Nærri hundrað ára gamalt fjölskyldufyrirtæki

Mikið raftækjaúrval í Ormsson í Keflavík

Fyrirtækið Bræðurnir Ormsson var stofnað 1. desember 1922 af þeim bræðrum Eiríki og Jóni Ormssyni og hefur fyrirtækið verið í eigu afkomenda þeirra meira og minna frá stofnun fram til dagsins í dag. Upphaflegur tilgangur félagsins var rekstur rafmagnsverkstæðis en fljótt þróaðist reksturinn á þann veg að hafinn var innflutningur á vörum framleiddum af AEG, en fyrirtækið hefur verið umboðsmaður þess vörumerkis frá 1923. Nú eru vörumerkin mun fleiri og verslunin heitir Ormsson í dag.

Suðurnesjamenn duglegir að versla heima

Ólöf María Karlsdóttir er verslunarstjóri í Ormsson við Hafnargötu en sú verslun hefur þjónað íbúum Suðurnesja í mörg ár. Hún segir jólatraffíkina vera að byrja en verslunin býður upp á gott vöruúrval. Það sem fæst ekki í búðinni en sem hægt er að nálgast innfrá hjá sama fyrirtæki er útvegað samdægurs eða daginn eftir.

„Við erum með frekar mikið úrval hérna en það er auðvitað mest að gera í raftækjum hjá okkur. Við seljum þvottavélar, eldavélar, hljómtæki, sjónvörp, rakvélar, straujárn, hárblásara og sléttujárn svo ég nefni eitthvað. Búsáhöld eru í miklu úrvali. Töfrasprotinn er alltaf vinsæll um jólin, pottar og pönnur. Nintendo-tölvur eru einnig alltaf jafn vinsælar fyrir krakkana. Fólk verður alltaf hissa þegar það kemur hingað inn og áttar sig á úrvalinu hérna og segir kannski: „Ó! Þetta er miklu stærri búð en ég hélt.“ Við flytjum vöruna heim til fólks en þar erum við í samstarfi við fyrirtæki sem tekur vægt gjald fyrir og hjálpar til við burðinn. Það er mjög þægilegt fyrir fólk sem getur ekki lyft sjálft. Það sparar líka fólki að þurfa að fara til Reykjavíkur til að kaupa sér sömu raftæki. Fólk getur skoðað heimasíðuna hjá okkur www.ormsson.is og komið svo til okkar og lokið viðskiptunum hérna. Við reynum að gera eins vel og við getum,“ segir Ólöf María.