Grindavík hefur margt að bjóða

Umferð hefur aukist mikið eftir opnun Suðurstrandarvegar. Mjög brýnt að laga almenningssamgöngur

Í dag er Grindavíkurbær ört stækkandi bæjarfélag á Reykjanesskaga en íbúar bæjarins eru orðnir 3.455 talsins. Við mæltum okkur mót við þau Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs, og Kristínu Maríu Birgisdóttur, upplýsinga- og markaðsfulltrúa, sem starfa bæði hjá Grindavíkurbæ.

Bæði eru þau ný í starfi, full af góðum hugmyndum og vinna mikið saman að ýmsum málefnum sem skarast, t.d. núna þegar þau eru að undirbúa Menningarvikuna sem fram fer í Grindavík í byrjun mars. Í aðdraganda að þeirri viku verður Safnahelgin á Suðurnesjum og hafa þau einnig verið að funda með aðilum sem koma að þeirri helgi.

„Við eigum í góðum samskiptum við þá sem eru í sambærilegri stöðu hér á Suðurnesjum, þau frá Markaðsstofu Reykjaness, Heklunni sem er atvinnuþróunarfélag Suðurnesja og Reykjanes Geopark,“ segir Eggert og Kristín María heldur áfram: „Núna erum við svolítið að finna flötinn. Bæði erum við ný í starfi og höfum tækifæri til að móta starfið, sjá hvernig þessi störf okkar þróast í náinni framtíð. Safnahelgin og Menningarvikan eru framundan en svo erum við einnig að skoða hvernig við getum markaðssett Grindavík og nágrenni. Við erum að vinna með ímynd bæjarins gagnvart ferðamanninum, bæði hinum íslenska og erlenda. Við erum ekki að hugsa um markaðssetningu gagnvart nýjum íbúum því innviðir bæjarins þurfa að þjóna öllum sem flytja hingað en sem stendur er lítið um laust húsnæði og fá leikskólapláss laus. Svo hlutverk okkar er að kanna leiðir til að viðhalda jákvæðri ímynd bæjarins.“

Eggert Sólberg og Kristín María Birgisdóttir.

„Kannanir sýna að bæjarbúum líður vel. Grindavíkurbær er íþróttabær og Grindvíkingar eru stoltir af íþróttastarfinu hér. Það er verið að bæta við nýjum íþróttasal og þá verður pláss fyrir fleiri íþróttagreinar. Þegar félagsheimilið Festi var selt, eign sem var í eigu bæjarins, þá var ráðist í miklar framkvæmdir til þess að hafa bæði sal til staðar, líkt og salurinn í Festi var, auk þess að styðja við íþróttaiðkun bæjarbúa,“ segir Eggert.

Ferðamennska gefur ný mið tækifæra

„Við vitum það að Grindavík er mjög eftirsóttur staður til að búa á en einnig til þess að heimsækja. Eftir að Suðurstrandarvegurinn opnaði í júní árið 2011 hefur umferðin aukist mikið hér í gegnum bæinn. Við sjáum að fleiri eru að koma hingað um helgar þegar fólk fær sér rúnt um Suðurlandið en vegurinn tengir saman þessar byggðir. Við vitum að íslenskir ferðamenn eru einnig að koma hingað þá leiðina. Höfnin hér í Grindavík er lifandi vinnustaður sjómanna og mörgum finnst skemmtilegt að skoða bryggjulífið þar. Lífið við höfnina vekur forvitni ferðalanga. Við erum stutt frá Reykjavík en bjóðum upp á allt aðra upplifun en borgin. Náttúran hér er kröftug, bara rokið niður við sjó er upplifun fyrir marga,“ segir Kristín María.

„Já, það getur verið magnað að labba Hópsnesið og horfa í öldurnar. Söfnin eru líka góð og vekja áhuga um sögu þjóðarinnar. Allt vinnur þetta saman að því að skapa góða upplifun af landi og þjóð. Náttúran hér gefur fólki svo mörg tækifæri til að upplifa. Partur af starfinu okkar er að sjá fyrir okkur hvað getur vakið áhuga gesta sem hingað koma. Bláa lónið er sterkur segull í ferðamennsku en það er svo margt annað sem laðar að svæðinu sem okkur finnst kannski svo sjálfsagt og tökum jafnvel ekki eftir. Við erum að skoða sjávartengdar minjar og hanna gönguleiðir um þær niður við sjó. Það er þegar kominn upp saga um skipsskaðana í Hópsnesi sem forvitnilegt er að skoða. Það þarf samt að varðveita hráleikann í náttúrunni,“ segir Eggert.

