Mannlíf

Hvetur bæjarbúa til þess að tala vel um bæinn sinn
Elín ásamt yngsta syni sínum, Hjörvari Inga. VF-mynd: Sólborg
Mánudagur 1. janúar 2018 kl. 06:00

Hvetur bæjarbúa til þess að tala vel um bæinn sinn

-Sjö manna fjölskylda flutti í Reykjanesbæ og líkar vel

Elín Hermannsdóttir vakti athygli á Facebook-síðunni „Reykjanesbær- gerum góðan bæ betri“ á dögunum þegar hún skrifaði færslu um það að fjölskylda hennar væri flutt í bæinn og alls staðar þar sem hún kæmi fengi hún hlýtt og gott viðmót. Þá sagði hún einnig í færslunni að sér þætti fólkið í bænum yndislegt.
Elín bauð blaðamönnum Víkurfrétta í heimsókn til fjölskyldunnar í Njarðvík og spjallaði um lífið í Reykjanesbæ.


Elín, Hjörvar Ingi þriggja ára, Mikael Freyr tólf ára, Ísak Máni fimmtán ára, Kristjána ellefu ára, Hilmar Ægir Þórðarson og Bergþóra Kristín sjö ára. VF-mynd: Sólborg

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Æskuvinurinn alltaf talað vel um Reykjanesbæ
Fjölskyldan flutti til Njarðvíkur í byrjun maí á þessu ári, en Elín segir fjölskylduna alsæla með lífið í Reykjanesbæ. Saman eiga þau hjónin fimm börn á aldrinum þriggja til fimmtán ára og hafa þau öll náð að aðlagast vel í bænum. Stórfjölskyldan átti heima í blokkaríbúð í Hafnarfirði en langaði að breyta til og því var ákveðið að selja íbúðina í Hafnarfirði og flytja í Reykjanesbæ eða nánar tiltekið í Njarðvík.

„Æskuvinur Hilmars, mannsins míns, býr hér og hann hefur alltaf talað vel um bæjarfélagið þannig við ákváðum að slá til þegar ég sá þetta hús til sölu. Um leið og við komum hingað fundum við fyrir því hvað það væri góður andi hérna. Allir eru svo hjálplegir og það eru allir tilbúnir að leiðbeina okkur. Alls staðar er samstaða í bæjarfélaginu og það finnst mér einkenna bæinn.“

Smullu inn í skólann
Elín starfar á Tjarnarseli og lofar vinnustaðinn sinn, en þar segist hún finna fyrir góðum anda. Hilmar starfar sem rafvirki og sinnir verkefni í Njarðvík um þessar mundir þannig það er stutt fyrir þau að fara í vinnuna.

„Börnin hafa aðlagast vel, þau eru í Njarðvíkurskóla og þar er hlúð vel að nýjum nemendum. Elsti strákurinn okkar var til að mynda að klára níunda bekk þegar við fluttum hingað og byrjaði í tíunda bekk í haust. Það er ekki auðvelt að rífa sig upp á þessum aldri en öll börnin okkar hafa samt sem áður smollið hérna inn og það virðist allt svo auðvelt.“

Þegar fjölskyldan flutti hingað í byrjun maí voru aðeins þrjár vikur eftir af skólanum, en börnin ákváðu samt sem áður að byrja í skólanum og voru í honum í þrjár vikur áður en að sumarfríið hófst. Elín segir að það hafi verið mjög gott þar sem þau hafi þá náð að eignast vini fyrir sumarið.

Krúttlegt hvað allir þekkja alla
Yngsti sonur þeirra hjóna komst strax inn á leikskóla þegar þau fluttu í bæinn og hefur hann aðlagast leikskólalífinu vel. „Það er eins og við höfum alltaf búið hérna. Mér finnst ótrúlega krúttlegt hvað allir þekkja alla. Það er frekar ólíkt Hafnarfirði.“
Elín er alin upp í Kópavoginum en Hilmar er Hafnfirðingur í húð og hár.

