Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þrívíddarsónar í heimabyggð
Sunnudagur 28. apríl 2024 kl. 06:08

Þrívíddarsónar í heimabyggð

Barnshafandi konum á Suðurnesjum gefst nú í fyrsta sinn tækifæri til að fara í þrívíddarsónar í heimabyggð. Margrét Knútsdóttir, ljósmóðir, hefur látið draum sinn um kaup á sónartæki rætast.

„Ég hef endalausan áhuga á öllu sem viðkemur meðgöngu og fæðingu. Ásamt því að sinna ljósmóðurstarfinu til fjölda ára hef ég meðal annars kennt meðgöngujóga í að verða 15 ár og brenn fyrir því að gera meðgöngu kvenna sem ánægjulegasta. Mig hefur því í mörg ár dreymt um að eignast þrívíddarsónar og að geta veitt þessa þjónustu á Suðurnesjum“, segir Margrét ánægð en einnig verður hægt að koma til hennar í svokallaðan kynjasónar eftir 16. viku meðgöngu.

Margrét Knútsdóttir, ljósmóðir, hefur látið draum sinn um kaup á sónartæki rætast og opnað aðsetur að Aðalgötu 60 í Reykjanesbæ. Þar er hún í sama húsnæði og Heilsugæslan Höfða.

Kíkja á krílið

Meðganga er oft spennandi tími í lífi verðandi foreldra og í sónarskoðun gefst möguleiki á að að kíkja á krílið og tengjast því enn frekar. „Í þrívíddarsónar, sem konur koma í á um sjöunda eða áttunda mánuði meðgöngu, er hægt að sjá krílið hreyfa sig og ef til vill vinka, teygja úr sér eða opna augun. Eitthvað sem getur verið einstök upplifun. Þá get ég einnig útbúið stutt myndband í skoðuninni sem foreldrar fá sent ásamt nokkrum myndum,“ segir Margrét en ítrekar að svona skoðun er einungis til gamans gerð og ekki um fósturgreiningu að ræða. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Notaleg upplifun

Fyrirtæki Margrétar nefnist Lífsins tré og er með aðsetur að Aðalgötu 60, í sama húsnæði og heilsugæslan Höfða. Hægt er að velja á milli kynjasónar/tvívíddarsónar frá viku sextán og þrívíddarsónar frá viku 26 til 32 á meðgöngu. Skoðunin fer fram í hlýlegu og notalegu umhverfi og mikið lagt upp úr því að gera upplifunina sem besta.

Margrét ætlar fyrst um sinn að bjóða upp á tíma síðdegis á virkum dögum en hægt er fá nánari upplýsingar og panta tíma í gegnum vefsíðuna hennar www.lifsinstre.is