Þórkatla hefur samþykkt 95% þeirra umsókna sem bárust í mars
Stjórn Þórkötlu hefur samþykkt kaup á 510 fasteignum í Grindavík að andvirði um 40 milljarða króna. Þar með er búið að samþykkja um 95% þeirra umsókna sem bárust í mars og ekki kalla á sérstaka meðferð af hálfu félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Eins og fram hefur komið kláruðust samningar við lánveitendur húsnæðislána í bænum ekki fyrr en þann 21. apríl, eða fyrir rúmri viku síðan. Samningar þessir voru forsenda fyrir því að félagið gat hafist handa við kaup á eignum með áhvílandi lánum.
Í þessari viku hefur félagið gengið frá tæplega 300 kaupsamningum og sent til seljenda. Andvirði þessara samninga er um 26 milljarðar króna. Í næstu viku verður byrjað á umsóknum sem bárust félaginu á fyrri helmingi aprílmánaðar sem eru samtals 121.
Nokkur hluti umsókna hefur kallað á sérstaka skoðun af hálfu félagsins. Um er að ræða tilfelli þar sem brunabótamat hefur hækkað umtalsvert eða skráðum fermetrum fjölgað frá 10. nóvember síðastliðnum. Þá fór fram sérstök skoðun á umsóknum þar sem fyrir lágu nýlegir kaupsamningar þar sem kaupverð er umtalsvert lægra en brunabótamat eignarinnar. Félagið mun einnig gera sérstaka úttekt á þeim húsum þar sem ekki liggur fyrir lokaúttekt byggingarfulltrúa.
Félaginu berst mikið af fyrirspurnum og erindum frá Grindvíkingum og leitast er við að svara þessum erindum en vegna mikils fjölda getur verið nokkur töf á svörum. Félagið beinir því til Grindvíkinga og annarra að fylgjast með fréttum og gagnlegum upplýsingum á vef félagsins á island.is.
„Ég er ánægður með framgang mála og það sem við höfum áorkað síðustu vikur,“ segir Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu. „Við höfum skilning á því að sá hópur sem hefur enn ekki fengið úrlausn sinna mála sé óþolinmóður en miðað við hversu vel hefur gengið að undanförnu erum við bjartsýn á framhaldið. Það er okkur afar mikilvægt að Grindvíkingar fái sín mál á hreint sem fyrst og ég fullyrði að eru allir sem að verkefninu koma eru að leggja sig fram um að hraða öllu eins og hægt er.“