„Já, því það er ákveðinn sjarmi í hráleika náttúrunnar. Brimketill á Reykjanesi er gott dæmi þar sem byggð var örlítil aðstaða í kringum sjóinn þar sem fólk getur fundið kraftinn frá sjónum þegar hann frussast yfir það. En Grindavík er líka sveit, þú þarft ekki að fara langt til að sjá kindur og lömb að vori. Mér finnst það ómetanlegt að við eigum ennþá þessa hobbíbændur hér sem leyfa okkur hinum að njóta þess að fylgjast með sveitastörfum í bæ. Bara hestarnir sem eru hér út í gerði lokka okkur, sem viljum heilsa upp á hestana með börnin okkar, til sín og einnig myndavélar útlendra ferðalanga. Starf mitt sprettur upp í kjölfar mikillar aukningar í ferðaþjónustunni og mikilvægi þess að sveitarfélagið hafi tengilið á svæðinu við aðra aðila á svæðinu eins og Markaðsstofu Reykjaness. Ég hef umsjón með Kvikunni og tjaldstæðinu hér í bæ. Kvikan er auðlinda- og menningarhús en þar má sjá Guðbergsstofu, Jarðorkusýningu og Saltfisksýningu. Þarna er alltaf starfsmaður en hlutverk upplýsingamiðstöðva er alltaf að breytast og er í vinnslu um hvaða hlutverki þær eiga að þjóna. Upplýsinga- og markaðsstarf er í mótun. Ferðamál og markaðssetning koma sterk inn en það gefur mér tækifæri til að þróa starfið í samráði við yfirmenn mína,“ segir Kristín María.

„Við erum stutt frá Reykjavík en bjóðum upp á allt aðra upplifun en borgin. Náttúran hér er kröftug, bara rokið niður við sjó er upplifun fyrir marga,“Brimketill laðar að ferðamenn, íslenska og erlenda.

Þarf að bæta samgöngur á Suðurnesjum

Bæði Eggert og Kristín María tóku við starfi sínu rétt fyrir áramót og segjast þau vera að læra hvernig best sé að sinna starfinu. Þau hafa fjölmargar hugmyndir sem þau vilja hrinda í framkvæmd. Þau eru sammála um að bæta þurfi almenningssamgöngur á Suðurnesjum. Það sé forsenda góðrar ferðamennsku um svæðið okkar.

„Það er mjög brýnt að laga almenningssamgöngur hér. Við heyrum þetta oft í kringum erlenda ferðamanninn sem þekkir gott samgöngukerfi í heimalandi sínu, kemur hingað og reiknar með eins skilvirkum samgöngum. Það er mjög dýrt að taka leigubíl hér á landi. Við búum í hálfgerðu dreifbýli. Við gætum tengt þetta svæði okkar á Suðurnesjum miklu betur saman með því að fjölga strætóferðum og bjóða fleiri ferðir á klukkutímann. Fólk þarf líka að geta reitt sig á þessar ferðir,“ segir Eggert.

„Já, við þurfum að byrja einhvers staðar. Byrja á því að fjölga ferðum. Það er áhyggjuefni að menn séu ekki að huga að þessum þætti hér á Suðurnesjum, að tengja betur saman þau sveitarfélög og þá bæi sem eru staðsettir á Reykjanesskaga með betri samgöngum. Bara sem dæmi þá búast margir ferðamenn við því að geta notað samgöngur eins ört og þeir þekkja heiman frá sér þegar þeir koma hingað og einnig að strætó tengi þá betur innan svæðis okkar á Reykjanesskaga. Ef þeir vilja til dæmis búa á hóteli hér í Grindavík en langar að skreppa yfir í Garðsskagavita, og upplifa fjöruna eða vitana þar, þá er það ekki hægt því enginn strætó tengir saman þessar byggðir,“ segir Kristín María.

