Fréttir

Byggja allt að 986 íbúðir í Hlíðarhverfi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 2. febrúar 2023 kl. 19:35

Byggja allt að 986 íbúðir í Hlíðarhverfi

Nýr 120 barna leikskóli byggður fyrir börn frá tólf mánaða aldri

Miðland, sem er í eigu BYGG, hefur fengið heimild til að byggja allt að 986 íbúðir í Hlíðarhverfi í Reykjanesbæ. Aukningin mun fyrst og fremst verða í þriðja og síðasta hluta hverfisins sem mun liggja sunnan Þjóðbrautar. Samningar þess efnis voru undirritaðir milli Reykjanesbæjar og fulltrúa Mið­lands síðastliðinn föstudag.

Áður en ráðist verður í uppbygginginguna þarf að gera nýtt deiliskipulag fyrir hverfið í heild. Á þessari stundu er óvíst hvenær framkvæmdir 3. hluta hefjast en framkvæmdum í fyrsta hluta er lokið og framkvæmdir í öðrum hluta eru í gangi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Reykjanesbær tekur að sér að kosta og breyta efsta hluta Þjóðbrautar, frá núverandi hringtorgi á mótum Skólavegar og Þjóðbrautar og að Flugvöllum, en BYGG mun annast verkið fyrir Reykjanesbæ.

Ef Miðland ákveður að setja jarðgöng undir þennan hluta Þjóðbrautar til að tengja saman 2. og 3. hluta hverfisins mun fyrirtækið kosta þá framkvæmd að fullu.

Vegna stækkunar hverfisins mun BYGG/Miðland byggja 120 barna leikskóla sem er hannaður af JEES arkitektum fyrir börn frá tólf mánaða aldri. Leikskólinn verður staðsettur í 2. hluta, sem nú er í uppbyggingu, og verður honum skilað á byggingarstigi 2 eða fokheldum. Auk þess mun BYGG/Miðland ganga frá bílastæðum og gangstéttum við leikskólann að fullu.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði við undirritun samninga að líklegt væri að þegar hverfið verður fullbyggt þurfi að vera búið að byggja þar annan leikskóla og grunnskóla. „Nú förum við í að reyna átta okkur á þeirri þörf og undirbúa þær framkvæmdir,“ sagði Kjartan.

Bæjarstjóri þakkaði forsvarsmönnum BYGG fyrir gott samstarf við gerð þessa samkomulags og sagðist sannfærður um að það muni koma öllum aðilum vel, þ.e. íbúum hverfisins, Reykjanesbæ og BYGG/Miðlandi.

Gott að geta byggt 100 íbúðir á ári

„Það verkefni hefur gengið nokkuð vel og jafnvel betur en við héldum. Við erum búnir með fyrsta áfanga og þar er búið að selja allar íbúðirnar en þar eru einbýlishús, parhús og fjölbýlishús. Við erum byrjaðir á öðrum áfanga þar sem við munum byggja leikskóla að ákveðnu marki. Við erum með í uppsteypu núna 150 íbúðir og getum farið að afhenda fyrstu íbúðirnar í sumar,“ segir Gylfi Ómar Héðinsson, annar eigandi BYGG, þegar hann er spurður út í uppbyggingu Hlíðahverfis.

„Þegar við keyptum landið á sínum tíma voru þetta um 480 íbúðir og með því sem við erum að skrifa undir núna munum við fjölga íbúðum í 986. Að hluta til verða einbýlishús, raðhús og fjölbýlishús í þessum þriðja áfanga,“ segir Gylfi þegar hann er spurður út í frekari byggingaráform og hvort verkefnið hafi tekið miklum breytingum frá því BYGG kom fyrst að uppbyggingu í Hlíðarhverfi.

Gylfi segir að í dag sé vont að gera áætlanir. Aðstæður á markaði hafi breyst og fólk eigi erfiðara með að fjármagna íbúðarkaup. „Stefnan hjá okkur er að það væri gott ef við getum byggt eitt hundrað íbúðir á ári. Þá myndi heildartíminn héðan frá vera tíu til tólf ár. Ef allt fer betur en á horfist í dag, þá geti tíminn orðið styttri.“

Framkvæmdir BYGG í Hlíðarhverfi skapa tugi starfa og fyrirtækið er í dag með um sextíu starfsmenn við uppbyggingu í 2. áfanga hverfisins. Það eru verkamenn, smiðir, múrarar, píparar og rafvirkjar.