Mannlíf

Ákveðinn galli að allir þekki alla
Laugardagur 30. september 2017 kl. 08:00

Ákveðinn galli að allir þekki alla

- Grindvíkingurinn Diljá Líf Guðmundsdóttir svarar spurningum um lífið og tilveruna suður með sjó

Hvað ertu að bralla þessa dagana?
Ég vinn alla virka daga á veitingastað sem afi minn á hérna heima í Grindavík. Svo vinn ég líka fyrir snyrtivörumerkið NYX Professional Make Up, auk þess að vera á fullu í skemmtilegum verkefnum og myndatökum með vini mínum Gauja H, sem er klárlega einn flottasti ljósmyndari landsins.

Hvað finnst þér best við það að hafa alist upp á Suðurnesjum?
Ég held það besta við að búa í Grindavík og að hafa alist upp hér sé að þetta er ekki of stórt svæði, eins og Reykjavík til dæmis. Það þekkjast líka allir hér, sem er ákveðinn galli líka býst ég við.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ef þú mættir mæla með einhverju einu af svæðinu fyrir þá sem búa ekki hér, hvað væri það?
Grindavík er alveg ágætur bær, þannig ég myndi skilja það vel ef ferðamenn myndu frekar vilja koma hingað heldur en einhvert annað á Suðurnesjum. Grindvíkingurinn ég fer allavega ekki að mæla með Keflavík, það er víst massíft tabú.

Hvað ætlar þú að gera í vetur?
Ég verð að öllum líkindum bara að vinna á fullu og í förðunarverkefnum. Ég mun reyndar eyða jólunum og áramótunum á Tenerife, sem er fínt fyrir „Grinch“ eins og mig, þar sem ég er ekki aðdáandi jólanna.

Hvað finnst þér mega fara betur í Grindavík?
Ég veit ég er ekki ein um það þegar ég segi að skólamálin hér hafi aldrei verið eitthvað framúrskarandi. Þau hafa að vísu batnað örlítið síðustu ár en eru alls ekki fullkomin. Þá er ég sérstaklega að tala um hvernig starfsfólkið þar tæklar hluti eins og einelti. Eins er með krakka sem glíma við hluti eins og athyglisbrest eða ADHD og eiga þá erfiðara með að læra og halda fókus. Það þyrfti helst að fræða kennarana og starfsfólkið um það hvernig best væri fyrir þau að hjálpa þeim krökkum, svo þau eigi séns á að fá það sama úr skólagöngunni sinni og aðrir krakkar.