„Við búum á svæði sem er viðurkennt af UNESCO sem Geopark en á íslensku heitir það jarðvangur. Við erum með jarðminjar sem eru einstakar. Við búum á einstöku svæði, á sjálfum Atlantshafshryggnum þar sem flekaskilin eru mjög sýnileg. Á svæði þar sem jarðskjálftar og eldgos hafa mótað náttúruna. Hér höfum við Auðlindagarð sem er einstakur. Það þykir einstakt á heimsvísu að hér skuli búa allt þetta fólk á svona jarðhitasvæði. Við erum í raun á miklu grænna svæði en Íslendingar almennt gera sér grein fyrir. Raunverulegir náttúruunnendur vilja koma hingað og skoða svæðið sem við búum á. Þá þurfa almenningssamgöngur einnig að tóna saman við þetta umhverfi sem er svo ríkt af náttúruauðlindum. Þetta þurfa menn að fara að skoða í alvöru og bæta samgöngur, ef ekki fyrir okkur sjálf þá fyrir allan þann fjölda ferðamanna sem langar að taka strætó innan Reykjanesskagans. Þó að við sjálf séum ekki vön örum strætóferðum hér á Suðurnesjum þá eru gestirnir, sem heimsækja okkur utan úr heimi, mjög vanir góðri samgönguþjónustu. Tækifærin myndu stóreflast með bættum almenningssamgöngum fyrir Suðurnes á sviði ferðaþjónustu,“ segir Eggert.

Hvernig er stemningin í Grindavík?

„Grindvíkingar eru mjög samheldnir. Þegar ég flutti hingað þá upplifði ég að vera hluti af ákveðnu samfélagi. Maður sér að íbúum líður vel. Bæjaryfirvöld eru einnig staðráðin í að vinna að sameiginlegu markmiði fyrir íbúana. Við sem vinnum hjá bænum erum að þjóna íbúum og við viljum fá að heyra hvað þeim finnst. Það er kraftur í fólki hérna og menn eru ekki alltaf sammála en það er allt í lagi. Framundan hjá mér er meðal annars að undirbúa Vinnuskólann sem starfar í sumar með unglingunum,“ segir Eggert.

„Ég sé um heimasíðu bæjarins og við leggjum áherslu á jákvæðar fréttir úr bæjarlífinu. Við viljum fá að heyra frá bæjarbúum hvað þeim finnst. Við viljum virkja alla bæjarbúa og vinna verkefni með þeim og höfum góða reynslu af íbúafundum. Fólk er duglegt að segja skoðun sína. Það er engin ein leið rétt og því gott að viðra skoðanir allra. Fólk má gera raunhæfar kröfur. Við Eggert erum bæði með lítil börn og við viljum gera kröfur til bæjaryfirvalda um ákveðna þjónustu,“ segir Kristín María og brosir til Eggerts sem heldur áfram. „Já, það er satt en það er einnig hlustað á ungmenni bæjarins sem hafa sitt eigið ungmennaráð sem er skipað af sjö unglingum á aldrinum þrettán til átján ára. Í ungmennaráð er kosið en þau eru hluti af ráðum sveitarfélagsins og fá laun fyrir störf sín. Þau funda átta sinnum á ári og hafa áhrif á það hvað gert er fyrir unga fólkið í bænum. Við fluttum t.d. félagsmiðstöðina Þrumuna yfir í grunnskólann því þar vildu krakkarnir staðsetja hana en þar nýtist hún unglingunum einnig í frímínútum í skólanum. Þau ákváðu hvernig ungmennagarðurinn átti að líta út með aparólu og blakvelli en þar vilja þau setja upp ærslabelg bráðlega. Ungmennaráð fær einnig mál til umfjöllunar frá bæjarstjórn. Þau móta dagskrá sem hentar ungu fólki í bæjarhátíðinni Sjóarinn síkáti. Þau eru spurð álits og eru með framsögu einu sinni á ári á bæjarstjórnarfundi.“

Þekktir Grindvíkingar

Land Grindavíkur nær frá Reykjanestá og austur að sýslumörkum Árnessýslu. Samfelld byggð hefur verið í Grindavík frá landnámi. Samkvæmt Landnámu var Grindavík numin af þeim Molda-Gnúpi Hrólfssyni, sem settist að í Grindavík, og Þóri haustmyrkri Vígbjóðssyni, sem nam Selvog og Krýsuvík, stuttu fyrir árið 934.
Sjósókn stendur á aldagömlum merg í Grindavík og hefur sjómennska frá örófi alda verið stór þáttur í lífi bæjarbúa. Sjávarútvegur er enn þann dag í dag aðalatvinnugrein bæjarbúa.

Náttúrufræðingurinn Bjarni Sæmundsson fæddist og ólst upp í Grindavík. Þar er einnig fæddur Guðbergur Bergsson rithöfundur. Þá bjó héraðslæknirinn og tónskáldið Sigvaldi Kaldalóns einnig í Grindavík.

„Við gætum tengt þetta svæði okkar á Suðurnesjum miklu betur saman með því að fjölga strætóferðum og bjóða fleiri ferðir á klukkutímann.“

Frá menningarviku í Grindavík í fyrra. 

Séð yfir íþróttasvæði Grindavíkur.