JS Campers
JS Campers

Mannlíf

Alli á Eyri hélt útgáfuhóf á Bryggjunni í Grindavík
Alli er mikill listamaður í sér.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 28. apríl 2024 kl. 07:15

Alli á Eyri hélt útgáfuhóf á Bryggjunni í Grindavík

Aðalgeir Jóhannsson, oft nefndur Alli í Möskva, Alli á Eyri eða Alli á Bryggjunni, hélt útgáfuhóf í gærkvöldi í tilefni af útgáfu bókar sinnar, Grindavíkurblúss, á neðstu hæð Bryggjunnar í Grindavík en þar liggja einmitt rætur Alla.

Fjölmargir Grindvíkingar lögðu leið sína á Bryggjuna og heiðruðu Alla á þessum merku tímamótum í lífi hans. Alli las eina af sögunum í bókinni upp fyrir viðstadda og er skemmst frá því að segja að hann ætlaði sér að lesa söguna í þremur hlutum en þar sem heyra mátti saumnál detta allan tímann á meðan hann las, var Alli beðinn um að klára alla söguna í beit. Það gerði hann með glöðu geði og ekki nóg með það, hann greip í gítarinn og flutti nokkur lög á sinn einstaka hátt en sumir gesta vilja meina að söngrödd Alla sé með þeim betri sem fyrirfinnast.

Áður en Alli las upp úr bókinni og tróð upp, gæddu gestir sér á frábærum veitingum sem Bíbí, eiginkona Alla hafði töfrað fram en hún sá um baksturinn á Bryggjunni á meðan þeir bræður, Alli og Krilli réðu þar ríkjum. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Var mál manna að einkar vel hefði tekist til og vildu sumir meina að þetta hafi verið táknrænt skref í endurreisn Grindavíkur.

Alli var djúpt snortinn þegar hann hélt heim á leið eftir vel heppnað kvöld á Bryggjunni sinni.

„Það verður mikið glaður maður sem leggst til hvílu í kvöld, þetta er búið að vera ofboðslega skemmtilegt og ég vona að gestir hafi skemmt sér eins vel eða betur en ég gerði. Viðtökurnar við bókinni minni, Grindavíkurblús, hafa farið fram úr mínum björtustu vonum og sýnist mér allt stefna í að ég þurfi að fá Svavar vin minn í Stapaprenti til að prenta annað upplag. Þeir sem vilja eignast bókina, ég er í símaskránni og þið getið hringt í mig hvenær sem er, ég mun glaður afhenda bókina í eigin persónu og ef viðkomandi vill fá hana áritaða, er það að sjálfsögðu í boði,“ sagði listaguð Grindavíkur.

Góður rómur var gerður að lestri og tónlistarflutningi Alla.

Fjölmargir Grindvíkingar...

... mættu á Bryggjuna.