Mannlíf

Hugleikur með uppistand í Hljómahöllinni
Hugleikur Dagsson djókari.
Miðvikudagur 23. apríl 2014 kl. 15:03

Hugleikur með uppistand í Hljómahöllinni

Djókaín í allra allra síðasta sinn annað kvöld.

„Ég hlakka mikið til. Það myndast svona gleðiblandinn kvíði innra með manni þegar maður gerir eitthvað í síðasta skipti. Þá bætast við alls konar mjög ruglaðir brandarar og þá er von á góðu...já eða vondu,“ segir Hugleikur Dagsson hlæjandi. Hann mun stíga á stokk í Hljómahöllinni annað kvöld kl. 20 með uppistand sitt Djókaín. Hann þróaði sýninguna á undanförnum árum úr besta efni sínu og ferðaðist víða um land.

„Það var alltaf ætlunin að koma í Reykjanesbæ en einhvern veginn orsakaðist það alltaf þannig að ekki hitti á réttan tíma og við lukum ferðinni í desember með stórri sýningu í Háskólabíói og í Hofi á Akureyri. Þá hélt ég að þetta væri bara búið. En svo datt þetta tækifæri á skrifborðið hjá mér að koma í Hljómahöllina og vera með mína allra allra síðustu sýningu,“ segir Hugleikur.

Hann segir sýningarnar hafa gengið mjög vel. „Eina æfingin til að gera svona uppistand er að framkvæma það. Það er ekki hægt að æfa sig einn fyrir framan spegilinn. Það þarf að sjá hvort áhorfandinn hlær eða ekki.“ Hugleikur skemmti einnig Finnum á heimaslóðum þeirra, á ensku, og tók þá út brandara sem skiljast bara á íslensku. „Þeir höfðu gaman að þessu. Þeir hafa svipaða kímnigáfu og Íslendingar.“

Aðspurður segist Hugleikur byrjaður að skrifa smávegis af nýju efni en það sé svo mikið að gera í öðru hjá honum. Það gerist hægt en hann hugsi að á þessu ári eða næsta gæti verið komið nægt efni fyrir nýja sýningu. „Ég gæti alveg hugsað mér að hafa slíka á tveggja ára fresti. Endilega kíkið annað kvöld!“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

VF/Olga Björt