Mannlíf

Klassart í systurkeppni Júróvisjón
Þriðjudagur 22. apríl 2014 kl. 12:07

Klassart í systurkeppni Júróvisjón

Ekki markmiðið að meika það

Hljómsveitin Klassart frá Sandgerði tekur um þessar mundir þátt í evrópskri tónlistarkeppni, sem svipar nokkuð til Júróvisjón. Keppnin kallast Euro Music Contest en hún fer fram á netinu og ekki þarf að búa til tónlist sérstaklega fyrir keppnina, heldur eru hljómsveitir hvattar til að taka þátt með eigin efni. „Þannig var það með okkur en starfsmaður frá keppninni hafði samband við mig og spurði hvort við vildum ekki taka þátt. Keppnin er í haldin samstarfi við SoundCloud, sem er tónlistarmiðill á netinu, en þar fann þessi aðili nokkur lög með Klassart,“ segir Smári Guðmundsson gítarleikari Klassart.

Fyrsta keppnin var árið 2011 en þá tóku 28 lönd þátt. EMC hefur stækkað mikið síðan og í ár taka 40 lönd þátt en margar hljómsveitir og listamenn skrá sig frá hverju landi. Auk Klassart skráðu sig fjórir listamenn frá Íslandi til keppni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Markmið okkar er ekki að reyna að „meika það“ í svona keppni heldur að athuga hvað gæti mögulega komið út úr þessari þátttöku. Ef við komumst í úrslit keppninnar munum við koma fram á sérstökum EMC tónleikum í París síðar á árinu. Ætli það sé ekki gulrótin sem við eltum,“ bætir Smári við. Ef fólk vill aðstoða hljómsveitina að komast til Parísar getur það sett hakað við Klassart á heimasíðu keppninnar euromusiccontest.com/klassart, en hægt er að kjósa einu sinni á dag til 10. maí næstkomandi.

Það er annars að frétta af Klassart að ný plata er væntanleg eins og Fríða Dís segir í viðtali við Sjónvarp Víkurfrétta hér að neðan.