Markaðsvirði Bláa Lónsins er yfir 30 milljarða króna

-Talsverður áhugi er á hlut HS Orku í Bláa lóninu

Erlendir framtakssjóðir hafa áhuga á að kaupa 30% hlut í Bláa Lóninu. Hluturinn er í eigu HS Orku en HS Orka gæti fengið í kringum tíu milljarða króna fyrir þann hlut. Bláa Lónið er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins að því er kemur fram í frétt Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins í gær.

Talsverður áhugi hefur verið á hlut HS Orku í Bláa Lóninu en HS Orka setti hlut sinn í söluferli um miðjan maí. Samkvæmt heimildum Markaðarins bárust tilboð frá þremur eða fjórum erlendum fjárfestingarsjóðum áður en frestur til þess að skila inn tilboðum rann út þann 30. júní síðastliðinn. Ef tekið er mið af þeim tilboðum þá er hægt að áætla að markaðsvirði Bláa lónsins sé nokkuð yfir 30 milljarða króna.

Talið er líklegt að það skýrist á næstu vikum hvort af viðskiptunum verði. Ráðgjafafyrirtækið Stöplar Advisory hefur umsjón með söluferlinu fyrir hönd HS Orku. Magma Energy, dótturfélag kanadíska félagsins Alterra, á 66,6% hlut í HS Orku og á samlagshlutafélagið Jarðvarma, sem er í eigu fjórtán lífeyrissjóða 33,4% hlut. Stjórn Jarðvarma þarf þó að gefa samþykki sitt, eigi möguleg sala að eiga sér stað. Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, og Anna Skúladóttir, stjórnarformaður HS Orku, sitja í stjórn Bláa lónsins.