Mikil neikvæðni í bæjargrúppunni
Elín hefur verið inn á Facebook-síðunni Reykjanesbær - gerum góðan bæ betri síðan í maí og að hennar sögn grasserar þar of mikil neikvæðni. „Mér fannst umræðan oftast vera neikvæð. Ég reyni alltaf að hrósa, hvar sem ég er, í búðum og víða og fólk kann ekki alltaf að taka því af því það fær örugglega mikið af neikvæðni daglega. Það er svo margt gott hér í Reykjanesbæ sem önnur bæjarfélög hafa ekki.“

Stórfjölskyldan er ánægð með þjónustuna sem henni er veitt og sérstaklega það sem gert er fyrir börnin. Þá finnst henni umhverfið í Reykjanesbæ öruggt. „Hér er passað upp á það að enginn sé útundan. Við fengum símtal í sumar, þegar við vorum nýflutt, og við spurð hvort dóttur okkar vantaði ekki leikfélaga. Okkur fannst það svo fallegt. Mér finnst svo mikil samstaða hérna.“

Húsnæðiskaupin voru lukkupottur
Fjölskyldan þurfti ekki að standa í stórræðum þegar þau fluttu í húsnæðið sem þau búa í og segir Elín að þau hafi dottið í lukkupottinn. Fjölskyldan er komin hingað til lengri tíma enda sé það stórt skref að fara úr bæjarfélagi sem þau hafi lengið búið í. Flutningarnir hafi því ekki verið skyndiákvörðun.

„Elsti strákurinn okkar ætlar í FS og honum lýst vel á skólann. Við höfum verið að spyrjast fyrir og það eru flestir í FS, það er svo frábært að vera með þennan góða skóla hérna og ég persónulega sæki ekki mikla þjónustu í höfuðborgina, það er allt til staðar hér.“

Frábær þjónustulund í Reykjanesbæ
Reykjanesapótek hefur einnig fengið hrós á umræddri Facebook-síðu og segir Elín að þjónustan þar sé frábær. „Þetta er besta apótek sem ég hef verslað við og ég mun hvergi annars staðar versla. Eigandinn er frábær og ef mann vantar eitthvað utan opnunartíma þá opnar hún apótekið. Það er mikill kostur að geta farið á læknavaktina og svo beint til hennar,“ segir Elín og nefnir það einnig að þjónustan í Skóbúðinni á Hafnargötunni sé frábær. „Þegar maður kemur inn í verslanirnar hérna er manni heilsað.“

Mikilvægt að tala vel um bæjarfélagið sitt
Þegar Elín er spurð hver viðbrögðin við færslunni hennar í grúbbunni hafi verið segir hún þau hafa verið ótrúleg. „Ég er búin að fá fullt af skilaboðum og samstarfsfólkinu mínu fannst þetta frábært. Þeim finnst frábært að loksins hafi einhver komið með eitthvað jákvætt þarna inn. Persónulega finnst mér margt ljótt koma þarna inn. Við þurfum líka að tala vel um bæjarfélagið okkar,“ segir hún.

Njarðvíkingur en ekki Reykjanesbæingur
Fjölskyldan hélt sín fyrstu jól í nýju bæjarfélagi og framundan hjá þeim er vinna, skóli og íþróttir. „Við hlökkum til komandi mánaða. Það er svo mikið í boði fyrir börn hér í Reykjanesbæ, gott fótboltastarf og svo er fimleikaaðstaðan frábær, það er allt gert til þess að öllum líði vel í bæjarfélaginu, það er hlýlegt og notalegt.“

Þegar vinnufélagar Elínar spurðu hana hvar hún byggi sagðist hún búa í Reykjanesbæ. Þeir voru þá fljótir að leiðrétta það að hún byggi í Njarðvík þegar hún sagði þeim heimilisfangið. „Mér var sagt að ég væri Njarðvíkingur, segir Elín og hlær.“