Lokaorð Ingu Birnu: Að skara fram úr

Ég var talsvert föst í þeirri hugsun svona þegar ég var að nálgast miðjan aldur, hvernig líf mitt hefði orðið öðruvísi ef ég hefði vitað jafn mikið um lífið og tækifærin sem bjóðast þegar ég var unglingur. Af þeim sökum hef ég tekið ófáa fjölskyldufundi með dætrum mínum tveimur undanfarið, þar sem ég hef reynt að útskýra fyrir þeim hvernig þær eru skaparar eigin hamingju, hvernig það er undir þeim einum komið hvaða tækifæri þær ákveða að nýta sér til þess að ná árangri og að vera sáttar með lífið og tilveruna. Það var erfiðara en ég bjóst við að taka þessa umræðu, reyndi ansi marga vinkla til þess að styðja mál mitt; kvikmyndir, greinar, heimildamyndir ofl. Það er nefnilega frekar erfitt að koma einhverju jafn mikilvægu til leiðar til barnanna sinna byggt á eigin reynslu, sérstaklega þegar um ræðir nokkur kynslóðabil og áralangur munur í þroska og lífsins leik. Þeim leið eflaust eins og mér leið þegar foreldarar mínir eða amma og afi voru að reyna að leggja mér lífsreglurnar. Þegar maður er unglingur þá er maður ódauðlegur, tíminn stendur í stað og það er bara frekar nauðsynlegt að chilla.

Þarna er ég ekki að gagnrýna unga fólkið okkar í dag, þvert á móti og þess þá heldur dætur mínar sem nýta sín tækifæri afbragðs vel. Ég er heldur ekki að gera lítið úr eigin verðleikum, en finnst stundum eins og ég hefði geta gert betur og því hef ég viljað forðast að mín börn þurfi að díla við þessa hugsun þegar þær verða miðaldra. Ég hef hins vegar gert mér ljóst, þegar ég eins og aðrir Íslendingar verð vitni að gróskunni hjá íslenskum ungmennum í dag og afrekum þeirra á öllum sviðum, að orð eru óþörf í þessu samhengi. Við sem foreldrar höfum lagt okkar að mörkum í foreldrastarfi í skólum, tómstundum og gæðastundum og öll gert eins vel og við getum hverju sinni. Þetta er ekki spurning um að taka spjallið þegar börnin eru að verða fullorðin, við foreldrar erum að leggja inn í þeirra banka frá upphafi.

Ég hef því ekki minnstu áhyggjur af æsku landsins, foreldrabetrungar með meiru sem sjá einhvern veginn lífið fyrir sér á fallegan og áhyggjulausan hátt. Upplýstari en ég var nokkurn tímann sem unglingur og meðvitaðri um þau tækifæri sem þeim bjóðast. Hvort sem um menntun, afrek í íþróttum eða listsköpun er að ræða þá stöndum við ótrúlega vel með unga fólkið okkar. Við Íslendingar teljum 335 þúsund manns, sem er 0,4% af íbúafjölda Þýskalands eða 0,5% af íbúafjölda Frakklands. Þetta eru þjóðir sem við erum að keppa við í hópíþróttum eins og fótbolta, körfubolta og handbolta og berum okkur gjarnan saman við. Fáránlega skemmtilegt!