Metþátttaka í söngvaskáldagöngu

- Lagið tekið í göngu um æskuslóðir Villa og Ellyjar

Metþátttaka var í söngvaskáldagöngu Útivistar Geopark en alls mættu 200 manns til þess að hlýða á sögur og söng þeirra systkina Vilhjálms og Ellyjar í Merkinesi.

Söngvaskáld á Suðurnesjum höfðu veg og vanda af dagskránni en þau hafa kynnt tónlistararf Suðurnesjamanna fyrir fullu húsi undanfarin ár. Dagný Gísladóttir sagði frá tónlist og lögum þeirra systkina en tónlistarflutningur var í höndum Arnórs B. Vilbergssonar og Elmar Þórs Haukssonar. 

Dagskrá hófst í Kirkjuvogskirkju og komust að færri en vildu en að því loknu var gengið áleiðis að Merkinesi og lagið tekið á leiðinni.
Bjarni Marteinsson, núverandi ábúandi á Merkinesi tók vel á móti göngufólki og sagði sögur frá æskuárum þeirra Vilhjálms og Ellyar. Að því loknu var lagið tekið og Hafnir buðu upp á fallegt sólsetur í tilefni dagsins.

Næsta og síðasta ganga sumarsins hjá Útivist í Geopark verður að Háleyjarbungu á Reykjanesi þann 24. ágúst. Gengið verður frá bílastæðunum við Gunnuhver.

Göngugestir hlýða á tónlistarflutning á Merkinesi, æskuheimili Villa og Ellyjar

 

Elmar Þór Hauksson og Arnór B. Vilbergsson gera sig klára í tónlistarflutninginn í Kirkjuvogskirkju.

Veðrið lék við göngufólk