Þetta eru tvær líklegustu sviðsmyndirnar komi til eldgoss
Veðurstofa Íslands hefur uppfært þær sviðsmyndir sem taldar eru líklegastar þegar kemur að eldsumbrotum á Reykjanesskaganum og koma fram í frétt frá stofnuninni nú síðdegis.
Sviðsmynd 1 gerir ráð fyrir eldgosi milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells. Það er svipuð staðsetning og eldgos sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar 2024 og 16. mars 2024. Líklegur aðdragandi er staðbundin smáskjálftahrina milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu. Mjög stuttur fyrirvari yrði að eldgosi á þeim slóðum, eða innan við 30 mínútur jafnvel enginn fyrirvari. Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi á 2 til 4 klukkustundum, samkvæmt þeirri sviðsmyndi.
Sviðsmynd 2 gerir ráð fyrir eldgosi sunnan eða suðvestan við Hagafell. Það er svipuð staðsetning og eldgos sem hófst 14. janúar 2024. Líklegur aðdragandi er smáskjálftahrina sem byrjar nærri Stóra-Skógfelli eða Sýlingarfelli og færist suður, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu. Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið. Hraun gæti náð að varnargörðum við Grindavík á um eina klst. Kvikuinnskot sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík, segir í samantekt Veðurstofu Íslands.
Í hættumati Veðurstofunnar sem gefið var út í dag og gildir til 21. maí að öllu óbreyttu er ekki gert ráð fyrir gosopnun án fyrirvara á Svæði 4, sem er m.a. þéttbýlið í Grindavík og Þórkötlustaðarhverfi. Hættumatið gerir ráð fyrir mikilli hættu á jarðfalli ofan í sprungur, sprunguhreyfingum, hraunflæði, gasmengun og jarðskjálftum á því svæði.
Þá segir Veðurstofa Íslands að heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi hefur aldrei verið meira frá því fyrir 10. nóvember. Huga þarf að fleiri sviðsmyndum ef kvikusöfnun heldur áfram án kvikuhlaups eða eldgoss. Hingað til hefur verið horft til þess magns kviku sem bætist við í kvikuhólfið á milli kvikuhlaupa eða eldgosa. Þegar talað er um að kvikuþrýstingur sé að aukast í kvikuhólfinu undir Svartsengi er gott að horfa á það heildarmagn kviku sem áætlað er að sé til staðar.
Frá 25. október til 10. nóvember 2023 söfnuðust rúmlega 10 milljón m3 af kviku undir Svartsengi. Þegar 15 km langur kvikugangur myndaðist þann 10. nóvember er talið að um 80 milljón m3 af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu. Því má gera ráð fyrir að um 70 milljón m3 af kviku hafi verið til staðar í kvikuhólfinu undir Svartsengi á þeim tímapunkti. Kvikusöfnun hefur haldið óslitið áfram síðan þá og kvika hlaupið að minnsta kosti fimm sinnum frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina. Fjögur af þessum fimm skiptum hafa endað með eldgosi.