Public deli
Public deli

Mannlíf

Erum eins og FIFA í kokkabransanum
Laugardagur 14. desember 2013 kl. 10:38

Erum eins og FIFA í kokkabransanum

- Segir Keflvíkingurinn Ragnar Friðriksson framkvæmdastjóri virtustu og elstu matreiðslusamtaka heimsins

Keflvíkingurinn Ragnar Friðriksson starfar sem framkvæmdastjóri virtustu og elstu matreiðslusamtaka heims. Samtökin eru með 10 milljón kokka á sínum snærum víðs vegar um heiminn. Ragnar hefur verið fjarri heimahögum síðan á tvítugsaldri en hann er nú búsettur í kampavínshéraðinu í Frakklandi ásamt fjölskyldu sinni.

Ragnar er fæddur og uppalinn í Keflavík og þaðan á hann góðar minningar. Eins og svo margir úr Bítlabænum þá spilaði Ragnar körfubolta og vann hann fjölda titla með sigursælum árgangi sem m.a. Hjörtur Harðarson og Nökkvi Már Jónsson léku með. Friðrik Ragnarsson, faðir Ragnars var hinn dæmigerði Keflvíkingur, en hann spilaði með gullaldarliði Keflavíkur í fótboltanum á sjöunda áratugnum og var auk þess í hljómsveit eins og tíðkaðist í Keflavík á þeim tíma. Ragnar segist koma skammarlega lítið á æskuslóðirnar en hann kom síðast til Íslands í haust til þess að vera viðstaddur brúðkaup systur sinnar sem búsett er í Reykjanesbæ. Þá kíkti hann á Ljósanótt og rakst á mörg kunnugleg andlit.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á faraldsfæti frá unga aldri

Ragnar eyddi æskuárunum í Keflavík en hann hefur ávallt verið á faraldsfæti. Faðir hann fluttist til Englands þegar Ragnar var ungur og þar dvaldi hann löngum stundum. Þegar hann var 16 ára fór hann sem skiptinemi til frönskumælandi Kanada. Hann fluttist til Reykjavíkur þegar hann var 18 ára til þess að sækja þjónanám á Grillinu og síðar í Perlunni. Hann fluttist síðar til Noregs þar sem hann nam hótelrekstur í háskóla. Þar bjó hann um fimm ára skeið, starfaði og kláraði háskólanámið. Leiðin lá svo til Englands þar sem Ragnar fór í meistaranám í tvö ár. Þar kynntist Ragnar fyrrum eiginkonu sinni og saman fluttu þau til heimalands hennar, Frakklands en þar hefur Ragnar búið síðustu 13 ár.

Í Frakklandi var Ragnar að fást við útgáfu bóka, þá aðallega matreiðslubóka, þar til fyrir fjórum árum síðan, þegar honum bauðst spennandi starf sem framkvæmdastjóri alheimssamtaka kokka (WACS Worldchefs). Ragnar þekkir vel inn á starfssvið kokka en hans starf fellst fyrst og fremst í markaðssetningu og stjórnun samtakanna. Árið 2008 var Gissur Guðmundsson kjörinn forseti samtakanna. Hann átti sér þá hugsjón að samtökin ættu að eiga sér skrifstofu sem helst ætti að vera staðsett í París. Þannig komst hann í kynni við Ragnar sem var ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri. Ragnar segir að þeir félagar hafi nánast þurft að byrja starfið á núlli þrátt fyrir að um gamalgróin samtök sé að ræða. „Þetta eru 85 ára gömul samtök en engu að síður var engin skrifstofa til staðar og starfið ekki ýkja skipulagt,“ segir Ragnar en nú hefur starfsfólk verið ráðið til samtakanna víðs vegar um heiminn.

Ragnar hefur verið á ferð og flugi að undanförnu en þegar blaðamaður náði af honum tali var hann staddur í Sviss á kokkakeppni. Skömmu áður hafði blaðamaður samband þegar Ragnar var staddur í hæstu byggingu heims í Dubai. Þar áður var Ragnar í Asíu en hann hefur verið á miklu ferðalagi undanfarinn mánuð. Það virðist því margt framandi og spennandi við starf Ragnars.
„Við erum svona eins og FIFA í fótboltanum. Hér á þessari keppni í Sviss er einmitt verið að notast við reglur frá okkur sem ákveðnar eru af sérstakri nefnd kokka frá öllum heimshornum,“ segir Ragnar en starf hans fellst að miklu leyti í því að kenna kokkum þessar reglur þar sem þeir geti svo dæmt í slíkum keppnum sjálfir. Einnig beita samtökin sér að krafti fyrir menntunarmálum kokka þannig að samræma megi gæðastimpil kokka alls staðar úr heiminum með alþjóðlegum skírteinum. „Það er þannig með kokkanámið að gæði og nám eru mismunandi milli landa og okkar starf er að reyna að samræma gæðin og kröfurnar í námi.“

„Litlu“ Íslendingarnir í fararbroddi

WACS Worldchefs samtökin eru þau stærstu og virtustu í heimi matreiðslunnar. Tæplega 100 lönd eru meðlimir í samtökunum sem m.a. vinna mikið að mannúðarmálum. Ragnar segir að íslensk matargerð sé fremur hátt skrifuð í matarheiminum og norræn matargerð er sífellt að sækja í sig veðrið. Forseti, framkvæmdastjóri, ritari og varaforseti þessara virtu samtaka eru allir íslenskir. Það þykir ansi merkilegt. „Þetta er í fyrsta skipti í sögu samtakanna sem svona lítil þjóð er í fararbroddi. Við erum líka afar stoltir af því að það hefur aldrei eins mikið gerst síðan íslenska liðið tók við stjórnartaumunum,“ en vegna stöðu sinnar hafa Íslendingarnir gott tækifæri til þess að kynna íslenska matarmenningu og landið sjálft. Ragnar segir að það felist m.a. í því að efla ímynd norrænnar matargerðar og ekki síst orðspor íslenskra matreiðslumeistara. Ragnar telur að í þeirri vinnu þurfi samtökin á stuðningi íslenskra hagsmunaaðila að halda, stjórnvalda, fyrirtækja og hagsmunasamtaka á sviði ferðamála.

Ragnar ferðast víða vegna vinnu sinnar. Hér er hann í Asíu.

Franskur um jólin

Frakkland hefur unnið sér stað í hjarta Ragnars og þegar kemur að því að halda jólin segist hann vera orðinn mjög franskur. Á boðstólnum á hans heimili eru kræsingar sem við hér á Fróni erum líklega ekki vön á sjá um jólin. „Ég geri yfirleitt fjögurra rétta máltíð. Þar er ég með steikta hörpuskel í forrétt en auðvitað byrjar maður á kampavíninu. Því næst er ég með nautalundir með steiktri andarlifur, það er ofsalega gott. Svo eru það bara ostar og eftirréttir að frönskum sið.“ Ragnar tekur það þó fram að íslenskt góðgæti laumist stundum með. Þá sérstaklega hangikjöt og grafinn íslenskur lax.

[email protected]