð, sagðist flokkurinn ekki geta samþykkt áætlunina í heild og ákvað því að sitja hjá við afgreiðslu hennar.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Ekki nægilega skýr stefna

Margrét Þórarinsdóttir, fulltrúi Umbótar, lagði einnig fram bókun þar sem fram kom að ákveðnar athugasemdir flokksins hefðu verið teknar til greina. Hún gagnrýndi þó að skýr og raunhæf stefna um fjölbreytta íbúðagerð skorti enn í áætlunina og að hraði uppbyggingar samræmdist illa getu bæjarins til að fylgja eftir með innviðum. Umbót sat því einnig hjá við afgreiðslu.

Ábyrg framtíðarsýn

Guðný Birna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar og formaður velferðarráðs, fylgdi málinu úr hlaði fyrir hönd meirihlutans sem samþykkti áætlunina í heild sinni. Meirihlutinn telur áætlunina mikilvægt skref til að mæta húsnæðisþörf ört vaxandi sveitarfélags, með tilliti til áætlaðrar fjölgunar íbúa og þéttingastefnu sem hluta af skipulagslegri framtíðarsýn.