Ég tek ekki lýðræði sem sjálfsögðum hlut

Fida Abu Libdeh, frumkvöðull og framkvæmdastjóri flutti þjóðhátíðarræðu dagsins á 17. júní í Reykjanesbæ

Kæru bæjarbúar, gleðilega hátíð!
Það er mér mikill heiður að standa fyrir framan ykkur í dag og vera með ræðu dagsins á þjóðhátíðardegi Íslands.
Ég heiti Fida Abu Libdeh og er fædd og alin upp í Palestínu, ég og fjölskyldan mín fengum nóg af góða veðrinu, sólinni og sælunni alla daga, þannig við ákváðum að finna stað þar sem er vindasamast. Við leituðum hvar í heiminum væri hvassast og þá kom Reykjanesbær efst á lista, þess vegna er ég með ykkur hér í dag.

Að öllu gríni slepptu, þá komum við að sjálfsögðu til Íslands til að leita að betri framtíð, betri menntun og betra lífi.
Við erum komin hingað saman í dag til að fagna lýðræði, ég tek ekki lýðræði sem sjálfsögðum hlut. Ég er alin upp í landi sem hefur ekkert lýðræði, fólkið mitt hefur ekki einu sinni kosningarétt. Mest allan tímann sem ég var að alast upp var faðir minn í fangelsi fyrir það eitt að vera blaðamaður og skrifa sínar skoðanir.
Ég tek ekki lýðræði sem sjálfsögðum hlut og fagna deginum í dag með ykkur sérstaklega! Ég veit að með lýðræðinu fylgir ábyrgð, jafnrétti og jöfn tækifæri. Ég get sagt það með stolti að við hérna í Reykjanesbæ tökum ábyrgð um jafnrétti og jöfn tækifæra alvarlega. Í dag eru akkúrat tíu ár frá því að ég flutti til Reykjanesbæjar. Það er ótrúlegt horfa til baka á líf mitt fyrir 10 árum, svo margt hefur gerst; frá því að vera með grunnskólapróf í að vera með meistaragráðu, frá því að vinna í láglauna starfi í að vera með mitt eigið fyrirtæki. Við yrðum í allan dag ef ég ætti að telja upp allt sem Reykjanesbær hefur fært mér.

Þegar fólk sem þekkir mig ekki, þá aðalega fólk utan Reykjanesbæjar, (því ég er auðvitað svo fræg hérna:), spyr mig hvaðan ég er, þá segi ég Suðurnesjum, þá spyrja þau aftur; nei hvaðan ertu? Ég segi Reykjanesbæ, þá segja þau aftur; ,,nei, nei, hvaðan ertu?“ …Ég, já, já, Keflavík, Ásbrú…
,,Nei, hvaðan ertu ættuð?“ Þá fatta ég hvað þau eru að meina og segi að ég er fædd í Palestínu.
En einmitt eitt af grundvallarþörfum okkar er að tilheyra samfélagi. Fyrsta skipti frá því ég flutti til Íslands finnst mér eins og ég tilheyri samfélagi, að ég sé jafningi, það er horft á það sem ég hef, en ekki það sem ég hef ekki.

Ég tek ykkur ekki sambæjarbúar mínir sem sjálfsögðum hlut, ég tek ekki tækifærum sem ég fékk hér í Reykjanesbæ sem sjálfsögðum hlut.
Ég er þakklát þessum tækifærum sem ég hef fengið og vil hvetja ykkur til að halda áfram gefa öllum jöfn tækifæri, sýnum umburðarlyndi, því við erum öll jafningar og eigum skilið jafnrétti.

Ég vill enda á því að segja: Hér á ég heima og vil hvergi annarsstaðar búa!

(Fida Abu Libdeh, frumkvöðull og framkvæmdastjóri flutti þjóðhátíðarræðu dagsins á 17. júní í Reykjanesbæ.)