Sýnir olíumálverk og skartgripi á Ránni

Karl Olsen gullsmiður og myndlistarmaður opnar málverkasýningu í Ingimundarbúð á veitingahúsinu Ránni í Keflavík föstudaginn 13. júlí nk. Á sýningunni verður Karl með fjölda málverka sem hann hefur unnið að síðustu misseri og einnig skartgripi sem hann hefur smíðað. Karl er gullsmiður og rak gullsmíðaverkstæði í Keflavík fyrir mörgum árum.
 
Í samtali við Víkurfréttir segir Karl að myndlistarmaðurinn hafi alltaf blundað í honum og hann hafi verið nokkuð öflugur við trönurnar í eina tíð og haldið fimmtán myndlistarsýningar, bæði einkasýningar og samsýningar. Hann hafi þó tekið sér frí frá málningunni þar til hann slasaðist í umferðarslysi og þríbrotnaði á hrygg. Þá hafi hann þurft að hætta að vinna og notaði því tækifærið að fara að mála á ný til dægrastyttingar.
 
Á sýningunni sem opnuð verður á Ránni á föstudag verða fjölmargar myndir sem hafa verið málaðar síðustu mánuði og misseri. Karl segir að helst séu þetta landslagsmyndir en einnig annars konar myndefni eða „skáldskapur“ eins og listamaðurinn orðaði það. Samhliða málverkasýningunni verður einnig sýning á skarti sem Karl hefur smíðað. Sýningin mun standa í hálfan mánuð.