Mannlíf

Fallegur garður sem má njóta allt árið
Laugardagur 14. júlí 2018 kl. 06:00

Fallegur garður sem má njóta allt árið

Kíkt í garðinn til Hannesar Friðrikssonar og Þórunnar Benediktsdóttur við Freyjuvelli í Keflavík

Garður Hannesar Friðrikssonar og Þórunnar Benediktsdóttur við Freyjuvelli í Keflavík er einn af fallegri görðum Suðurnesja. Mikil vinna hefur verið lögð í hann á síðustu árum. Það hafa hins vegar ekki verið margir dagar til að njóta garðsins í sumar en þegar sólin sýndi sig í fyrsta skipti af einhverri alvöru í júní tóku Víkurfréttamenn hús á þeim hjónum í fallega garðinum þeirra.
 
Þau Hannes og Þórunn voru eiginlega sammála um að Hannes ætti garðinn. Hann væri hans sköpunarverk og Þórunn sagðist frekar vera eins og „tólfan“ sem hvetur Hannes áfram í því sem hann er að gera. „Ég geri bara það sem mér er sagt að gera og svo fer ég út í garðinn að vinna,“ segir Hannes. „Ég gef honum kaffi og stundum bjór og hvet hann áfram,“ segir Þórunn. Hannes tekur undir það að hann verði viljugri til garðverka þegar bjórinn er í boði.

 
Fékk tiltal frá bæjarritaranum
 
Hannes og Þórunn keyptu húsið við Freyjuvelli árið 2004 og fyrstu tvö árin fóru í að halda í það sem var fyrir en svo hafi hlutirnir farið að gerast. Hannes hafi í mesta sakleysi farið og heilsað upp á nágranna sinn sem á þeim tíma var einnig bæjarritari Reykjanesbæjar. „Ég var bara saklaus maður úr Kópavogi og fór og kynnti mig og hann kynnti sig. Hann gekk út fyrir dyrnar hjá sér og sagði að hér þyrfti ýmislegt að gera,“ segir Hannes sem fékk ábendingu um að rífa þyrfti í burtu steinkistu við húsið og gera planið sómasamlegt. Hannes sagði eins gott að hlusta á bæjarritarann og hann hafi fljótlega farið í að rífa steinkistuna og flísalagt planið. Einnig hafi hann rifið í burtu hekk framan við húsið og ætlaði að láta það nægja.
 
Hannes segir að garðurinn hafi strax byrjað að þróast utanfrá og inn í garðinn með smá aðgerðum hingað og þangað. Trjám og plöntum var stungið niður um allan garð og sólpallurinn stækkaði í allar áttir. Hannes segist hafa verið með bogadregnar hugmyndir. Hann er innanhússarkitekt og því ráðist í að teikna upp garðinn og hafist handa við smíðavinnuna. Hann vildi líka vita hvort hann gæti smíðað bogadregið. „Mér tókst það nú,“ segir hann þar sem hann gengur með útsendurum Víkurfrétta um sólpallinn.
 
Við pallinn er myndarlegt tehús. Það er mikið notað til að drekka kaffibolla að morgni dags og nýtist í raun til að lengja tímann í garðinum. Tehúsið megi nota allt árið, löngu áður en garðurinn er kominn í blóma og langt inn í veturinn. Tehúsið veitir líka skjól og hlýju löngu eftir að sólin er farin handan við hornið.
Það er ekki bara mikill gróður í garðinum hjá Hannesi og Þórunni því hann er líka skreyttur með fjörugrjóti sem bæði er sótt í Hafnir og á Garðskaga.
 

Má ekki sjá garðyrkjustöð

Spurður um plönturnar í garðinum segist Hannes ekki mjög fróður um þær. Þegar hann sé spurður út í nöfn þeirra, segist hann þekkja plöntuna en muni bara ekki hvað hún heitir.
 
Spurður hversu margar tegundir plantna séu í garðinum þá svarar Hannes því til að þær séu örugglega yfir 100. Hannes segist reyndar eiga við vandamál þegar kemur að plöntum því hann megi helst ekki aka framhjá garðyrkjustöð. Hann þurfi alltaf að stoppa til að kaupa eitthvað nýtt og spennandi sem hann setji svo niður þegar Þórunn sjái ekki til.
 
„Í byrjun var ég bara að setja niður það sem mér þótti fallegt,“ segir Hannes. Sumt af því hafi lifað áfram, annað hefur fengið að víkja. Í garði þeirra hjóna eru mörg há tré og Hannes segir það sanna að það grær vel á Suðurnesjum, enda hafi veðurfræðingur sem Hannes ræddi við staðfest að vorið hefjist um mánuði fyrr á Suðurnesjum og haustið standi lengur en annars staðar á landinu. Það mæli því allt með garðrækt hér suður með sjó. Hannes segir að sumarið hafi sinn sjarma í garðinum en það hafi einnig haustið og veturinn. „Það eru últra seríuglaðir menn hér á svæðinu og þegar þú ert búinn að stinga seríu í samband í svona garði þá fer allt í einu líka að vera gaman í nóvember og desember,“ segir Hannes.
 
Grasið í garðinum vekur athygli Víkurfréttamanna og Hannes staðfestir að það liggi mikil vinna á bakvið það. Hann gangi um garðinn á sérstökum gaddaskóm til að gata grassvörðinn og hleypa súrefni til rótanna. Þá sé mosatætarinn óspart notaður og borinn sandur í grasið með reglubundnum hætti.
 
Í gróðurhúsi á bakvið bílskúrinn er Þórunn með ræktun á kryddjurtum og þangað inn fær Hannes einnig að stigna plöntum sem hann er að rækta áður en þær fara í sjálfan garðinn. Inni í gróðurhúsinu er góður hiti yfir sumartímann og yfir vetrarmánuðina fær gróðurhúsið einnig hita frá eimbaði í bílskúrnum.

 
Hlaðið grill í bílskúrnum
 
Talandi um bílskúrinn, þá hefur heimilisbíllinn ekki komið þar inn í mörg ár. Í skúrnum er fjölnota aðstaða. Þar er vinnustofa og þar má einnig slá upp veislum því inni í skúrnum hefur Hannes hlaðið grill þar sem auðveldlega má grilla átta læri samtímis. Grillið er af brasilískri fyrirmynd og er mikið notað að sögn þeirra Hannesar og Þórunnar. Þau fái oft fjölskylduna í mat og þá hafi grillið einnig komið að góðum notum þegar þau buðu til sín fjölmenni þegar þau svo giftu sig óvænt í garðinum góða. Þau eigi því margar og ljúfar minningar úr garðinum sínum við Freyjuvelli.

 
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Glæsilegur garður við Freyjuvelli