Sigrún mætir með Korda Samfóníu í Hörpu
Hljómsveitin Korda Samfónía heldur tónleika í Hörpu 2. júní en sveitinni stjórnar Keflvíkingurinn Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths, stofnandi og listrænn stjórnandi MetamorPhonics í London.
Á þremur starfsárum hefur Korda Samfónía orðið að þekktum og reglulegum lið í íslensku tónlistarlífi. Árlegir tónleikar hljómsveitarinnar hafa fengið frábæra dóma og þá var Korda Samfónía tilnefnd til Íslensku Tónlistarverðlaunanna fyrir „debut“ tónleikana sína 2022 og fékk hvatningarverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna á degi íslenskrar tónlistar 1. des 2023 fyrir að nýta tónlist og miðla henni á skapandi máta til að efla fólk til frekari virkni í samfélaginu.
Hljómsveitarmeðlimir Kordu Samfóníu eru nemendur Listaháskóla Íslands og fólk á mismunandi stöðum í endurhæfingu eftir lífsbreytandi áföll og heilsubrest. Tónlist Kordu Samfóníu er áhrifarík og kraftmikil, samin af hljómsveitarmeðlimum í sameiningu!
Korda einkennist af jafnrétti; vingjarnlegu, stuðningsríku og skapandi andrúmslofti þar sem fólk vinnur saman, skapar, lærir, styrkist og vex.
Korda er samstarfsverkefni MetamorPhonics, Listaháskóla Íslands, Tónlistarborgarinnar Reykjavík, Hörpu og starfsendurhæfingamiðstöðvum víðsvegar um landið. Verkefnið er styrkt af Borgarsjóði, Styrktarsjóði geðheilbrigðis, Lýðheilsusjóði og Tónlistarsjóði.
Í janúar 2024 veitti Rannís Listaháskóla Íslands viðamikinn, þriggja ára rannsóknarstyrk til að rannsaka verkefni MetmorPhonics, listræna stjórnun og áhrif á bæði þátttakendur í endurhæfingu sem og á nemendur í háskólanámi. Verkefninu er stýrt af Listaháskóla Íslands en aðrar menntastofnanir sem taka þátt eru York St John háskólinn í Norður Bretlandi, Háskólinn á Bifröst og Guildhall Listaháskólinn í London.
Fyrsti viðburður rannsóknarverkefnisins fer fram á Listahátíð í Reykjavík, þar sem fagaðilum úr heilbrigðis- og listageiranum verður boðið að taka þátt í skapandi ferli Kordu Samfóníu með meðlimum hljómsveitarinnar fyrir framan áhorfendur. Áhorfendur og þátttakendur geta stöðvað ferlið á hvaða tímapunkti sem er til þess að spyrja spurninga um það sem fram fer eða ræða áhugaverð augnablik ferlisins.
Tónleikarnir verða í Silfurbergi í Hörpu og hefjast kl. 19:30.
Miðasala er á harpa.is