Mannlíf

Íslenskar skáldsögur og blúshátíð
Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Föstudagur 18. apríl 2014 kl. 15:00

Íslenskar skáldsögur og blúshátíð

Kíkir með fjölskyldunni í kaffi til góðra vina sem hún er ekki búin að hitta lengi.

Þingkonan Silja Dögg Gunnarsdóttir nýtur þess að vera heima hjá mér með fjölskyldunni yfir páskahátíðina. „Ég er búin að fá lánaðar nokkrar íslenskar skáldsögur á bókasafninu sem mig hefur lengi langað til að lesa og ætla að láta verða af því í páskafríinu. Síðan ætla ég að vera dugleg að undirbúa garðinn og gróðurhúsið fyrir sumarið. Ég ætla á Blúshátíðina með góðum vinum og síðan ætla ég líka að nota fríið til að kíkja í kaffi til góðra vina sem ég er ekki búin að hitta lengi.“

Silja Dögg segist hafa keypt fimm páskaegg, eitt á mann, en þau hjónin fái sitt hvort og börnin líka. Allir verði að fá sinn eigin málshátt. Fyrir sjálfa sig keypti Silja Dögg sér Nóakropp egg frá Nóa Síríusi. „Það getur ekki klikkað!“
 
Sumarið er óðum að bresta á og við spurðum Silju Dögg um það. „Ég ætla nú ekki að ferðast mikið innanlands en við eigum lítinn bústað á Snæfellsnesi sem við reynum að vera mikið í á sumrin. Við tökum líka stefnuna á ströndina á Kanarí í sumar. Fengum lánað lítið hús við ströndina og ætlum að njóta lífsins þar öll saman.“
 
Hún segir veturinn hafa verið mjög viðburðaríkan og fljótan að líða og vegna þess að hún sé bjartsýn að eðlisfari eigi hún von á frábæru og sólríku sumri. „Mér finnst lang best að vera heima hjá mér og fyrir vestan í bústaðnum. Ég nota frítímann til að dunda mér í garðinum heima og fyrir vestan erum við með smá skógrækt. Ég elska að hlúa að gróðrinum, klippa tré og gras, fylgjast með fuglalífinu og horfa yfir hafið. Það besta við íslenska sumarið er ilmurinn, gróðurinn, birtan, krafturinn og gleðin. Jú, og svo auðvitað allar grillveislurnar!“
 
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024