Keflvíkingar einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum
Njarðvíkingar með bakið upp við vegginn fræga
Keflavík vann annan leikinn í röð gegn grönnum sínum í Njarðvík þegar liðin mættust öðru sinni í úrslitum Subway-deildar kvenna í körfuknattleik nú í kvöld. Keflvíkingar hafa því stillt Njarðvíkingum upp við vegginn fræga en Njarðvíkurkonur að vinna næstu þrjá leiki ætli þær sér að hampa bikarnum.
Njarðvík - Keflavík 71:81
(24:30 | 19:14 | 13:20 | 15:17)
Heimakonur komust í fimm stiga forystu í byrjun leiks (6:1) en Keflvíkingar náðu að snúa við taflinu og komust í níu stiga forystu (14:23) með þrjár og hálfa mínútu eftir af fyrsta leikhluta. Gestirnir höfðu sex stiga forystu þegar annar leikhluti fór í gang (24:30).
Keflvíkingar héldu svipaðri forystu þar til um miðjan annan leikhluta en góður kafli Njarðvíkinga breytti stöðunni úr 28:40 í 43:44. Njarðvíkingar á góðri siglingu og aðeins eitt stig á milli liðanna í hálfleik.
Njarðvík náði forystu í upphafi síðari hálfleiks en Keflvíkingar voru ekki á því að láta það viðgangast lengi og tveir þristar frá Söru Rún Hinriksdóttur og einn frá Daniela Wallen komu þeim sjö stigum yfir Njarðvík (50:57). Emelía Ósk Gunnarsdóttir setti niður fjórða þrist gestanna í þriðja leikhluta og breikkaði bilið í níu stig (55:64) en Emelie Hesseldal setti niður eitt vítaskot áður en þriðji leikhluti var allur (56:64).
Keflvíkingar náðu þó ekki að hrista Njarðvíkinga af sér og heimakonur gerðu hverja atlöguna að gestunum eftir aðra en þegar munurinn var kominn niður í svona fimm stig bættu Keflvíkingar í, lokuðu vörninni og juku muninn á ný.
Að lokum hafði Keflavík tíu stiga sigur (71:81) og eru nú með pálmann í höndunum því einn sigur í viðbót gerir þær að Íslandsmeisturum.
Hjá Njarðvík var Andela Strize stigahæst með 17 stig og þær Selena Lott og Emilile Hesseldal voru með 15 stig hvor. Isabella Ósk Sigurðardóttir 10 stig, Ena Viso 6 stig, Jana Falsdóttir 5 stig og Krista Gló Magnúsdóttir 3 stig.
Sara Rún Hinriksdóttir var öflug í liði Keflavíkur með 23 stig og næst á eftir henni var Elisa Pinzan með 18 stig. Thelma Dís Ágústsdóttir og Daniela Wallen voru með 10 stig hvor, Anna Ingunn Svansdóttir, Anna Lára Vignisdóttir og Emelía Ósk Gunnarsdóttir 6 stig hver og Eygló Kristín Óskarsdóttir 2 stig.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, fréttamaður Víkurfrétta, tók viðtöl eftir leik sem má sjá í spilurum hér að neðan. Myndasafn úr leiknum er neðst á síðunni.