Fæddist hjá foreldrunum í baðkarinu heima

„Valdi rétt náði að komast inn á bað til að vera viðstaddur fæðinguna. Hann var bara inni í eldhúsi að elda súpu,“ segir Berglind Skúladóttir, en sonur þeirra Skúli Þorvaldsson, fæddist tveimur vikum fyrir tímann í baðkarinu heima þann 16. júlí síðastliðinn.

Foreldrarnir höfðu ákveðið að fæða hann heima, en vegna þess hversu hratt sá litli vildi komast í heiminn komst ljósmóðirin ekki í tæka tíð til að vera viðstödd fæðinguna. „Þetta var ótrúlega venjulegur sunnudagur og ekkert sem benti til þess að ég væri að fara að eiga. Ég var bara í göngutúr og heimsóknum. Klukkan rúmlega sex finn ég svo að belgurinn springur og um 40 mínútum síðar en hann fæddur,“ segir Berglind.

Það leið ekki nema um það bil korter, frá því að Berglind áttaði sig á því að Skúli væri að fara að fæðast og þangað til hann var kominn í heiminn. Að sögn Þorvaldar tók fæðingin sjálf einungis um mínútu. „Það var svo gaman að vera bara tvö. Þetta var mjög sérstakt. En það var líka rosa gott að vera búin að undirbúa það að fæða hann heima,“ segir hann, en að hraði fæðingarinnar hafi hins vegar ekki verið í kortunum. „Súpan sauð bara upp.“

Þetta var fjórða fæðing Berglindar, en sú fyrsta sem átti sér stað heima fyrir. „Það heillaði mig að fá að fæða í mínu umhverfi. Við vorum búin að undirbúa allt á heimilinu. Við leigðum fæðingarlaug og ég var búin að sjá fyrir mér að ég yrði bara í henni í tvo, þrjá tíma að slaka á í stofunni. Þorvaldur ætlaði að taka myndir, kveikja á tónlistinni og svona,“ segir hún, en enginn tími hafi þó gefist til þess og Skúli litli fæðst á „núll einni“. „Ef ég heyrði þessa sögu einhvers staðar þá myndi ég halda að fólk væri að ljúga,“ bætir hún við.

Hjónin ákváðu að hringja á sjúkrabíl eftir að Skúli fæddist til vonar og vara. „Svo hringdum við í aðra ljósmóður sem býr rétt hjá og bæði sjúkrabíllinn og hún voru komin eftir nokkrar mínútur. Þá var klippt á naflastrenginn. Það er mjög þægilegt að vera í bæjarfélagi þar sem maður þekkir alla,“ segir Berglind.
Hún segist algjörlega mæla með heimafæðingum og að hún myndi kjósa þá leið aftur. „Það er aðeins farið að aukast að konur fæði heima. Ég var aldrei hrædd við það að fæða heima, en ég veit ekki hvort ég hefði þorað því í fyrstu fæðingunni. En við vorum alveg ákveðin og róleg yfir þessu allan tímann. Ég er líka hjúkrunarfræðingur og Þorvaldur tannlæknir svo við erum nú bæði svona heilbrigðisvön.“

Skúli Þorvaldsson hefur dafnað vel og er duglegur að drekka og hvíla sig. „Hann er eiginlega bara eftir bókinni. Það eru allir alveg í skýjunum.“

solborg@vf.is