Aðsent

Ógnar stefna stjórnvalda raforkuöryggi á Suðurnesjum?
Laugardagur 21. maí 2022 kl. 08:03

Ógnar stefna stjórnvalda raforkuöryggi á Suðurnesjum?

Sveitarfélagið Vogar hefur nú til umfjöllunar umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi til lagningar Suðurnesjalínu 2. Sveitarstjórnin hafði áður tekið umsóknina til umfjöllunar og synjað henni en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi þá ákvörðun úr gildi og málið því að nýju til umfjöllunar innan sveitarfélagsins.

Bæjarstjórn ákvað í kjölfar þessa úrskurðar að ráða sérstakan verkefnastjóra til að rýna sérstaklega og fara yfir þær ábendingar, athugasemdir og ávirðingar sem fram komu í úrskurði nefndarinnar. Einnig var ákveðið að fara þess á leit við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands að greind yrði náttúru- og eldgosavá innan sveitarfélagsins með tilliti til jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesi 2021.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nú liggja fyrir niðurstöður Jarðvísindastofnunar sem bendir á að í ljósi þess að nýtt tímabil eldsumbrota sé hafið á Reykjanesi sé mat á áhættu gjörbreytt. Jafnframt er sýnt fram á það að tillaga Landsnets um að Suðurnesjalína 2 verði lögð samsíða Suðurnesjalínu 1 sé ekki skynsamleg ráðstöfun. Ljóst er að bæði út frá hættu á hraunflæði og s.k. höggunarhreyfinga sé ekki skynsamlegt að allur orkuflutningur til og frá landshlutanum sé á tveimur loftlínum sem eru lagðar samsíða.

Sveitarfélagið Vogar samþykkti árið 2014 framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 en það mál endaði í kærumálum og dómsmálum sem lyktaði með að leyfisveitingin var dæmd ógild í Hæstarétti árið 2016. Í dómnum kom m.a. fram það álit Hæstaréttar að Landsnet hefði ekki lagt nægjanlegt mat á aðra valkosti en að leggja loftlínu. Í kjölfarið hóf því Landsnet vinnu að nýju við umhverfismat, og setti á laggirnar verkefnaráð sem haft skyldi samráð við um vinnslu valkostagreiningarinnar. Þeirri vinnu lauk með sömu niðurstöðu, þ.e. Landsnet lagði áfram til valkost C, þ.e. að Suðurnesjalína 2 yrði loftlína samhliða Suðurnesjalínu 1. Á vettvangi verkefnaráðs voru aðrir valkostir vandlega skoðaðir en jafnan voru viðbrögð Landsnets við öðrum valkostum þau að fyrirtækinu bæri skylda til að fara eftir stefnu stjórnvalda um flutningskerfi raforku.

Valkostagreining Landsnets var í kjölfarið send m.a. til Skipulagsstofnunar, sem gaf út það álit að skynsamlegt væri að fylgja valkosti B, þ.e. að leggja línuna sem jarðstreng samhliða Reykjanesbraut. Sveitarfélagið Vogar hefur á öllum stigum málsins lagt til að strengurinn yrði lagður í jörð, helst meðfram Reykjanesbraut en til vara meðfram Suðurnesjalínu 1.

Í upphafi árs 2021 hófst mikil jarðskjálftahrina á Suðurnesjum. Þann 19. mars hófst síðan eldgos í Fagradalsfjalli sem stóð í sex mánuði. Öllum má ljóst vera að sú staðreynd að jarðskjálftahrina hefur gengið yfir, og að eldgos átti sér stað, hlýtur að gjörbylta öllum fyrri forsendum um lagningu háspennulínu um svæðið. Niðurstaða Jarðvísindastofnunar er nokkuð ótvíræðar hvað þetta varðar, og því má með rökum nú segja að óskynsamlegt sé að leggja Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu meðfram Suðurnesjalínu 1. Í ljósi niðurstöðunnar sé það einfaldlega of mikil áhætta sem því fylgir, og því skynsamlegt að leita leiða til að dreifa áhættunni þannig að afhending raforku til og frá landshlutanum verði tryggð með minnstri áhættu, auk þess sem tryggt verði nægjanlegt framboð af raforku á svæðinu.

Stefna stjórnvalda sem áður hefur verið nefnd og Landsneti er skylt að fara eftir, byggir á þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, og var samþykkt á Alþingi 28. maí 2015. Ný þingsályktunartillaga var samþykkt á Alþingi þann 11. júní 2018, þ.e. þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í þessari þingsályktun var gefinn upp boltinn um endurskoðun á stefnu stjórnvalda frá árinu 2015 og tilgreint sérstaklega að þessi þingsályktun skyldi tekin til endurskoðunar á haustþingi 2019. Ekkert varð úr þeirri fyrirætlan og því gildir enn áðurnefnd þingsályktun frá 2015 sem stefna stjórnvalda.

Þrátt fyrir að áform um lagningu Suðurnesjalínu 2 hafi verið til umfjöllunar í fjölda mörg ár, með tilheyrandi þrætum og flækjum, hefur frumkvæði Alþingis um að taka stefnu stjórnvalda til endurskoðunar verið lítið sem ekkert, ef frá er talin áðurnefnd þingsályktun sem samþykkt var árið 2018 en dagaði síðan upp í þinginu. Það eina sem frést hefur frá hinu háa Alþingi er að lagt hefur verið fram þingmannafrumvarp um að svipta Sveitarfélagið Voga skipulagsvaldi í málinu og samþykkja með lögum framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 samkvæmt aðalvalkosti Landsnets. Enginn flutningsmanna frumvarpsins hefur leitað til Sveitarfélagsins Voga og kynnt sér sjónarmið eða afstöðu sveitarfélagsins til málsins. Það er dapurt.

Nú liggur fyrir að Jarðvísindastofnun telur að ekki sé skynsamlegt að leggja Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu meðfram Suðurnesjalínu 1. Landsnet situr við sama heygarðshornið og telur sér ekki fært að samþykkja neinn annan valkost en þann sem samræmist stefnu stjórnvalda. Sú áleitna spurning hlýtur því að vakna hvort ekki sé kominn tími til að Alþingi hefjist handa að nýju og ljúki við endurskoðun stjórnvalda um flutningskerfi raforku í landinu. Verði það ekki gert stefnir allt í að framkvæmdinni um lagningu Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu samhliða Suðurnesjalínu 1 verði þröngvað í gegn, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og þar sem afhendingaröryggi og flutningskerfi raforku til og frá Suðurnesjum er teflt í tvísýnu.

Ég hvet alþingismenn til að kynna sér málin og axla um leið ábyrgð með því að móta raunhæfa stefnu um flutningskerfi raforku og raforkuöryggi í landinu.

Ásgeir Eiríksson.

Höfundur er bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga.