Aðsent

Kæru kjósendur í Suðurkjördæmi!
Fimmtudagur 7. október 2021 kl. 16:19

Kæru kjósendur í Suðurkjördæmi!

Fyrir hönd frambjóðenda Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi vil ég þakka fyrir stuðning ykkar og hvatningu í aðdraganda kosninga til Alþingis Íslendinga 25. september síðastliðinn. Við munum leggja okkur fram við að vinna að framgangi jafnaðarstefnunnar hér eftir sem hingað til. 

Ég óska öðrum kjörnum þingmönnum til hamingju og vonast eftir þéttara samstarfi en áður um hagsmuni íbúa í Suðurkjördæmi. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í kosningaáherslum okkar lögðum við í Samfylkingunni höfuðáherslu á heilbrigðismálin og á að heilsugæsla í heimabyggð væri fyrir alla. Við lögðum fram skýra sýn á hvernig bæta mætti kjör eldra fólks og öryrkja. Barnabætur að norrænni fyrirmynd með óskertum barnabótum að meðallaunum er einnig forgangsmál okkar. Við leggjumst gegn sérstökum vegaskatti á Sunnlendinga fyrir sjálfsagðar vegabætur líkt og með nýrri brú yfir Ölfusá. Nýsköpun í atvinnumálum og öflugar menntastofnanir, þar á meðal Garðyrkjuskólinn að Reykjum, skipta verulegu máli fyrir búsetuskilyrði um allt kjördæmið. Umferðaröryggi er víða ábótavant og efla þarf lögreglu og viðbragðsaðila til muna.

Ég mun í starfi mínu sem þingmaður halda áfram að vinna ötullega að þessum málum. 

Okkar draumar og hugsjónir í Samfylkingunni snúast um velferð fyrir alla. Að verja hagsmuni vinnandi fólks, verja mannréttindi og verja almannahagsmuni gegn rótgrónum sérhagsmunum hér á landi. Það er hlutverk okkar jafnaðarmanna og við megum aldrei sofna á verðinum.

Við erum andstæðingar ranglætis og spillingar og viljum að langtímafjárfesting samfélagsins sé í menntun, heilsugæslu og umönnun barna.

Bestu kveðjur.

Oddný G. Harðardóttir.